Prédikun Auðar Eir í Háteigskirkju 27. desember 2015

Auður Eir Vilhjálmsdóttir

Jólaguþjónusta í Háteigskirkju 27. desember 2015

Veljum að vera eins og Jesú á jólanóttina í Betlehem

Gleðileg jól.  Tölum um Betlehem.   Um hirðana í haganum sem heyrðu englana syngja og segja þeim að fara að sjá frelsarann.  Og um vitringana og um Maríu og Jósef.  Þau sem voru í fjárhúsinu á jólakvöldinu vissu öll hver Jesús var.  Þau vissu að smábarnið í jötunni var Guð sem skapaði alla veröldina.  Hún var komin til þeirra og alls heimsins.

Hugsum okkur að við séum einhver þeirra í fjárhúsinu.  Hver viltu vera?  Ég sting upp á því að við hugsum okkur að við séum Jesús, smábarnið í jötunni

Er það ekki of mikið fyrir okkur að þykjast vera Jesús?   Er það ekki hrokafullt og alveg út í bláinn?

Nei, það er ekki hroki.  Jesús sagði sjálfur að við gætum ekki tekið á móti öllu því stórkostlega og undursamlega  sem hann vildi gefa okkur nema við yrðum eins og börn.  Og hann sagði að við skyldum vera í sér og þá myndi hann fylla hjarta okkar og allt líf okkar myndi verða fyllt af vináttu hans.

Á jólanóttina hvíldi Jesús í umhyggju og ást fólksins sem Guð gaf honum.  Svo hélt hann áfram og gekk inn í lífsstarf sitt.  Við gerum það líka.  Hann gekk út í flókna og hættulega veröld.  Við gerum það líka.  Hann samdi sér lífsstíl.  Við gerum það líka.

Það skiptir mestu máli hvernig lífsstíl við semjum.  Það eru margar aðferðir og þær fara eftir margvíslegum viðhorfum.   Við veljum úr því sem við heyrum og lærum og  því sem við hugsum sjálfar.  Það skiptir mestu hvað við hugsum.  Ég segi það aftur og aftur og líka að þess vegna skiptir það öllu hverju við trúum.  Af því […]

Inná við á Aðventu – Prédikun Arndísar Linn í Dómkirkjunni 6. desember 2015

Lúkasarguðspjall 1. 26 – 34. – Endursögn Kvennakirkjunnar

Þegar Guði fannst komin rétti tíminn sendi hún Gabríel engilinn sinn til borgar sem heitir Nazaret til að ræða við konu sem þar bjó. Konan hét María og var trúlofðu manni sem hét  Jósef. Þegar engillinn kom til hennar heilsaði hann henni og sagði: ,, Heil og sæl þú sem Guð lítur til í mildi og kærleika og finnst þú yndisleg manneskja. Guð er með þér.

En María varð hrædd við þessi orð og velti því fyrir sér hvað þessi kveðja ætti að þýða. Þá sagði engillinn við hana; Þú þarft ekki að vera hrædd María því að Guð elskar þig, treystir þér og þarfnast þín og henni finnst þú yndisleg manneskja. Og hún ætlar að sjá til þess að þú eignist son sem þú skalt gefa nafnið Jesús. Hann verður einstaklega merkilegur, sá merkilegasti í öllum heiminum og allir sem kynnast honum munu skilja og skynja að hann er Guð sem er ekkert ómögulegt og allt mögulegt.
————————————————–

Á afar sérkennilegu en áhugaverðu safni í Berlín sem heitir Heimar líkamans (d. Menschen Museum) eru alvöru mennskir líkamar til sýnis. Húð og fita hefur verið hreinsuð burt og sjá má sinar, æðar, bein og öll líffæri líkamans í einstaklega miklum smáatriðum.

Á safninu eru líka ýmiskonar listaverk sem vekja til umhugsunar um leyndardóma lífsins. Eitt slíkt þekur risastóran vegg . Á veggnum er gífurlega stór glerkassi fullur af hrísgrjónum. Þar eru trúlega fleiri hrígrjón en ég mun nokkurn tíman kaupa, hvað þá borða á ævinni.

