Hægt er að kaupa bækur Kvennakirkjunnar hjá Kvennakirkjunni og í Kirkjuhúsinu.

Kaffihús vinkvenna Guðs

Kaffihús vinkvenna Guðs er biblíuskýringar séra Auðar Eirar Vilhjálmsdóttur.  Bókin er í pappaöskju með fjórum heftum.  Þau eru um Markúsarguðspjall, Postulasöguna með bréfum  Nýja testamentisins og Gamla testamentið. Fyrsta heftið er um umhyggju okkar fyrir sjálfum okkur og heitir Vertu leiðtogi í þínu lífi.  Öll Biblían er um  umhyggju Guðs sem hvetur okkur til að  bera umhyggju fyrir sjálfum okkur.  Við finnum urmul af spurningum og svörum í Biblíunni og lesum hana í ljósi kvennaguðfræðinnar.   Kvennaguðfræðin er frelsandi máttur sem þarfnast áhuga kvennakirkjunnar um allan heiminn.  Við spyrjum hvað við eigum sameiginlegt með gömlum textum Gamla testamentisins og nýrri skrifum Nýja testamentisins og hvernig Guð tali við okkur eins og hún talaði við fólkið sem er sagt frá.  Hvað segir þú?
Bókin kom út 2021

Göngum í hús Guðs

Göngum í hús Guðs er handbók helgihalds Kvennakirkjunnar.  Það er grundvallað á lúterskri kvennaguðfræði með nýjum hugmyndum um guðþjónustuna.   Guðþjónustan er ramminn um fagnaðarerindið sem er alltaf það sama og aðalatriðið er ekki formið heldur innihaldið.  Kvennakirkjan hefur haldið guðþjónustur frá byrjun starfs síns 1993 og mótað messuform sitt smátt og smátt.   Í bókinni er talað um Guð í kvenkyni, skrifað á máli beggja kynja, þar eru biblíutextar, bænir, trúarjátningar, sálmar og ljóð  í útlegginu Kvennakirkjunnar og í stað syndajátningar eru þakkir fyrir fyrirgefningu Guðs sem býður okkur að fyrirgefa sjálfum okkur.  Guðþjónustan er þjónusta Guðs við okkur,  hún er boð sem hún heldur okkur til endurnýjunar og fagnaðar og sendir okkur út í veröldina til að verða okkur og öðrum til blessunar.  Bókin er gefin út í nafni allrar  Kvennakirkjunnar og Aðalheiður Þorsteinsdóttir söngstjóri kirkjunnar annaðist útgáfuna með okkur öllum.
Bókin kom út 2020

Bakarí Guðs

Hvað meinti Lúter með því að allt skírt fólk sé prestar? Er skynsamlegt að tala um réttlætingu af trú? Ætli Lúter myndi mæla með því núna að söfnuðir ráði presta? Er leyfilegt að hafa margvísleg form í guðsþjónustum?

Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir er prestur Kvennakirkjunnar og ein þeirra sex kvenna sem stofnuðu hana árið 1993. Hún var fyrsta konan sem vígðist í íslensku þjóðkirkjunni, 1974. Hún varð þá sóknarprestur á Suðureyri við Súgandafjörð og seinna í söfnuðum Árbæjar, Kálfholts og Þykkvabæjar í Rangárvallasýslu og sérþjónustuprestur á Biskupsstofu. Hún sat í framkvæmdastjórn Lúterska heimssambandsins frá 1977 til 1984 og hefur tekið þátt í kvennastarfi lútersku kirkjunnar. Hún er heiðursdoktor við guðfræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2000.

Bókin kom út árið 2012.

Gleði Guðs, sem læknar sektarkennd, kvíða, einsemd og reiði og gefur fyrirgefningu, frelsi, frið og femínisma.

Gleði Guðs fjallar um tilfinningar daglegs lífs og um möguleika okkar til að þekkja þær, búa með þeim og nota þær til góðs. Hún fjallar um sektarkennd, fyrirgefningu og kvíða, en líka um frelsið sem við höfum til að hugsa góðar hugsanir. Hún fjallar um einsemd og reiði, en líka um frið hjartans. Hún fjallar um möguleika kvennaguðfræðinnar. Guð tekur þátt í öllu lífi okkar og gefur okkur hugsanir sínar. Hún fyrirgefur okkur og þess vegna megum við fyrirgefa sjálfum okkur. Og þegar við treystum fyrirgefningu Guðs finnum við frelsi og frið bæði hversdags og spari.

