Upplýsingar

Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Predikun í Vídalínskirkju á skírdag , 28. mars 2024
Ég ætla að segja ykkur sögu.  Hún er um þennan fimmtudag fyrir 2000 árum.  Það var veisla.  Jesús bauð sínu fólki.  Pétur og Jóhannes áttu að elda.  Eða kannski kaupa mat úti í bæ.  Nokkrum öldum seinna málaði Leonardo da Vinci heimsfræga mynd af veislunni.  Vinirnir tólf sitja með Jesú við borðið.  
En þeir voru ekki tólf.  Þeir voru fleiri og það er áreiðanlegt af því að listarnir yfir vinina tólf eru mismunandi í guðspjöllunum og hafa fleiri en tólf nöfn.  Og svo hafa áreiðanlega verið konur.  Þótt það sé ekki skrifað.  Það þótti asnalegt að skrifa um konur.  En guðspjallamennirnir skrifuðu samt um þær.    María Magdalena, Jóhanna og Súsanna voru þarna í Jerúsalem og höfðu komið með Jesú að norðan og þær voru fleiri sem voru nafngreindar.  Heldurðu að það getið verið að Jesús hafi látið þær sitja einhversstaðar í gistiskýli og kaupa skyndibita meðan hann hélt þessa yndislegu veislu, síðustu kvöldmáltíðina?  Ég held ekki.  Og ætli hann hafi ekki boðið Mörtu og Maríu frá Betaníu þarna rétt hjá?  Við vitum það ekki, en ætli ekki bara?  
Hann var að tala við hópinn sinn í síðasta sinn.  Ég fer, sagði hann en þið takið við stjórninni.  Við höldum áfram eins og við höfum gert.  Kannski sögðu þau að þau treystu sér ekki til að stjórna.  Og Jesús sagði þeim að það væri ekki flókið.  Þau sem stjórnuðu ættu bara að bera umhyggu fyrir hinum og láta þau alltaf vita um allt sem þau þyrftu að vita.  Kannski sögðu þau að það myndi aldrei ganga en Jesús sagði að galdurinn væri bara sá að þau sem fengju að þiggja forystuna ættu að vinna með þeim sem veittu hana.  Þetta ráð er nú yfirskriftin í námskeiðunum miklu um stjórnum sem eru haldin svo mörg og alltaf fleiri úti um allan heiminn. 
Hópurinn skildi mest lítið af því sem Jesús var að segja þeim.  Hann varð að segja þeim það af því að hann var að fara.  Ég fer til þess að ég geti komið og verið alltaf hjá ykkur og stjórnað með ykkur og gefið ykkur hugrekkið og gleðina sem þið þurfið. Hann tók af veislumatnum á borðinu, bara það sem þau höfðu daglega í matinn og þekktu svo vel.  Hann tók brauðið og vínið, braut brauðið og hellti víninu og sagði að svona yrði líkami hans brotinn og blóðið myndi fossa og það væri allt fyrir þau.  Og þau skyldu halda áfram að halda þessar máltíðir.
Við fáum þessa máltið í kvöld.  Og við getum haldið hana heim hjá okku í hverju morgunkaffi.  Guð situr við borðið með okkur og talar við okkur og við segjum henni það sem við viljum og hún tekur frá okkur angist okkar og gefur okkur kjark og gleði.  Af því að Jesús gaf okkur þessa máltíð og talaði við okkur.  
Hann kom og hann fór og kom aftur  og svo kemur hann aftur og skapar nýjan heimin og nýja jörð.  Ættum við að hugsa okkur að Guð hafi ekki komið ennþá?   Hún kæmi til þín í morgunkaffi og segðist ætla að spyrja þig ráða?  Finnst þér ég ætti að koma, segði hún.  Hvað segðir þú?  Ef hún spyrði mig myndi ég hugsa mig um ag segja vingjarnlega og nærgætin að mér fyndist það ekki.  Nei, elskan ég held bara ekki.  Fólk er ekki að hugsa svoleiðis.  Það er að hugsa margt og það er leitandi en það vill bara ákveða þetta  sjálft.  Það er mikið að hugsa um heilun og spirituality og eitthvað svoleiðis.  En það leyfir þér oft að fljóta með, svona eins og því sýnist.  Ættirðu ekki bara að slá til og notfæra þér hvernig þau gera þetta?
Ef ég segði þetta myndi hún segja.  Takk elskan.  En ég ætla samt að koma.  Ég myndi ekki skilja það en ég myndi ekki mótmæla.  
En ég þarf ekki að hugsa svona af því að hún er komin.  Hún er Jesús. Í Kv