Jóhannesarguðspjall

Hér eru biblíuskýringar Kvennakirkjunnar  á Jóhannesarguðspjall. Smellið á kaflana til að sjá texta.

Jóhannesarguðspjall er fjórða guðspjallið og ólíkt hinum þremur að því að það segir meira af orðum Jesú en verkum,  en hin þrjú, Markús, Matteus og Lúkas, segja meira af verkum hans.    Guðspjallið er skrifað af Jóhannesi vini Jesú.  Það er skrifað í lok fyrstu aldarinnar en hann hefur þekkt hin guðspjöllin þrjú og sjálfsagt, eins og hinir guðspjallamennirir,  skrifað margt af sínu guðspjalli áður en hann gaf það út.

 1.  1 – 4

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.  Hann var í upphafi hjá Guði.  Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans var ekki neitt, sem til er.  Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.

Þetta eru skilaboðin til okkar um Guð sem kom til okkar og varð manneskja eins og við.  Hún varð Jesús.  Jesús var alltaf til eins og Guð var alltaf til.  Eins og Guð er líf okkar er Jesús líf okkar og ljós okkar.  Þetta sjáum við aðeins með augum kristinnar trúar.  Það er gjöf Guðs sem við megum taka á móti og njóta alla daga okkar.  Guð kom og varð manneskja eins og við.  Það er mesti viðburður heimssögunnar.

1.  5 – 18

Hann var í heiminum, og heimurinn var til orðinn fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.

Það eru alls ekki aðlaðandi skilaboð að heimurinn vildi ekki sjá hann.  En þau eru sannleikurinn sem við þekkjum auðvitað úr okkar eigin samtíð.  Það verður alltaf gáta hvers vegna sumt fólk fyrr og síðar þiggur tilboðið um að trúa því að Guð hafi komið í Jesú en önnur kæra sig ekki um það og segja sum að Guð sé ekkert frekar í kristinni trú en annarri.  En lausnin er gefin aftur og aftur í guðspjallinu:  Við sjáum hver Jesús er þegar við komum til hans og fylgjum honum.  Við sjáum það ekki annars staðar.  Hjá okkur þar sem kristin trú hefur verið boðuð um aldir  er öllum boðið að koma og slást í hópinn sem stendur vörð um trúna á Guð sem kom í Jesú.

1.  19 – 34

Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.

Jóhannes skírari var ekki Jóhannes sem skrifaði guðspjallið.  Jóhannes skírari undirbjó komu Jesú og yfirmenn þjóðfélagsins töldu að hann væri kannski sá sem sagðist vera sendur af Guði en þeir vildu ekkert heyra um slíka óhæfu.  Jóhannes skírði fólk í Jórdan og bað það að breyta um hugarfar.  Jesús kom til að skírast eins og hin þótt hann þyrfti ekki að skipta um hugarfar.  Ég þekkti hann ekki þegar hann kom, sagði Jóhannes, en Guð sagði mér hver væri kominn.  Hann ber synd heimsins, sagði Jóhannes.  Og það átti eftir að koma í ljós og verða meginboðskapur kristinnar trúar.

1. 35 – 51

Fylg þú mér.

Jesús byrjaði að safna að sér hópi til að vinna með sér. Sum höfðu fengið undirbúning hjá Jóhannesi skírara sem sagði þeim hver Jesús var. Þau sögðu svo fleirum og Jesús bauð þau öll velkomin. Það er ekki strax sagt frá konunum sem hafa þó áreiðanlega komið líka. Sumar eru nafngreindar seinna. Það var ekki í tísku að segja frá konum. Þess vegna stendur ekkert um þær. En þær voru áreiðanlega í hópnum með mönnunum tólf sem einir eru nafngreindir vegna ríkjandi tísku sem guðspjallamennirnir áttuðu sig ekki á að breyta.

