Nýjasta prédikun Kvennakirkjunnar:

Misbeiting valds og leið Guðs

Prédikun Arndísar Linn flutt 17. janúar í Kvennakirkjunni. (Einnig flutt í Lágafellskirkju 3. janúar)

Guðspjall: Matt 2.16-21
Þá sá Heródes að vitringarnir höfðu gabbað hann og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri en það svaraði þeim tíma er hann hafði komist að hjá vitringunum.
Nú rættist það sem Jeremía spámaður hafði sagt fyrir um:
Rödd heyrist í Rama,
harmakvein, beiskur grátur.
Rakel grætur börnin sín,
hún vill ekki huggast láta,
því að þau eru ekki framar lífs.
Þegar Heródes var dáinn þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi í Egyptalandi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og far til Ísraelslands. Nú eru þeir dánir sem sátu um líf barnsins.“

 

Milli jóla og nýars var nýtt lag í efsta sæti vinsældarlista útvarpsstöðvarinnar Bylgjunnar. Lagið sem heitir 18 konur er með Bubba Morthens og er af samnefndri plötu. Titillinn vísar til þess að 18 konum var drekkt í dreykkingarhyl á Þingvöllum á 17. Og 18. öld. Lagið er fallegt og grípandi – textinn áleitinn. Bubbi yrkir um konurnar sem öllum var drekkt í hylnum vegna skírlífsbrota og hórdóms.

Í texta lagsins segir meðal annars:

Konum sem áttu sér enga vörn

var drekkt fyrir það eitt að eignast börn

ég starði ofaní ólguna og sá

andlit kvennanna fljóta hjá.

Ég nam í vindinum kvennana vein

kannski í dýpinu eru þeirra bein.

Nafnið var Þórdís sem fyrst hér fór

í svelgin meðan ýlfraði prestanna kór.

 

Eins og Bubba einum er lagið tekst honum að segja þessa sögu á áhrifaríkan og beinskeittan hátt. Og hann vandar prestum og kirkju þess tíma ekki kveðjurnar. Kannski er hann að færa aðeins í stílinn – engar frásagnir eru til  en staðreyndirnar eru engu á síður á hreinu. 18 Konum var drekkt. Og jafnvel þó dómsvaldið í siðferðismálum hafi ekki verið á vegum kirkjunnar heldur veraldlegum yfirvöldum komu Guðshugmyndir við sögu. Ráðamönnum var mikið í mun að refsa almenningi  fyrir afbrot og syndir  því trúin var sú að refsingarnar gætu komið í veg fyrir að hræðileg reiði Guðs vegna brotanna bitnaði á öllu samfélaginu.

Annað sem vakti athygli mína milli jóla og nýars var heimildarmynd í ríkissjónvarpinu. Myndin er  eftir Ölmu Ómarsdóttir og heitir Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum. Myndin lýsir því hvernig gripið var til mannréttindabrota gagnvart  ungum stúlkum sem áttu í samskiptum við hermenn á stríðsárunum. Það var njósnað um þær, þær voru yfirheyrðar og settar í læknisskoðun og sumar hverjar sviptar bæði sjálfstæði og frelsi. Allnokkrar voru  dæmdar til að dveljast á vinnuhælinu á Kleppjárnsreyki. Aftur voru það yfirvöld sem fóru fram með offorsi gegn konum. Hópur fólks sem hafði völd misbeytti því, settist í dómarasætið og vóg og mat siðferði og samskipti ungu kvennanna.

Texti sem við heyrðum hér áðan og er oft lesin í kirkjum landsins í upphafi árs er líka um misbeitingu valds.

Eftir að hafa um jólin heyrt fallega Biblíutexta um fæðingu Jesúbarnsins, hirða og engla, lofgjörð og söng er þessi fyrsti ritningarlestur ársins pínulítið eins og blaut tuska í andlitið. Einstaklega ógeðfeldur. Heródes lætur lífláta alla drengi frá tveggja ára aldri til að reyna að koma í veg fyrir að Jesús komist á legg. Sagan fer ekki fögrum orðum um Heródes. Hann var sagður miskunnarlaus –  og grimmd og kúgun einkenndi stjórnun hans. Þá var hann haldin svo sjúklegu ofsóknaræði að hann lét myrða alla sem hann taldi ógna valdi sínu, meira að segja konu sína og syni.