Á agnarsmáum fleti á glerkassanum hefur verið teiknuð rauð píla sem bendir á eitt hrísgrjónið. Við píluna stendur ,,Þetta er upphafið að þér“ Í glerkassanum er jafnmikið af hrísgrjónum og meðalfjölda sáðfrumna í sáðláti – 3 – 500 […]

Prédikun Auðar Eir í guðþjónustu í Laugarneskirkju 15. nóvember 2015

En eftir eldinn heyrðist blíður vindblær hvísla og Elía heyrði það.

Fyrri Konungabók 19. 12 – 13.

 
Við ætlum að heyra um það þegar Guð talaði við Elía í blíðum blæ en ekki í stormi, jarðskjálfta og eldi.  Það er sagt frá því í Fyrri Konungabók  og lesið úr henni áðan.  Frásagan er svona:  Kóngarnir í Ísrael voru orðnir verulega vondir menn.  Einn hét Akab og hann var duglegur herforingi en brást algjörlega þeirri einu skyldu sem hann hafði í raum og veru en það var að standa vörð um trúna á Guð.

Hann giftist Jessebel sem var hræðilega grimmlynd og dýrkaði guðinn Bal og Akab opnaði dyr þjóðar sinnar fyrir þeirri trú.  Elía gekkst fyrir keppni milli Bals og Guðs, lét 450 presta Bals setja upp altari og setti annað upp sjálfur, ekkert gerðist á altari þeirra en Guð sendi eld á altari sitt.  Þá drap Elía alla balsprestana.  Akab sagði Jessebel frá því og hún lét skila til Elía:  Á morgun um þetta leyti verður þú sjálfur dauður.  Og þá varð Elía þessi mikli kjarkmaður svo hræddur að hann flýði og faldi sig í helli.  Guð kom til hans og sendi á undan sér storm sem tætti björgin og jarðskjálfta og eld.  En Guð var ekki þar.  Þá kom blíður blær og straukst um hellisopið.  Þar var Guð og talaði við Elía.  Komdu nú Elía, ég er hérna með mat handa þér og svo skaltu halda áfram að vinna fyrir mig.

Ég vildi segja okkur þessa sögu af því að ég held að Guð tali við okkur núna í blíðum blæ og við skulum treysta því.  Stundum talar Guð með miklum krafti í vakningum sem kalla saman þúsundir fólks sem breyta öllu í kringum sig með sterkri […]

Prédikun í messu Kvennakirkjunnar í Mosfellskirkju 25. október

Prédikun Arndísar Linn í guðþjónustu í Mosfellskirkju 25. október 2015.
Okkur þykir hæfa á þessum minningardegi um Ólafíu Jóhannsdóttur að lesa frásöguna um glataða soninn í 15. kafla Lúkasarguðspjalls í styttri endursögn okkar:

Kona átti tvær dætur.  Sú yngri sagðí við mömmu sína:  Mamma, láttu mig hafa það sem ég á í fjölskyldufyrirtækinu.  Svo fór hún til útlanda og sóaði öllum arfi sínum.  Þá sneru þau við henni bakinu, þau  sem hún hafði áður borgað skemmtanir fyrir.  Hún fékk vinnu á kaffihúsi og langaði mest til að borða það sem var hent í ruslatunnuna.  Ekki nokkur manneskja kom henni til hjálpar.

Þá ákvað hún að fara heim.  Mamma rekur stórt fyrirtæki, sagði hún við sjálfa sig.  Ég ætla að biðja hana að ráða mig bara í vinnu eins og ókunna manneskju.  Hún skrapaði saman í flugmiða og fór.  Mamma hennar frétti af henni og tók á móti hennu á flugvellinum.  Hún fór með hana heim og svo bauð hún fólki til að fagna henni.