2. 1 – 12
Fyrsta veisluþjónusta Jesú

Jesús var í brúðkaupi og breytti vatni í vín eins og mikið er vitnað til. Það var fyrsta kraftaverkið sem hann gerði. Han gerði það í hópi vina og fjölskyldu og fyrir hvatningu mömmu sinnar. Hún, húsfreyjan, vissi hvað það hefði verið erfitt fyrir brúðhjónin ef veitingarnar hefðu ekki verið nógar. Það gæti sýnst að Jesús hafi svarað mömmu sinni púkalega að ekki sé meira sagt. En það er útilokað. Hann hefur verið að segja: Mamma mín, ég veit þú veist hver ég er og vilt mér alltaf allt það besta. En viltu nokkuð vera að trana mér fram núna? Auðvitað fór hann að ráðum hennar og það var best. Ætli hann hafi ekki stundum hugsað til hennar seinna í öllum boðunum sem hann hélt sjálfur?

2. 13 – 25

Jesús fer að mótmæla

Jesús færir sig frá heimasviðinu út í heimssviðið og efnir til mótmæla. Hann var kominn til að segja að hann væri frelsari allrar veraldar, Guð komin til fólksins síns. Það var undirstaða alls sem hann sagði og gerði. Hann sagði það stundum hreint út en stundum í gátum eins og í þessum kafla. Hvaða baráttuaðferðir sýnist þér hann hafa notað? Mér sýnist hann hafa boðað og verið nálægur, sýnt vinsemd og gert kraftaverk. Og andmælt yfirvöldunum, sjaldnast eins og hér er sagt en oftast með því sem hann sagði. Hann vissi að þau gátu ekki þolað það en hann varð að segja það. Brjótið musterið og ég reisi það aftur á þremur dögum, sagði hann og meinti upprisuna. Ekki skildu fyrirmennirnir orð í þessu og vinkonurnar og vinirnir skildu það ekki fyrr en han reis upp. Jesús barðist alltaf fyrir málum sínum og naut alltaf lífsins í þeirri miklu baráttu. Hugsaðu þér öll boðin sem hann var í og hélt sjálfur.

3.

Svo elskaði Guð heiminn að hún kom

Litla Biblían, Jóh. 3. 16 er í þessum kafla:   Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn stendur í útgáfunni frá 1981.  En í nýju útgáfunni frá 2007 er talað um einkason.  Mér finnst þetta megi standa svona:  Svo elskaði Guð heiminn að hún kom sjálf og var Jesús svo að öll sem trúa á hann glatist ekki heldur hafi eilíft líf.  Þetta er nefnilega svona eins og Biblían vitnar um.  Kaflinn er aðallega um samtal Nikódemusar og Jesú og Jesús segir honum að endurfæðast.  Hvernig í ósköpunum get ég fæðst aftur, spyr Nikódemus.  Þú eignast nýtt líf þegar þú trúir á mig, svaraði Jesús. Það er Guð sem gefur þér nýtt líf.

 3. 3                   

Engin geta séð Guðs ríki nema þau endurfæðist

Endurfæðingin er boðuð í mörgum hópum kirkjunnar og sagt að við skulum gefast Jesú í eitt skipti fyrir öll og lifa eftir því upp frá því.  Það verða straumhvörf í lífinu og við getum rakið þau til tiltekinnar stundar.  Í öðrum hópum er sagt að við höfum alltaf tilheyrt Jesú vegna þess að hann tók á móti okkur í skírninni.  Hvað finnst þér?  Ég tel að við höfum alltaf tilheyrt Jesú og hann hafi staðfest það í skríninni.  Við eigum að taka afstöðu til þess, treysta því að í Jesú er Guð komin til okkar.  Við eigum að gera okkur grein fyrir afstöðu okkar.  Við eigum að standa við það  að okkur kristnu fólki er falið að lifa í trú okkar og boða hana og það er undirstaða og gleði lífs okkar.

