Kvennakirkjan er sjálfstæður hópur sem starfar í íslensku þjóðkirkjunni og byggir starf sitt á kvennaguðfræði. Hún var stofnuð 14. febrúar 1993. Heimilisfang hennar er að Þingholtsstræti 17, 101 Reykjavík. Kvennakirkjan heldur guðþjónustur í hinum ýmsu kirkjum þjóðkirkjunnar, oftast í Reykjavík, en líka úti á landi. Kvennakirkjan hefur líka haldið guðþjónustur í öðrum löndum og hefur tengsl við konur erlendis sem byggja starf sitt á kristinni trú.

Markmið Kvennakirkjunnar er að vera vettvangur kvenna sem vilja hittast til að fá styrk og gleði kristinnar trúar og nota í daglegu lífi. Við komum með nærveru okkar og hugmyndir, gleði og vanlíðan, við gefum það hinum, og tökum á móti því sem þær gefa. Nærvera hinna er öllum konum Kvennakirkjunnar mikilvæg og við biðjum allar hver fyrir annarri. Félagskonur Kvennakirkjunnar eru um 100 og eru nýjar félagskonur eru boðnar velkomnar.

Guðþjónustur Kvennakirkjunnar mótast af kvennaguðfræði. Við tölum um þau málefni sem snerta sjálfar okkur, höfum bænastundir þar sem við lesum bænir sem allar sem vilja skrifa þegar þær koma í messuna, túlkum texta Biblíunnar svo að þeir verði okkur sem skiljanlegastir og breytum þeim úr textum sem ávarpa menn í texta sem ávarpa konur. Við tölum um Guð sem vinkonu okkar. Margar konur koma fram í messunum. Við höfum lagt okkur eftir nýjum lögum og sálmum og konur hafa ort fyrir okkur og þýtt nýja sálma með boðskap Kvennakirkjunnar. Eftir messur er kaffi í safnaðarheimilum kirknanna svo að við getum spjallað saman í næði.

Námskeið Kvennakirkjunnar eru haldin síðdegis á mánudögum. Námskeiðin byggjast öll á kvennaguðfræði og fjalla um margvísleg efni, lífsgleðina, lífsstílinn, ráð í dagsins önn, ráð til að komast frá erfiðleikum skilnaðar, kenningar kvennaguðfræðinnar, Biblíuna og margt fleira.

Kvennakirkjan hefur gefið út sex bækur. Vináttu Guðs, bók um kvennaguðfræði eftir séra Auði Eir Vilhjálmsdóttur. Vinkonur og vinir Jesú, valdir textar úr Nýja testamentinu á máli beggja kynja. Gleði Guðs, bók um tilfinningar daglegs lífs. Bakarí Guðs, bók um lúterska guðfræði og framtíð kirkjunnar. Göngum í hús Guðs, handbók helgihalds Kvennakirkjunnar og Kaffihús vinkvenna Guðs sem innheldur fjögur hefti með ritskýringum Biblíunnar.

Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir og séra Arndís G. Bernahardsdóttir Linn eru prestar Kvennakirkjunnar. Söngstjóri Kvennakirkjunnar er Aðalheiður Þorsteinsdóttir. Kristín Ragnarsdóttir er gjaldkeri og Elísabet Þorgeirsdóttir upplýsingafulltrúi.