Nýja testamentið varð til í starfi fyrstu safnaðanna á fyrstu öldinni.

Postulasagan, sem kemur á eftir guðspjöllunum, segir frá stofnun safnaðanna. Bréfin, sem koma
á eftir Postulasögunni, segja frá því sem var að gerast. Í guðþjónustunum var sagt frá lífi og orðum
Jesú og þau sem höfðu þekkt hann sögðu frá. Upprisa hans var aðalatriðið og sannaði að hann
var sá sem hann sagðist vera. Hann var Guð sem kom til okkar.

Þau sem höfðu verið með honum gátu ekki verið í öllum söfnuðunum sem urðu fleiri og fleiri.
Tíminn leið og þau dóu. En annað safnaðarfólk skrifaði vitnisburð þeirra. Það er upphaf guðspjallanna tveggja,
Markúsar og Lúkasar. Þeir voru ekki með Jesú en þekktu auðvitað urmul af safnaðarfólki
sem hafði þekkt hann. Matteus og Jóhannes voru í hópi vinkvenna hans og vina og
skrifuðu það sem þeir höfðu sjálfir séð, en sjálfsagt líka það sem annað fólk sagði frá.
Frásögurnar sem voru skrifaðar niður voru lesnar í guðþjónustunum og afrit send í aðra söfnuði.
Svo var þessum frásögum safnað saman og guðspjöllin fjögur urðu til og voru fullrituð
fyrir lok fyrstu aldarinnar. Fleiri guðspjöll voru skrifuð og við þekkjum þau núna, eins
og Tómasarguðspjall og guðspjall Maríu Magdalenu og Júdasar. Þau voru þekkt þá
en aðeins hin fjögur guðspjöll voru viðurkennd sem hin helgu rit safnaðanna.

Söfnuðirnir voru í sífelldu sambandi við postulana sem ferðuðust um og prédikuðu
og hughreystu og samglöddust. Þeir skrifuðu söfnuðunum bréf sem voru lesin í
guðþjónustunum. Þau eru flest kennd við söfnuðina sem fengu þau, en líka við þá
sem skrifuðu og eitt er kennt við viðtakandann.

Bréfin voru skrifuð fyrr en guðspjöllin voru fullmótuð. En kaflar guðspjallanna voru til
um leið og bréfin. Öll ritin í Nýja testamentinu urðu til á seinni hluta fyrstu aldarinnar.
Það tók kirkjuna langan tíma og miklar umræður og deilur að velja ritin sem skyldu
vera í hinni heilögu bók, Nýja testamentinju, og því mikla verki lauk á fjórðu öldinni.

Seinna var ritum Biblíunnar skipti í kafla með tölustöfum. Það var gert til að gera
það auðveldara að finna staðina. Kaflarnir eru merktir með stórum tölustöfum en
versin með litlum tölum sem eru oft inni í línunum.

Heiti ritanna eru skammstöfuð. Markúsarguðspjall er skammstafað með Mark.
Fjórði kafli og þriðja til níunda vers eru skammastöfuð svona:
Mark.4.3-9. Síðara versið sem er skrifað er með í því sem er vitnað til.
Markúsarguðspjall er annað guðspjallið í Nýja testamentinu. En það er elsta guðspjallið
og Matteus og Lúkas notuðu það þegar þeir skrifuðu sín guðspjöll. Markúsarguðspjall
er elsta heimildin sem er til um Jesúm Krist.

Markús bjó í Jerúsalem og var sonur Maríu sem átti hús þar sem söfnuðurinn
safnaðist saman í. Hann fór í fyrstu kristniboðsferð Páls og Barnabasar frænda
síns en snéri fljótlega við. En seinna ferðaðist hann með Barnabasi og var með Páli í Róm og bæði Páll og Pétur voru miklir vinir hans.