 4. kafli

Fyrsti predikarinn sem Jesús sendi var kona

Jesús tók á sig krók til að hitta þessa konu.  Rabbíar eins og hann var töluðu ekki við konur á almannafæri og alls ekki útlenskar konur.  Þetta var algjört hneyksli og konan sá það sjálf og hvað þá vinir hans.  Ég held ekki að stelpunum í hópnum hafi ofboðið.  Og samverska konan var hvergi bangin.  Jesús gaf henni trúna.  Hún sá hver hann var og þá sá hún hver hún var.  Hún treysti honum og þá treysti hún sjálfri sér.   Af því að hann hafði trú á henni.  Hann var engum líkur og femínisti sem breytti heiminum.   Hann sagði við hana:  Hver sem drekkur af vatninu sem ég gef þyrstir aldrei aftur.  Því vatnið sem ég gef verður að lind sem streymir fram til eilífs lífs.

5.  1 – 18

Stattu upp

Nú byrja ofsóknirnar.  Jesús gefur færi á þeim með því að egna yfirmennina til reiði.  Hefðum við nú ráðlagt honum þessa leið?  Hann valdi að lækna á hvíldardegi þótt það væri stórsynd.  Skyldi hafa verið skynsamlegra að bíða til morgundagsins?  Hann ætlaði að gera þetta svona.  Hann ætlaði að brjóta hefðirnar sem voru orðnar átrúnaður og segja að það væri hann sjálfur sem gæfi nýtt líf og eilíft líf.  Hann fékk líflátshótun í staðinn.   Lækningin var við laugina þar sem fólk beið í biðröðum eftir lækningu.  En Jesús sagði umyrðalaust við lamaða manninn sem beið þar í vonleysi:  Stattu upp.   Og lamaði maðurinn stóð upp og gekk.

 5.  19 – 30

Dómur og upprisa

Jesús svaraði ofsóknum yfirmannanna.  Ég er Guð sem er komin, þau sem sjá mig sjá Guð og þau sem trúa því hafa stigið frá dauðanum til lífsins.   Það er vegna þess að ég er Guð sem ég hef vald til að halda dóm.  Nú er sjaldnast predikað um dóm.  En það er ekki langt síðan dómspredikanir voru miklar.  Fólk óttaðist dóminn, óttaðist ógurlega.   Listamenn máluðu stórkostleg málverk um skelfingu dómsins og þau hafa átt þátt í óttanum.  Hvers vegna predika fæst okkar  um dóminn?  Vegna þess að við viljum heldur predika um krossinn sem er predikun um ást Jesú sem var dæmdur í okkar stað og reis upp fyrir okkur.  Við viljum predika um þá miklu og gleðilegu ábyrgð okkar allra á því að taka Jesú alvarlega.  Hvað finnst þér um það?

5. 31 – 47

Vitnin um Jesúm

Það er nú víða sagt  margt  fólk  sé mun víðsýnna en Jóhannes guðspjallamaður, Jóhannes skírari, konan við brunninn og það fólk allt.  Þó það líka væri, er sagt, eitthvað hefur fólk nú lært í aldanna rás og það er langt síðan Jesús og þau öll voru uppi.  Því er víða fleygt og staðhæft að Guð hafi hreint ekki komið í Jesú heldur sé Guð alls staðar, í náttúrunni,  trúarbrögðum,  lífsstíl, hljómlist, kærleika og víðar.  Þetta eru stundum heldur rausnarleg orð því sum þau sem eru tilnefnd sem opinberunaraðilar Guðs kæra sig ekkert um það.  Hvernig er þetta eiginlega?  Í þessum kafla er sagt frá þremur vitnum sem vitna óyggjandi um að Guð hafi komið í Jesú:  Jóhannes skírari, verk Jesú, Guð sjálf.  Hvernig getum við séð hvernig þetta er?  Það sjáum við í trú okkar og aðeins í trú okkar.  Þau sem trúa ekki á Jesúm sjá ekki að hann er Guð.  Mér finnst það liggja í augum uppi –   nú þegar það er búið að segja mér það.  Hvað finnst þér?

