Upplýsingar

Auður Eir Vilhjálmsdóttir.
Predikun í messu Kvennakirkjunnar í Hallgrímskirkju
sunnudagskvöldið 11. september 2022
Við ætlum að tala um heilagan anda í kvöld.  Af því að við byrjum á morgun að lesa Postulasöguna í mánudagstímunum okkar og hún er öll um heilagan anda.  Hún byrjar á því að segja frá því þegar niðurbrotið fólk Jesú beið í Jerúsalem eftir því að hann segði þeim hvað þau ættu að gera.  Hann hafði sagt þeim að bíða.  Ég skal segja ykkur hvað þið eigið að gera.
Hann sagði þeim það.  Þið skuluð fara og segja öllum sem þið hittið að ég elski þau og hafi skapað þau og þau eigi í mér allt sem þau þrá í rauninni.  Líka þótt þau geri sér ekki grein fyrir því.  Þau fóru og það varð alveg eins og hann hafði sagt.   Þau byrjuðu  í Jerúsalem  en fóru svo til annarra borga og til útlanda, handviss um að heilagur andi leiddi þau.
Hvað segjum við?  Hvað segjum við um heilagan anda í okkar eigin lífi?  
Við segjum að heilagur andi leiði okkur líka og við heyrum hann tala við okkur.  
Hvernig heyrum við hann tala?  Við höfum sagt hver annarri frá því.  Ein okkar sagði að hún heyrði hvernig Guð hlustaði á bænir hennar og hvernig hún fyndi gleði og frið af því að vita það.  Og líka þegar það sem ég bið um verður ekki.  Líka þegar djúp sorgin fyllir hjarta mitt og söknuðurinn umlykur mig.  Líka þá heyri ég Guð tala við mig.  Hún segir mér að allt sé í  sinni hendi þótt ég skilji það ekki.

 

Elsku vinkonur, er það er dásamlegt að heyra vinkonu okkar segja þetta?  Að hún viti að Guð sé hjá sér þótt hún hafi ekki svarað bænum hennar eins og hún bað.  Er það ekki undursamlegt að fá að eiga Kvennakirkjuna með þessari trúuðu vinkonu okkar?  Jú, það er dásamlegt.
Aðrar okkar hafa sagt að Guð hafi sagt þeim hvaða störf þær skyldu velja sér.  Þær skyldu fara og læra það sem hún sagði þeim og vinna svo við það.  Það var hún sem talaði við þær.  Og þær fóru og gerðu eins og hún sagði, hvor fyrir sig í ólíkum störfum.  Og Guð blessaði þær og gaf þeim gleði í störfunum í marga áratugi.
Ein okkar sagði að hún vissi að Guð væri hjá sér alla daga og hún skyldi einbeita sér að því sem hún væri að gera og treysta því að Guð væri með sér.  Það en enginn tími til að hugsa um heilagan anda heldur þarf alltaf að horfa inn í skjáinn og keppast við.  Hún sagði að kannski hugsaði fólk svo lítið um trúna af því að það hefði svo mikið að gera.  Eftir vinnuna kemur  kvöldmaturinn og sjónvarpið og það er ekki tími til að hugsa um annað.  Þótt það sé gott að hafa nóg verkefni er slæmt að geta ekki horft upp úr þeim.  Ég finn hvað ég á gott að vita að ég hef nógan tíma til að hitta Guð á kvöldin og segja henni frá deginum og tala um morgundaginn.  Mér var kennt að treysta Guði og elska hana og tala alltaf við hana, þess vegna geri ég það. 
Það er dásamlegt að fá að vera í Kvennakirkju með öllum þessum góðu og trúuðu konum.
Guð talaði  við fólkið í Gamla testamentinu eins og hún talaði við vinkonur okkar.  Hún sagði við niðurbrotið fólkið:  Ég er hjá þér þegar hjarta þitt er sundurmarið og hjálpa þér þegar andi þinn er sundukraminn, Sálmur 34.19.  Hún valdi fólkinu sínu störf og kenndi þeim að vinna þau.  Ég hef fyllt þau anda mínum, vísdómi og skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik til að vinna fyrir mig.  2. Mósebók 31.3.  Hún var með fólki sínu allan daginn alla daga hvað sem þau voru að gera og þegar þeim fannst þau vera eins og þurrir móar.  Og þau sögðu:  Þinn góði andi leiðir mig um slétta braut.  Sálmur 143.10.
Við erum hópur eins og fólkið í Postulasögunni.  Við eigum heilagan anda og í honum eigum við vináttu hver annarrar og kjarkinn og gleðina til að lifa í trú okkar og segja frá henni.  Hvaða orð eigum við að hafa um heilagan anda?  Hvað segirðu um nærveru Guðs?  Eða er ekki enn betra að segja að heilagur andi sé samtal okkar og hennar?  Hvað segirðu?  Amen