Eldri systir hennar var í ferð fyrir fyrirtækið en þegar hún kom heim vildi hún ekki koma inn í boðið.  Þú heldur veislu fyrir þessa stelpu sem tók peninga úr fyrirtækinu og eyddi þeim öllum.  En mamma hennar sagði:  Elskan mín.  Þú ert alltaf hjá mér.  Við eigum allt saman.  Og nú erum við báðar búnar að fá hana aftur, systur þína sem við misstum.

Guð blessar okkur orðið sitt.  Amen
———————————-

Í ár er fagnað hér á hólnum, eins og Halldór Laxnes kallaði Kirkjustæði Mosfellskirkju í Innansveitakróniku. Með margvíslegum hætti hefur þess verið minnst að 4. Apríl síðastliðin voru 50 ár, hálf öld frá því að Mosfellskirkja var vígð.

Í ár fanga Íslendingar líka mikilvægum tímamótum í sögu sinni því hundrað ár eru frá því að konur fengu […]

Veldu lífið – Prédikun úr Seltjarnarneskirkju 13. september

Veldu lífið

Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Seltjarnarneskirkja,  13. september 2015

Í Gamla testamentinu sagði Guð við fólkið sitt:  Ég legg fyrir þig lífið og dauðann.  Veldu lífið. Og Jesús sagði:  Ég er lífið.  Í vináttunni við mig geturðu valið lífið.  Gerðu það. 5. Mós. 30.19.  Jóh. 14.6.

Ég ætla að segja ykkur frá því sem ég gerði á þriðjudaginn.  Þá var ég úti um allar trissur allan daginn og kom loksins við í kjötbúðinni til að kaupa í kvöldmatinn.  Ég kaupi alltaf lambalundir ef ég er svo sein að það er búið að loka fiskbúðinni.  En það voru bara til kindalundir og ég keypti þær, kom heim, setti upp kartöflur og hitaði pönnuna og setti kindalundirnar á hana.  En þegar kartöflurnar voru soðnar voru lundirnar enn seigar svo ég lét þær vera áfram og opnaði baunadósina.  Þá hringdi síminn og ég ætlaði að setja baunirnar í pott enn setti þær óvart á pönnuna.  En lundirnar voru jafn  seigar þegar ég gáði næst og á kafi í baununum.  Það var hlægilegt svo ég stappaði baunirnar og svo setti ég sinnep út í og svo skar ég lundirnr í bita og svo í næstu athugun setti ég fleira krydd út í og bjó til sallat og svo sá ég að ég varð bara að hætta þessu og bað fólk að setjast og setti matinn á borðið.  Ég var orðin tætt á taugum og sagði að þetta væri uppskrift úr Tidens kvinder og steingleymdi að líklega er það blað ekki lengur til.  En engin gerðu athugasemd – og viti konur og menn  – þetta var orðinn flottur réttur.  Aldeilis létti mér.  Og ég hafði sett apríkósutertu í mót um morguninn og meðan ég barðist við lundirnar bakaðist tertan og ilmaði um húsið.

Hvers vegna skyldi ég […]

Það verður að segja það. Prédikun 19. júní 2015 á Klambratúni

Til hamingju með daginn – þetta er dásamlegur dagur og þakklæti okkar til þeirra sem börðust fyrir kosningarétti okkar fyrir 100 árum er mikið og fallegt og sjálfsagt.

Síðan hefur svo margt gerst að allt er orðið nýtt.   Þess vegna geta fleiri nýir hlutir gerst, þeir sem verða að gerast.  Konur eru allsstaðar í stjórn og áhrifum og framkvæmdum.  Þær hafa þekkingu og menntun til að leysa flóknustu mál og stýra mikilfenglegum verkefnum.  Við sem erum í hógværari verkum þurfum að styðja þær – þær þurfa að eiga okkur sem bakland, þær þurfa að finna að við treystum þeim og dáumst að þeim.  Af því að það er erfitt að stjórna og ábyrgðarmikið að taka ákvarðanir fyrir annað fólk.  Við megum allar þakka fyrir konurnar sem eru komnar í forystu.