6. 1 – 15

Hádegismatur  í grasinu

Það getur líka vel verið að þetta hafi verið kvöldverður.  Alla vega var það ævintýri.  Boð hjá Jesú, brauð og fiskur, allt komið úr nestinu sem mamman sendi strákinn sinn með til vonar og vara.  Alveg eins og hjá okkur á góðum fundum um málefni Guðs, þeir verða svo miklu betri með góðum veitingum.  Nú notar Jesús máttinn sem hann vissi að hann átti og hugsaði um á fjörutíu dögunum í eyðimörkinni en vildi ekki nota þá.  En notaði í brúðkaupinu í Kana.  Og átti eftir að nota oftar.  Af því þess þurfti.  Það var nauðsynlegt og gaf svo mikla gleði.  Hann vissi að fólk myndi vilja færa sér þetta í nyt,  þjóðnýta hann og festa sér yfirráð yfir honum.  En hann var ekki kominn til þess.  Hann var kominn til að breyta hugarfari og hegðun.  Svo að fólk veraldarinnar fengi kærleikann til að sjá að það gat sjálft gefið öllum heiminum brauð.  Og það er líka markmiðið núna  að við breytum um hugarfar og tökum að okkur verkin sem Guð þarf að láta vinna.  Og það verður alltaf.  Þangað til Jesús kemur aftur og gerir allt nýtt.

6. 16 – 21

Ekki vera hrædd

Og svo kom kvöldið eftir þessa miklu hádegisverðarveislu eða kvöldverð.  Vinkonurnar og vinirnir voru búin að taka til eftir boðið og löbbuðu niður að vatninu til að taka bátinn heim.  Þau áttu heima í bænum Kapernaum hinu megin við Tíberíastvatnið.  Jesús bjó þar líka og þar var aðalmiðstöðin í starfinu til að byrja með.  Hann varð eftir og kom ekki með í bátnum.  Hin  voru sjálfsagt uppgefin eftir daginn.  Þau reru af stað og þurftu að taka hraustlega á þegar fór að hvessa og vatnið að æsast.  Þá kom Jesús.  Hann kom gangandi á vatninu.  Og þau urðu hrædd.  Þau höfðu séð hann gera lítinn nestispakka að mat handa miklum fjölda fólks.  Þau höfðu séð hann lækna fólk.  En þau höfðu aldrei séð hann ganga á vatni og þess vegna datt þeim ekki í hug að þetta væri hann.    En þegar hann sagði þeim sjálfur að vera nú ekki hrædd urðu þau örugg.  Alltaf örugg með honum.

6. 22 – 59

Brauð af himni

Það fréttist af boðinu á fjallinu og fólk dreif að daginn eftir, líka þau sem voru þar daginn áður.  En þá var Jesús farinn.  Fólkið fór til Kapernaum og fann hann.  Þá tók hann upp mikilvægt samtal við þetta fólk, alveg eins og hann myndi eiga við okkur:  Þið viljið ekki trúa á mig heldur viljið þið velmegun. En velmegunin sem ég gef ykkur er önnur en þið ætlið ykkur.   Það er sú velmegun að trúa á mig.   Ég er brauð lífsins.  Ykkur hungrar ekki né þyrstir ef þið trúið á mig.  Ég gæti ykkar og reisi ykkur upp á efsta degi.  Þau sem trúa hafa eilíft líf.   Í Ritningunni er talað  um brauðið sem Guð gaf fólkinu sem gekk frá Egyptalandi í fjörutíu ár til fyrirheitna landsins.  Það brauð gaf ekki eilíft líf, en ég, brauðið af himni, gef eilíft líf.  Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni og hver sem etur af því mun lifa að eilífu, sagði Jesús.  En yfirmennirnir eru þurrir á manninn og segja:  Hvernig þykist hann vera kominn af himni?  Hvað þykist hann vera, hann sem er ekkert annað en sonur hennar Maríu og hans Jósefs?

