Bænir Kvennakirkjunnar

Morgunbæn.  Elsku Guð,  það er svo gott að vita það þegar ég vakna að þú ert löngu vöknuð á undan mér.  Nú fer ég í sturtu og hita svo  kaffi handa okkur.  Takk fyrir að spjalla við mig meðan við fáum okkur morgunkaffið og fara með mér þegar ég hendist af stað,  Eða vera með mér heima.  Ég vil verða þér til sóma í dag, ég veit þú þarfnast mín eins og ég þarfnast þín.  Mig langar svo að verða til blessunar í dag.  Amen
 
Kvöldbæn.  Takk fyrir daginn, elsku Guð vinkona mín.  Þetta gekk nú flest vel.  Sumt gekk svo miklu betur en ég þorði að vona.  Ég er þér svo þakklát fyrir að vera með mér.  Ég veit ég hefði valdið þér vonbrigðum í sumu, ef þú værir nokkuð að láta mig valda þér vonbrigðum.  Þú þekkir mig og veist hvernig ég get brugðist við og lætur það ekki bitna á mér.  Fyrirgefðu það sem mér mistókst.  Og hjálpaðu mér til að fyrirgefa mér líka.  Og til að hlakka til morgundagsins og sofa vært í nótt.  Takk, elsku Guð.  Amen