Og þær mega þakka fyrir okkur, hugsanir okkar og hugrekki.   Það veitir ekki af.  Því nú þurfum við að gera eitthvað allar saman.  Og eins gott að taka þennan merka dag til að taka nýjar ákvarðanir um nýjar framkvæmdir.

Konurnar fyrir 100 árum sáu hvað þurfti að gera og gerðu það bara.  Þær fengu konur og menn til að drífa í því.  Það tók langan tíma.   En það varð.  Af því að  það var auðséð hvað þurfti að gera.   Við urðum að fá kosningarétt.

Það er eitthvað mikilvægt sem við þurfum núna.   Það er bara verst að við vitum ekki almennilega hvað það er.  Samt heyrast raddir um það og þær eru orðnar sífelldar, að ég ekki segi síbylja.  Við þurfum betra þjóðfélag, betri  atvinnuvegi, betra Alþingi,  betra skólakerfi, betra heilbrigðiskerfi og betra velferðarkerfi.  Ég les um það í blöðunum á hverjum einasta morgni – og þú lest það líklega þar eða annars staðar […]

Trú mín – vitnisburður Guðrúnar B. Jónsson

Trú mín,

Af hverju trúi ég, af hverju efast  ég í trú minni og af hverju  finnst mér gott að vera í Kvennakirkjunni?

Til að svara þarf ég að fara langt til baka alla leið til þess að ég fæddist.

Ég var skírð í kaþólskri trú og ólst upp í henni  þangað til ég var var 6 ára  (1942) að  ég byrjaði í skólanum. Þá var mér sagt að nú væri ég guðlaus „gott los“ Það var í stríðinu.   Pabbi var ríkisstarfsmaður sem kennari og þurfti að fylgja fyrirmælum.

Eftir að stríðinu lauk 1945  var mér  sagt að nú væri ég lútersk evangelisk og  1950 var ég  fermd.  Ég ólst samt ekki upp í kristilegri hefð heima fyrir.

Ég man mjög vel hvað  þessar breytingar til og frá trufluðu mig mikið  en ég fékk eiginlega aldrei  skýringu á því, og á þeim tímum  lærðu börnin líka að spyrja ekki  of  mikið.  Samt man ég að mér fannst að það væri mér að kenna.

Ég fór sem barn í mína kirkju á sunnudögum og mamma hjálpaði mér að koma mér af stað í hvaða veðri sem var.

Mamma átti bróður sem var giftur mjög trúaðri kaþólskri konu. Bróðirinn  veiktist mjög mikið þegar hann var ungur og kona hans hét því að ef hann fengi að lifa  myndi hann gerast kaþólikki –  sem gerðist. Hann mátti eftir það  ekki hafa samband við mömmu,  systur sína.

Eitt dæmi enn vil ég nefna sem hafði mikil áhríf  á mig.   Það voru  foreldrar  vinkonu minnar sem nú er dáin.   Þau höfðu hvort sína trú, hann var kaþólskur en hún lútersk. Þau giftu sig í lútersku kirkjunni og börnin voru lútersk. Þegar pabbi hennar varð gamall og veikur og kominn að dauða kallaði hann á kaþólskan […]

Nesti fyrir gesti en einkum fyrir heimafólk. Prédikun í Garðakirkju 17. maí 2015

Við ætlum að tala um nesti fyrir gesti en einkum fyrir heimafólk.  Það er einfaldlega af því að við  tökum alltaf með okkur nesti úr öllum messum .  Ég var í Strassborg og fór í fínu kirkjubókabúðina og kom með þrjár bækur úr því nesti hingað í kvöld.  Sjáum nú til hvort við viljum eitthvað af því til að fara með heim.