Við gætum sagt um biblíutextann í dag– þetta er bara gömul lygasaga.  Það getur nefnilega verið freistandi að horfast ekki í augu við grimmd heimsins og við finnum ýmiskonar leiðir til þess að vera upptekin af einhverju allt öðru.

Við gætum sagt um drekkingarhylinn og ofsóknir stúlknanna í seinni heimstyrjöldinni – svona var þetta bara í gamla daga – fyrir 400 árum á Þingvöllum eða 70 árum í Reykjavík. En það gengur ekki upp, við getum ekki látið sem ekkert sé þegar við stöndum andspænis illsku og þjáningu heimsins. Ekki ef við ætlum að vera Guðs.

Ekki misskilja mig – ég þekki spurningarnar sem vakna þegar þjáning og illska virðast takmarkalaus. Hvar er eiginlega Guð – af hverju í ósköpunum lætur Guð þetta viðgangast? Hvernig getur Guð haft allt vald á himni og jörðu og verið ígildi réttlætis án þess að grípa inní? Það er til margskonar þjáning í heiminum í dag sem ég stend jafn vanmáttug frammi fyrir og hver annar, þrátt fyrir trú mína.

Illskan sem er hér til umfjölunnar snýst hins vegar um misbeitingu valds og slík illska er líka til staðar í dag – alls staðar í heiminum. Hefur ekki valdabarátta og stríðsrekstur valdið því að börn drukkna við strendur miðjarðarhafs? Hefur ekki saklaust fólk látið lífið í stríð við hryðjuverk?  Er ekki misbeiting valds hluti af því að bilið milli hinna ríku og fátæku verður sífellt stærra og að ákveðnum hópum samfélagsins er haldið niðri og  þeim boðin verri kjör en öllum öðrum?

Bæði Fortíð og nútíð geyma kynstrin öll af illa ígrunduðum ákvörðunum, alvarlegum dómgreindarbresti, bæði fólks og stofnanna. Líka Kirkjunnar. Og af hverju stafar sá dómgreindarbrestur?

Ég held að það sé vegna þess að við hverfum frá Guði, við rjúfum tengslin við Guð því við getum ekki leyft Guði að vera við stjórnvölinn. Við tökum okkur vald til að vera Guð. Lúther orðaði það ágætlega á sínum tíma: ,,Það tilheyrir mannlegu eðli að vilja ekki að Guð sé Guð, við viljum sjálf vera Guð og því viljum við ekki að Guð sé Guð.“ (tilvitnun lýkur)

Guð fæddist inní þennan heim og varð maður til að upplifa allt sem við hin upplifum. Og Guð kom í heiminn til að færa okkur leið kærleikans. Til að sýna okkur með fordæmi sínu hvernig við flytjum kærleikann áfram í heiminum, hvernig við stöndum gegn illsku og óréttlæti.

Guð vinkona okkar þarf á okkur að halda til að gera heiminn að betri stað. Guð þarf sum okkar til að rifja upp gamlar sögur um misbeitingu og ofbeldi sem vilja gleymast. Guð þarf önnur okkar til að standa upp þegar mannorði fólks er drekkt af öðru fólki sem vill sýnast mikið og máttugt. Guð ætlast ekki til að við komum á friði í heiminum á okkar eigin spýtur en í nærumhverfi okkar allra er eitthvað sem við getum haft áhrif á.  Guð hefur hlutverk fyrir okkur öll  ef við viljum – en við höfum val hvort það er kærleikurinn eða illskan sem við færum áfram til heimsins.

Til að velja Kærleikann þurfum við að geta horfst í augu við illsku heimsins. Og það sem meira er við þurfum líka að geta horfst í augu við okkur sjálf og tekist á við það í okkur sem vill ekki lúta stjórn Guðs – það í okkur sem vill verða Guð og taka til sín of mikið vald og misbjóða þannig heiminum.

Um þessar mundir liggur nýtt ár eins og óskrifað blað fyrir framan okkur. Við rifjum upp illsku fyrri tíma. Morðin á börnunum í Betlehem, mannréttindarbrot gegn ungum konum og Drekkingar kvennanna á Þingvöllum til að minna okkur á að við þurfum að standa upp og láta til okkar taka í umhverfi okkar, til að sporna gegn illskunni. Og það er sannarlega áskorun að vera kærleikans – að vera Guðs.  En það er hlutverkið sem Guð felur okkur því Guð þarf á þér að halda til að gera heiminn að betri stað. Amen.