Upplýsingar

Prédikun Auðar Eir í Neskirkju í 30 ára afmælismessu Kvennakirkjunnar.
Við erum búnar að fara yfir söguna.  Hún heldur áfram og hvað skyldi bíða okkar?  
Það  hefur margt breyst í heiminum á 30 árum og líka hjá okkur.  En sumt er eins í verlöldinni og líka hjá okkur.  Við höldum áfram að vera margar.  Við höldum áfram að tilheyra hver annarri af því að við tilheyrum Guði.  Við  biðjum hver fyrir annarri,  bjóðum hver annarri í messu og samverustundir.  Við höldum áfram að lesa Biblíuna og syngja og tala saman og finna að vinátta okkar gefur okkur öryggi og gleði með öðru fólki.  
 Við höldum áfram að  tilheyra menningunni í kringum okkur,  margvíslegri góðri menningu sem á rætur í  styrk og gleði kristinnar trúar .   Eitthvað í i menningunni er farið að fara aðra vegi og  kærir sig minna og minna um kristna trú og meira og meira um ræktina og hollustuna, jóga og hugleiðslu og hópana og  listina, allt eftir þeim hugmyndum að það sé einmitt í þessu sem við finnum það besta í sjálfum okkur.
Það er margt í þessum sem styrkir okkur og gleður.    En ég býst ekki við að neinar okkar hafi nokkuð af þessu sem grundvöll lífsins.  Við höfum auðvitað allar okkar eigin hugmyndir um þetta eins og allt annað.   Við ráðum allar hvað við hugsum, segjum við.  Við hugsum allar það sem við viljum.   En við  vitum um leið og við segjum það að það gerum við reyndar ekki alveg.  Við hugsum meira og minna það sem berst að okkur.   Við sjáum af sögu aldanna að það var alltaf svona.  Það komu alltaf bylgjur nýrra hugmynda sem mótuðu nýjar kynslóðir.  Með vondum og góðum hugmyndum.   
Kvennaguðfræðin var góð hugmynd sem barst til okkar.     Hún var ný bylgja í aldagamalli kvennaguðfræði og kom um leið og ný bylgja allrar kvennahreyfingarinnar.  Manstu hvað það var stórkostlegt?  Fyrstu kvenprestarnir hérna tóku allra fyrstar á móti kvennaguðfræðinni, meðan þær voru ennþá i guðfræðideildinni.   Við vorum sem ein manneskja og þess vegna var var þetta ólýsanleg gleði og kraftur og við höfðum mikil áhrif.  Svo dreifðist hópurinn.  En þá kom námskeiðið um kvennaguðfræði í Tómstundaskólanum sem Villa Harðar bauð mér að halda.  Við sem vorum þar stofnuðum Kvennakirkjuna.  
Og svo komuð þið.  Við vorum svo margar og gerðum svo margt.  Kristin trú okkar varð ný og stórkostleg og svo undursamleg að við urðum sjálfar nýjar undursamlegar manneskjur,  mildar og máttugar.   Ein af okkur skrifaði ritgerð um það í háskólanum hverng það var styrkur okkar að vinna allar saman, ráða allar því sem við vildum og ráða hvernig við vildum vera með.  Ef við hefðum ekki unnið svona værum við ekki að halda 30 ára afmælið okkar.  Við værum löngu hættar.
Svo dreifðumst við, alveg eins og prestahópurinn.   Við fórum með trúna með okkur og fórum með hana eins og við vildum.   En við héldum áfram að vera saman. Af því að það þarf að halda áfram að hittast hjá Guði.  Það þarf að  hafa opið hús fyrir þær sem vilja koma sem oftast eða líta inn stundum eða fylgjast með að heiman.   Það er allt svo mikilvægt.   Af því að kristin trú er svo mikilvæg.  Þess vegna höldum við áfram að halda áfram þangað til við hugsum nýjar hugsanir um áframhaldið.
Það er kristin trú okkar sem kallar okkur saman og sameinar okkur og styrkir okkur hvert sem við förum og hvað sem við gerum.    Svo að við getum verið  til gagns og gleði í tilveru annarra.   
