Kvennaguðfræði er guðfræði sem konur skrifa um vináttu Guðs í lífi þeirra sjálfra og allri veröldinni fyrr og síðar. Hún er um löngun okkar og möguleika til að nota kristna trú okkar í daglegu lífi, svo að við séum sáttar við sjálfar okkur eins og við erum, sjáum hvað við erum yndislegar manneskjur, og getum þess vegna ráðist í þær breytingar sem okkur langar til að gera í lífinu. Bæði í lífi sjálfra okkar og lífinu umhverfis okkur. Við viljum hafa áhrif með því að koma fram með hugmyndir kvennaguðfræðinnar og vinna að framgangi þeirra. Alls þessa vegna verðum við sífellt að ástunda og efla kvennaguðfræði okkar, enda er hún grundvöllur gleði okkar og styrks.

Við þurfum ekki að breyta af því að við séum ómögulegar, við getum breytt af því að við erum yndislegar. Við getum notað hæfileikana sem við höfum og látið ógert að skammast okkar fyrir að hafa ekki hæfileika sem við höfum ekki. Einhverjar hinna hafa þá, og við njótum hæfileika hver annarrar. Við erum bæði líkar og ólíkar. Við skiljum hver aðra af því að við eigum í mörgu sömu reynsluna og gefum hver annarri rými til að vera hver á sinn hátt. Við kennum hver annarri að segja VIÐ, og með því lærum við að segja ÉG í meira og glaðlegra sjálfstrausti.

Vinátta Guðs sem við sveipum hver um aðra kennir okkur að finna lífssýn okkar og lífsstíl, nota tímann og mátt okkar og njóta lífsins. Það er engan veginn það að vera sjálfumglaðar, það er bara að nota trú okkar á Guð til að eiga trú á sjálfar okkur, aðrar manneskjur og lífið.

Konur hafa lengi skrifað kvennaguðfræði, og nokkrir menn hafa líka skrifað. Stefnur kvennaguðfræðinnar eru ýmsar og viðfangsefnin líka. Sumar skrifa biblíuskýringar, aðrar skrifa um feðraveldið, um kirkjuveldið, um frelsun og frelsi kvenna, um mátt kvennasamstöðunnar, um stjórnun kvenna, um starfsmöguleika kvenna, sögu kvenna og margt fleira. Kvennaguðfræði er skrifuð um allan heiminn, og það gerir hana margvíslega. Kvennaguðfræðin var fyrst skrifuð í Norður-Ameríku og Evrópu en svo bættist kvennaguðfræði frá Afríku, Asíu og Suður-Ameríku við.

Hún segir frá konum sem börðust fyrir afnámi þrælahalds á 19. öld og gegn böli áfengisneyslu, fátæktar og menntunarskorts og fyrir því að kristin trú yrði boðuð víða um heiminn. Margar fremstu baráttukvenna kvennahreyfingarinnar sóttu mátt sinn til kristinnar trúar.