6. 60 – 71

Þá fóru sum

Jesús sagði í þessu mikla samtali að þau sem tryðu á sig myndu eta hold sitt og drekka blóð sitt, vera í sér og hann í þeim, þau myndu hafa líf í sér og lifa fyrir sig.  Það var kannski þetta sem sumum í hópnum hans ofbauð.  Kannski.  Alla vega fóru þau.  Jesús vissi að þau myndu fara.  Samt sagði hann þetta.  Alveg eins og hann gekk fram af valdamönnunum þótt hann vissi að þeir myndu lífláta hann fyrir það.  Allt er þetta okkur til djúprar umhugsunar.   Við erum kölluð til að treysta Jesú, líka þegar við skiljum hann ekki.  Hann er frá upphafi heimsins og hann kemur aftur og gerir allt nýtt.  Hann er upphafið og endirinn.  Hann veit hvað hann er að gera.  Og hann tekur okkur með.  Hann þekkir okkur og trúfesti okkar eða kæruleysi.  Hvað skyldi það þýða að eta hold hans og drekka blóð hans.   Ég gæti hugsað mér að það þýddi að við skulum treysta því að hann gaf líf sitt, hold sitt og blóð, í krossfestingunni og reis aftur upp til að gefa okkur frelsi í huga okkar og lífi og eilíft líf í lífi og dauða.  Hvað heldur þú?

 7. 1 – 9

Heimurinn hatar mig af því að ég vitna um að verk hans séu vond

Jesús vissi alltaf hvað hann gerði og hvenær var rétti tíminn og hann vissi alltaf hverju hann átti að svara.  Nú var tíminn að koma til að hann yrði handtekinn og krossfestur.  En ekki alveg strax.  Góði vertu ekki að fela þig hérna norður í landi, drífðu þig suður og sýndu þig, sögðu bræður hans.  Þetta var öðru vísi en þegar mamma hans hvatti hann til að sýna guðlegan mátt sinn í brúðkaupinu í Kana.  Hún vissi hver hann var, bræðurnir vissu það ekki og trúðu ekki á hann, ekki strax en sumir seinna.  Farið þið suður, sagði Jesús, það er ekki hættulegt fyrir ykkur, en það er hættulegt fyrir mig af því að ég segi sannleikann um það sem er að gerast.

7. 10 – 24

Dæmið ekki eftir útliti, dæmið réttlátan dóm

Jesús ákvað samt af fara suður.  Og tala opinberlega þótt hann vissi að yfirmennirnir voru að leita að honum.  Hvað var að gerast?  Hvað var Jesús að gagnrýna sem var svona hættulegt fyrir hann?  Það var ekki það að þjóðin skyldi vera undir yfirráðum Rómverjanna.  Það var það að þjóðin skyldi vera undir yfirráðum rangra hugmynda um trú sína.  Yfirmennirnar kenndu trúfesti við reglur sem þeir og aðrir yfirmenn bjuggu til sjálfir.  Þess vegna dæmdu þeir eftir útliti en ekki réttlæti.  En þeim bauðst að breyta um hugmyndir og taka á móti því sem Jesús sagði þeim um réttlæti Guðs.  Þið megið treysta því að það sem ég segi er frá Guði, sagði Jesús.  Þið sjáið það þegar þið treystið mér.  Fólk tók mismunandi afstöðu, það undraðist visku hans, ásakaði hann um ofsóknaræði, taldi hann illmenni eða sagði að hann væri góður.  En það var ekki talað hátt af ótta við valdamennina.

 7. 25 – 44

Ég er frá Guði sem sendi mig

Fólk fór að tala upphátt um hann.  Það varð hissa á því að hann skyldi koma fram þótt hann mætti vita að það var setið um hann.  En sumt fólk hélt þá að kannski hefðu yfirmennirnir sannfærst um að hann væri frá Guði.  Það væru þá stórtíðindi.  Nei, það gat ekki verið, var líka sagt, engin vita  hvaðan Kristur kemur en þessi er að norðan.  Hann var alls staðar til umtals.  Margt fólk trúði honum.  En engin skildu hvert hann sagðist vera að fara, kannski til að vinna í útlöndum.  Hvað var það sem Jesús sagði nú þegar hann kom fram þarna í Jerúsalem?  Hann sagði:  Ég er kominn frá Guði og þið þekkið mig ekki af því að þið þekkið ekki Guð.  En ef nokkur ykkar þyrstir þá komið til mín og eignist vatnið sem ég gef ykkur.