Er það?  Finnst þér það?  Virkilega? Hvaða styrk skyldum við geta gefið fólki sem hugsar margsvíslegar hugsanir?   Það er sagt oftar og oftar og hærra og hærra að þessar hugsanir séu fullar af kvíða og angist?  Við þekkjum það sjálfar.  Getum við lagt eitthvað fram?
Já.  Við getum það. Og við gerum það.   Það er styrkur kristinnar trúar og við eigum þennan styrk af því að við erum vinkonur Guðs.   Kvennaguðfræðin breytti lífi þúsunda kvenna sem áttu mikið af kvíða og angist.  Þær söfnuðust saman og heyrðu hvað Guð sagði við þær.  
Kvennaguðfræðin gaf þeim trú á sjálfar sig.  Svo mikla að hugmyndir heimsins breyttust og þær  fengu nýja stöðu í heiminum.  
Það er ekki talað  eins og áður um kvennaguðfræðina og alla kvennabaráttuna.     Af því að við höfum fengið margt af því sem við börðumst fyrir.  Við börðumst fyrir því að konur kæmust þangað sem ákvarðarnar eru teknar.  Og þær komust.  Við sjáum það á hverjum degi. Konur breyttu heiminum af því að þær breyttu hver annarri.  Við breyttum sjálfum okkur.
Kvennaguðfræðin er deildin í kvennahreyfingunni sem segir frá trúnni.  Í kristinni kvennaguðfræði segir hún frá kristinni trú.  Hvað segir kristin trú?  
Í upphafi  fengum við skilaboð frá lúterskum konum í útlöndum  Þær segja eins og við lásum í upphafi messunnar:
Við íhugum það sem Biblían segir okkur um hjálp Guðs.
Við sjáum að Guð er hjá okkur í hversdeginum.
Við komum til Guðs með dýpsta ótta okkar, gleði og vonir.
Við þökkum henni ást hennar og náð í Jesú Kristi.
Við förum með boðskap hennar út í lífið sem bíður okkar.  
Þetta var skrifað fyrir 40 árum, nákvæmlega tíu árum áður en við tókum á móti því. Það var alveg nýtt og yndislegt.  Svo varð þessi nýja gleði hluti af okkur og nýjar og sterkar yfirlýsingarnar sem við heyrðum og skrifuðum sjálfar voru ekki lengur nýjar.  En þær héldu áfram að vera sterkar og búa í hjarta okkar og þess vegna héldum við áfram.  
Við vitum og finnum að kvennahreyfingin og kvennaguðfræðin, þessar sterku og glöðu hreyfingar sem breyttu heiminum og okkur hafa nú fyrir nokkuð löngu sest niður hlið við hlið og haldast í hendur og hvíla sig.  Það er ekki hægt að halda alltaf áfram.  En bráðum rísa þær upp og fljúga í nýrri bylgju.  Það kemur vakning. 
 Núna bíðum við eftir nýrri kvennaguðfræði um heiminn, kirkjuna og okkur sjálfar.  Hún kemur eins og einu sinni frá konum úti í heimi.    En  núna kemur hún líka frá okkur sjálfum.  Af því að við erum orðnar hluti af hópnum úti um alla veröldina sem lifir og skrifar kvennaguðfræði.
Meðan við bíðum njótum við næðis Guðs og hvílum í trú okkar.  Hlýrri og staðfastri, huggandi og glaðværri kristinni trú.  Kristin kvennaguðfræði er  trú á Krist.  Jesús Kristur  er Guð sem skapar og frelsar og kom og varð einn af okkur, dó á krossi  og reis upp til himna og heldur áfram að vera  hjá okkur og kemur aftur og gerir allt nýtt.
Þess vegna, af því að Guð kom getum við talað um hana sem vinkonu okkar.  Hún er vinkona í okkar hópi og hún þarfnast okkar.  Henni finnst mikið til um okkur, hún dáist að okkur og elskar okkur  og reiðir sig á okkur, hún hlustar á okkur og talar við okkur og veit allt og getur allt.  Hún bregst okkur aldrei.  
Við bregðumst henni ekki heldur.  Við bregðumst ekki hver annarri, ekki sjálfum okkur. við bregðumst ekki hlutverki okkar til að hvíla í trú okkar svo að við tökum á móti vakningunni. 
Við erum yndislegar manneskjur af því að við erum vinkonur Guðs.  Við erum mildar og máttugar og Guð blessar okkur.  Amen