Þessi bók heitir  Guð er ekki eins og þú hélst.  Það er mikið skrifað um það í guðfræði núna.  En ég held bara ekki að við setjum þetta í nestið.  Af því að ég held að Guð sé alveg eins og við héldum.  Við erum löngu búnar að sjá að Guð er vinkona okkar.  Við höldum ekkert um það.  Við höfum vitað það lengi.  Og það er alveg stórkostlegt.  Svo við setjum ekki þessa bók í nestið.

Þessi þykir mér svakaleg brandarabók og þess vegna gæti hún verið í nestinu.  Hún heitir Hvað ef Jesús er nú ekki Guð?  Ég hélt að höfundurinn yrði alveg dolfallinn yfir svoleiðis hugsunum en hann er það ekki.  Hann segir í fullri alvöru að Jesús sé alls ekki Guð.  Hann skrifar samtal milli sín og Jesú.  Heyrðu Jesú, þú ert sonur  Guðs er það ekki?  Og Jesús svarar:  Neineinei,  láttu þér ekki detta það í hug.  En þú gerðir kraftaverk?  Ekki eitt einasta.  En hvað um fiskinn og brauðið uppi í óbyggðinni?  Ekkert kraftaverk.  Fólkið var með nógan mat og ég bað það bara að gefa þeim sem höfðu ekkert.  En hvað með  lamaða fólkið sem þú læknaðir.  Ég læknaði það ekki.  Ég sá bara að þetta var fólk sem hafði engan viljastyrk og ég gaf því trú á sjálft sig svo að það gæti staðið upprétt gagnvart öðru […]

Gleðin í hversdeginum – Prédikun Auðar Eir í Friðrikskapellu 12. apríl 2015

Gleðin í hversdeginum

Við ætlum að tala um gleðina í hversdeginum.  Alveg eins og við gerum alltaf í hverri messu, bara frá ýmsum sjónarmiðum.  Einfaldlega af því að mest af lífi okkar er hversdagslegt og venjulegt.  Stundum verða stórviðburðir sem eru svo skemmtilegir.  Stundum verða atburðir sem eru svo erfiðir að okkur finnst allt snúast við og við vitum ekki hvernig við eigum að mæta þeim.  En líka það er hluti af venjulegu lífi okkar.  Það verður alltaf eitthvað óvænt sem gerist bæði gott og erfitt.  Ég held að einmitt þess vegna sé svo gott að eiga venjulegu dagana.  Það sem við gerum þá hjálpar okkur til að mæta því sem er erfitt og það sem er gott og óvenjulegt ljómar um hversdagana.  Eða hvað finnst þér?

Ég skrifaði í Fréttabréfið okkar um gömlu frönsku hjónin sem sátu úti á gangstéttinni fyrir framan húsið sitt í litlu þorpi í Elsass.  Þau höfðu tekið stólana sína út og lítið borð og sátu í síðdegissólinni og dreyptu á rauðvíni og horfðu á umferðina.  Það var skrifað um þau í kirkjublaðinu.  Komdu og sestu hérna hjá mér, sagði maðurinn við konuna sína, þú átt það alveg skilið.  Ljómandi boðskapur.  Við eigum líka alveg skilið að tylla okkur og horfa á lífið í kringum okkur til uppörvunar og skemmtunar.  Við eigum það skilið á hverjum einasta degi.  Og við skulum taka tilboðinu.

Það þarf oft svo lítið til að gleðja okkur.  Bara smáatriði, kaffibollann, símtal, tiltekt, eitthvað sem við komum í verk, í vinnunni eða heima.  Eitthvað sem við finnum að við getum glatt okkur yfir, frá fyrri tíma eða vikunni sem leið eða deginum í gær eða dag.  Það er svo margt að gleðjast yfir.  Gáum að því og njótum þess.