Bókin er einnig saga kvennahreyfingarinnar sem er uppspretta styrks og gleði. Hvers vegna og hvenær hóf kvennahreyfingin baráttu sína? Hverju er barist fyrir núna?

Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir er prestur og starfar í Kennakirkjunni. Auður byggir á starfi sínu í söfnuðunum sem hún hefur unnið með , kvennaguðfræðinni sem hún hefur tekið þátt í að móta um áratuga skeið og sálgæslustarfinu sem hún vinnur.

Bókin kom út árið 2004.

Brauð og rósir

 

Brauð og rósir er fyrsta sönghefti Kvennakirkjunnar.  Í því eru 16 frumortir textar íslenskra kvenna við lög úr ýmsum áttum.  Aðalheiður Þorsteinsdóttir söngstjóri Kvennakirkjunnar sá um val laganna, útsetningu og tölvusetningu.  Textahöfundar eru Eygló Eyjólfsdóttir, Sigríður Magnúsdóttir, Kristjana Jónsdóttir, Bjargey Arnórsdóttir og Auður Eir Vilhjálmsdóttir.  Guðrún Björnsdóttir sá um myndskreytingar.  Skálholtsútgáfan gaf heftið út á 10 ára afmæli Kvennakirkjunnar, 14. febrúar 2003.

Vinkonur og vinir Jesú

Biblían er gersemi. Hún talar um líf kvenna og karla á löngu liðnum öldum og í þeim frásögnum finnum við möguleika okkar sjálfra. Konur og karlar þurfa að heyra orð Guðs hljóma til kynjanna beggja og konur þurfa að heyra fyrirheitin sem þeim voru gefin hljóma á máli sem talar í þeirra eigin kyni. Þess vegna valdi Kvennakirkjan texta úr gersemum Biblíunnar til að snúa á máli beggja kynja.

Í bókinni er Markúsarguðspjall, fjallræðan, ræða Jesú við síðustu kvöldmáltíðina, kaflar úr Lúkasarguðspjalli og textar úr guðþjónustum kvennakirkjunnar.

Bókin kom út árið 1999.

 

Vinátta Guðs

 

 Við verjum öll ævinni með einni mannseskju. Við erum sjálf þessi manneskja. Það skiptir öllu hvað okkur finnst um sjálf okkur. Við mótum eigin sjálfsmynd. En um leið höfum við sífelld áhrif hvert á annað með vináttu okkar eða vináttuleysi. Öll vinátta sem við eigum er vinátta Guðs. Kvennaguðfræði fjallar um líf kvenna, sjálfsmynd þeirra og hugmyndir. Hún á heima bæði í kirkjunni og kvennahreyfingunni. Í henni eru settar fram hugmyndir um að komast frá því sem bindur konur og til þess frelsis sem Guð skapaði þær til að eiga. Frelsun kvenna er líka frelsun karla, því þegar konur taka við hugsunum Guðs um breyttan heim er það öllum til góðs.

Guð er jafnt móðir okkar og faðir. Guð er vinkona okkar. Konur geta fundið fyrirmynd sína í Guði sem er vinkona þeirra og vann sömu störf og konur vinna. Hún gaf fólki sínu mat og föt og umvafði það ástríki. Hún átti um leið allt valdið á himni og jörðu og notaði valdið og umhyggjuna ávallt samtímis. Guð er valdamikil og umhyggjusöm og við erum eftirmynd hennar.

Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir hefur rannsakað kvennaguðfræði í fimmtán ár. Hún er einn stofnenda Kvennakirkjunnar. Hún vígðist til preststarfa í Súgandafirði árið 1975 og er fyrsta konan sem tók prestvígslu á Íslandi. Bókin kom út á tuttugu ára vígsluafmæli hennar.

Bókin kom út árið 1994.