Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Predikun í Vídalínskirkju á skírdag , 28. mars 2024
Ég ætla að segja ykkur sögu. Hún er um þennan fimmtudag fyrir 2000 árum. Það var veisla. Jesús bauð sínu fólki. Pétur og Jóhannes áttu að elda. Eða kannski kaupa mat úti í bæ. Nokkrum öldum seinna málaði Leonardo da Vinci heimsfræga mynd af veislunni. Vinirnir tólf sitja með Jesú við borðið.
En þeir voru ekki tólf. Þeir voru fleiri og það er áreiðanlegt af því að listarnir yfir vinina tólf eru mismunandi í guðspjöllunum og hafa fleiri en tólf nöfn. Og svo hafa áreiðanlega verið konur. Þótt það sé ekki skrifað. Það þótti asnalegt að skrifa um konur. En guðspjallamennirnir skrifuðu samt um þær. María Magdalena, Jóhanna og Súsanna voru þarna í Jerúsalem og höfðu komið með Jesú að norðan og þær voru fleiri sem voru nafngreindar. Heldurðu að það getið verið að Jesús hafi látið þær sitja einhversstaðar í gistiskýli og kaupa skyndibita meðan hann hélt þessa yndislegu veislu, síðustu kvöldmáltíðina? Ég held ekki. Og ætli hann hafi ekki boðið Mörtu og Maríu frá Betaníu þarna rétt hjá? Við vitum það ekki, en ætli ekki bara?
Hann var að tala við hópinn sinn í síðasta sinn. Ég fer, sagði hann en þið takið við stjórninni. Við höldum áfram eins og við höfum gert. Kannski sögðu þau að þau treystu sér ekki til að stjórna. Og Jesús sagði þeim að það væri ekki flókið. Þau sem stjórnuðu ættu bara að bera umhyggu fyrir hinum og láta þau alltaf vita um allt sem þau þyrftu að vita. Kannski sögðu þau að það myndi aldrei ganga en Jesús sagði að galdurinn væri bara sá að þau sem fengju að þiggja forystuna ættu að vinna með […]