7. 39

Hann átti við andann sem þau skyldu hljóta sem trúa á hann

Frá hjarta þeirra sem trúa á mig munu renna lækir lifandi vatns, segði Jesús.  Hann sagði þetta líka við samversku konuna við brunninn.  Hvað þýðir það?  Það er sagt:  Það er andinn sem þau eignast sem trúa á Jesúm.  Hann er enn ekki gefinn, segir Jóhannes, af því að Jesús var enn ekki orðinn dýrlegur.  Samt eignaðist konan við brunninn þessa læki lifandi vatns þegar Jesús talaði við hana.  Hann gaf henni andann, vissuna, kjarkinn og gleðina.  Hann gerði allt nýtt í hjarta hennar og lífi.  Þegar Jesús varð dýrlegur, þegar hann reis upp frá dauðum og sannaði að hann var sá sem hann sagðist vera, gaf Guð fólki sínu enn meira af andanum.  Hún gagntók þau eins og er sagt um hvítasunnuna í öðrum kafla Postulasögunnar.  Hvað segir þú?  Hefur þú ekki líka fundið andann gagntaka þig?  Aftur og aftur á ýmsan hátt?  Ég hugsa það, af því að Jesús gefur okkur öllum af anda sínum.

7. 45 – 53

Aldrei hefur nokkur  maður talað svona

Valdamennirnir voru staðráðnir í að handtaka hann og ganga frá honum.  En þeir sem áttu að sækja hann og koma með hann til yfirvaldanna urðu svo hugfangnir af honum að þeir gátu ekki handtekið hann.  Þið ætlið þó ekki að verða eins og almúginn sem þekkir ekkert í trúnni?, sögðu yfirmennirnir.  Þá steig Nikódemus fram, hann sem einu sinni hafði heimsótti Jesúm í leyni og seinna hjálpaði konunum til að leggja hann til grafar.  Þetta gengur ekki, sagði hann, við getum ekki dæmt án þess að yfirheyra fyrst.

 8. 1 – 11

Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum

Jesús lét sér ekki bregða. Hann fór til Olíufjallsins, líklega til að biðja. Svo kom hann snemma inn í borgina og hélt áfram að tala við þau sem söfnuðust í kringum hann og þau voru mörg. Þetta er hinn frægi kafli um konuna sem yfirmennirnir komu með til hans til að fá hann til að dæma hana fyrir siðferðisbrot eftir lögmálinu. Hann gæti ekki snúið sig út úr þessu en þeir gætu ákært hann hvernig sem hann brygðist við. En þeir gátu það ekki. Því hann sagði þessi gullnu orð: Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana. Þeir fór burt einn af öðrum. En Jesús talaði við konuna. Ég sakfelli þig ekki. Þú getur tekið upp nýtt líf, gerðu það.

8. 12 – 30

Ég hef alltaf sagt ykkur hver ég er

Fólkið heldur áfram að hugsa um hann og yfirmennirnir halda áfram að bíða færis til að handtaka hann. Hver ertu?, spurði fólkið. Og Jesús svaraði: Ég hef alltaf sagt ykkur hver ég er. Ég kem frá Guði og ég fer til Guðs og allt sem ég segi er frá Guði. Þegar hann sagði þetta fór margt fólk að trúa á hann.
8. 31 – 59

Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls

Sannleikurinn mun gera okkur frjáls. Þetta eru ein hinna frægu orða Jesú. Það er tíðum vitnað til þeirra sem almenns sannleika um hvaða mál sem er. Þau eiga líka við þau öll. En Jesús sagði þau um frelsið sem við eignumst þegar við sjáum hver hann er. Í allri baráttu Jesú við valdamennina og allri boðuninni til fólksins er boðskapurinn alltaf sá sami: Ég er sannleikurinn. Guð er komin til ykkar í mér. Það er sannleikurinn sem frelsar ykkur og veröldina. Það er ég. Þið sjáið þetta í trúnni á mig. Það er eina leiðin til að sjá það. Menn mótæltu ákaflega og sögðu að hann væri svikari og hefði illan anda og tóku upp steina til að grýta hann. En hann lét þá ekki ná sér og fór.