Textinn […]

Þær gengu fram. Prédikun í Kvennakirkjunni 15. mars 2015

Prédikun í Kirkju óháða safnaðarins  15. mars 2015 – Arndís G. Bernhardsdóttir Linn
Dætur Selofhaðs gengu nú fram. Dætur hans hétu Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa. Þær gengu fram fyrir Móse og Eleasar prest, höfðingjana og allan söfnuðinn við dyr samfundatjaldsins og sögðu. (4.Mósebók 27.2)
Þannig hefst saga systrana fimm í fjórðu Mósebók sem komu sér út úr tjöldum sínum, án þess að á þær væri kallað, tróðu sér inní hið allra heilagasta og stilltu sér upp fyrir fram karlaveldið. Á stað þar sem konur áttu hvorki erindi né höfðu rétt til að vera. Þær voru ósáttar við lög feðraveldisins og mótmæltu því að erfðaréttur gengi aðeins til drengja. Þær voru einkadætur föður síns og vildu halda nafni hans á lofti og gera tilkall til eigna hans. Kannski voru þær hræddar en þær voru ákveðnar og framsýnar, hugsuðu út fyrir rammann og tóku ábyrgð á eigin lífi. Þær tókust á við hindranirnar sem urðu á vegi þeirra og neituðu að sætta sig við óréttlæti samfélagsins

Það er skemmst frá því að segja að Móse snéri sér til Guðs. Hún var að sjálfsögðu ekki lengi að koma honum í skilning um að hlusta á konurnar og verða við kröfu þeirra. Guð vinkona þeirra var með þeim í baráttunni.

Raddir kvenna eru ekki sérlega fyrirferðamiklar í Biblíunni – hvorki í Nýja Testamentinu né því gamla. Lindsay Hardin Freeman og trúsystur hennar í Minnesota hafa tekið sig til og talið öll þau orð sem konur segja í Biblíunni.  Í bók Fremann sem heitir Konurnar í Biblíunni: allt sem þær sögðu og hversvegna það skiptir máli  kemur í  ljós að konur segja í kringum 14.000 orð í Biblíunni, u.þ.b. 1,2 prósent af öllum orðunum sem þar standa. (1.1 milljón orð). Það tæki meðal ræðukonu […]

Prédikun í Langholtskirkju 18. janúar 2015

Í fyrsta kafla Markúsarguðspjalls er sagt frá skírn Jesú í ánni Jórdan, og rödd Guðs hljómaði:  Þetta er maðurinn sem ég hef útvalið.

Verum þar sem er talað um Orðið – verum í okkar eigin Kvennakirkju

Gleðilegt ár góðu vinkonur og Guð geymir okkur á þessu ári sem öðrum.  Ég ætla bara að byrja á að segja okkur eina sögu.  Hún er svona:

Það voru amerísk hjón á ferð í Jerúsalem og konan varð bráðkvödd.  Yfirvöldin buðu manninum grafreit í borginni.  Það kostaði bara hundrað dollara.  En þúsund að flytja hana heim.  Nei, sagði maðurinn, ég ætla samt að flytja hana heim.  En af hverju? Það er svo dýrt og hér er heilög jörð, sögðu yfirvöldin.  Og maðurinn sagði:   Ég flyt hana samt heim.  Af því að ég hef heyrt að maður sem var  jarðaður hérna fyrir tvö þúsund árum hafi lifnað við aftur.

Nú máttu rétt spyrja hvaða erindi þessi saga eigi inn í þessa fyrstu predikun ársins sem er við hæfi að hafa ögn settlega.  Og það skal ég segja þér.  Hún á það aleina erindi að eiga ekkert erindi og vera alveg ópassandi og út í bláinn.  Það var nefnilega rétt fyrir jólin að ein af okkur sagði við mig þegar ég var að segja eitthvað í samtali sem við áttum nokkrar, hún sagði sisona:  Ég skil ekki hvaða húmor þetta á inn í samtalið.  Ég sá að þetta var alveg rétt hjá henni og ákvað á staðnum að steinhætta að koma inn með svona innslög sem eru út í bláinn.  Ég ákvað líka daginn eftir að hætta að leggja frá mér ýmsa hluti  hér og hvar og eiga svo í bagsi við að finna þá aftur.

Og þetta á það erindi í predikunina að spyrja þig […]