 

 9. kafli

Guð heyrir ekki bænir syndara, sögðu kallarnir

Fólk er dolfallið yfir Jesú og valdamennirnir ævareiðir. Og Jesús heldur áfram að segja sannleikann sem frelsar þau öll sem taka við honum. Ég þarf að nota tímann meðan hann gefst, sagði hann. Enn læknar hann mann á hvíldardegi. Það var maður sem fæddist blindur og Jesús gaf sjón. Það er margt sagt í kaflanum. Það að Jesús sagði að sjúkdómar væru ekki hefnd Guðs. Og það að valdamennirnir sögðu að Guð bænheyrði ekki syndara heldur guðrækna menn. Þeir þvertóku fyrir það að blindi maðurinn hefði verið guðrækinn. Það var af og frá af því að hann var í vinfengi við Jesúm. Skrýtið að þið skuluð ekki sjá hver hann er þegar þið sjáið og hann opnaði augu mín, sagði maðurinn. Þeir ráku hann af fundinum sem þeir höfðu boðað hann á, en Jesús hitti hann og maðurinn trúði á hann.

10.  1 – 6

Jesús kallar með nafni

Tíundi kaflinn er hinn afar frægi kafli um góða hirðinn.  Jesús talaði í dæmisögum.  Nú er dæmisagan um sauðina í byrginu og svikara sem klifra yfir veggi í dimmri nóttinni og þykjast vera hirðar en eru þjófar og ræningjar.  En hirðirinn kemur að dyrunum og dyravörðurinn þekkir hann og opnar.   Og sauðirnir þekkja hann og svara þegar hann kallar þau með nafni.  Hann fer með þau út, fer á undan þeim og er leiðtogi þeirra.  Þetta er saga um hópinn, hóp Jesú sem veit að hann er frelsarinn og aðrir frelsarar eru ekki til.

  10. 7 – 21

Ég er góði hirðirinn

Fólkið skildi ekki hvað hann var að segja svo hann heldur áfram.  Það er ég sem er góði hirðirinn og ég er meira, ég er sjálfar dyrnar.  Þau sem ganga inn um þær dyr verða frjáls.  Þau eru ekki innilokuð í byrginu heldur ganga inn og út og þau fá fóður.  Það eru ekki aðrar dyr til og ekki aðrir hirðar  Ég á líka aðra sauði og þau munu líka þekkja mig.  Hver skyldu þau vera?  Jesús var að tala við sína eigin þjóð.  Skyldu hinir sauðirnir ekki vera við til dæmis?   Ég legg líf mitt í sölurnar, ég gef það af frjálsum vilja, og ég fæ lífið aftur.  Það þýðir:  Ég verð krossfestur, en ég rís upp.  Þetta vekur mikla athygli eins og fyrr og hann heldur áfram að vera alls staðar til umræðu.

10. 22 – 42

Þú gerir sjálfan þig að Guði þótt þú sért bara maður

Hér kemur margt fram sem er engu síður kapprætt um nú en þá.   Það er spurningin um Jesúm:  Hver var hann?  Hver er hann?  Ef þú ert Kristur skaltu segja okkur það, sagði fólkið.  Og Jesús segir sem áður:  Ég er margbúinn að segja ykkur það.  Ef þið trúið því ekki þegar ég segi ykkur að ég er Guð þá getið þið trúað því af því sem ég geri.  Einmitt, sögðu valdamennirnir, við ætlum ekki að taka þig af lífi fyrir verkin heldur fyrir guðlast.  Þú ert bara maður og það er guðlast af þér að segja að þú sért Guð.  Spurningin er enn til umræðu.  Og enn sagði Jesús:  Það eru bara mínir sauðir sem sjá hver ég er.  Það er aðeins hægt að sjá það í trúnni.  En ég á mína sauði.  Ég gef þeim eilíft líf og þau verða ekki slitin úr hendi minni.  Gleymum því ekki að það stóð öllum til boða að vera með í hjörðinni.