Upplýsingar

Sjáið nú þennan fallega og marglita dúk sem ég tek upp úr þvottakörfunni og legg yfir prédikunarstólinn. Þetta er einn af dúkunum sem við höfum á borðinu okkar í Kvennakirkjunni í Þingholtsstræti. Hann gæti alveg eins verið í kvenfélagsambandinu eða kvenréttindafélaginu eða heima hjá þér. Við eigum allar alla vega dúka sem við breiðum á borðið fyrir gestina okkar og okkur sjálfar. Við setjum á þá mávastellið eða leirdiskana, súpur og sósur, ilmandi rétti og kaffi og súkkulaðkökur og rjóma og epli. Við sitjum og tölum og hlæjum og lífið er er vægast sagt yndislegt. Eitthvað af matnum drýpur alltaf á dúkana, og kertin drjúpa og þeir þekjast litríkum blettum. Svo við skellum þeim í þvottavélina einhvern næsta daginn, þurrkum þá og setjum þá hreina og ilmandi aftur inn í hillur þangað til við notum þá næst.

Við erum einhvern veginn eins og þessir dúkar. Við erum yndislegar manneskjur sem röðum fólki í kringum okkur og gerum því lífið betra og skemmtilegra. Og við tökum við alls lags slettum og gusum sem þarf stundum að þvo af okkur.

Það er fátt betra en fá að standa í ljómanum af góðu fólki sem er ekkert að velta því fyrir sér hvað það er gott og skemmtilegt. Það er það bara. Alveg eins og þú. Og hvað skyldi nú verða til þess að góðu fólki, og þér líklega þar með, þyki það ekki alltaf verulega til skemmtunar, hvorki sér né öðrum? Það er umhugsunarefni kvöldsins. Það er sálarþvotturinn. Ég held að það sé svoleiðis með okkur allar að okkur finnst stundum að við verðum að þvo eitthvað af okkur. Hvað finnst þér þú stundum þurfa að þvo af huga þínum?

Stundum er það bara eitthvað eitthvað, einhver dæmalaus og óútskýranleg vitleysa. En stundum er það áhyggja og depurð og eitthvað sem er í rauninni alvara.

Lífið er röndótt eins og dúkarnir okkar

Ég er sannfærð um að það er ekkert í lífinu eins eðlilegt og að finnast lífið óeðlilegt, dapurlegt, fullt af áhyggjum, skelfilegt og öryggislaust. Af því að lífið er bara svoleiðis. Í aðra röndina. Eða það held ég. En í hina er lífið skemmtilegt, öruggt og glaðklakkalegt. Þess vegna sveiflumst við upp og niður eins og dúkarnir okkar á snúrunum í vorþeynum, og stundum vitum við ekki hvers vegna. En stundum vitum við það. Það er stundum út af öðrum manneskjum. Af því að þótt þær séu venjulegast svo dæmalaust yndislegar geta þær líka orðið einhvernveginn svo allt öður vísi. Það er furðulegt. Þær segja ekki alveg alltaf það sem okkur finnst þær eigi að segja og eru öðru vísi en við vildum. Og það er enn verra, finnst mér, að ég segi stundum eitthvað sem ég gæti bitið úr mér tunguna fyrir að hafa sagt. En þá er það orðið of seint svo ég er ekkert að því.

Við spilum ýmis lög á sálir hvert annars. Við mótum daga annarra og þau móta daga okkar. Og hvað sem er sagt um að við breytum engum nema sjálfum okkur erum við alltaf að breyta einhverju ofurlitlu hvert fyrir öðru. Og stundum miklu. Með því sem við segjum og segjum ekki og gerum og gerum ekki.

Þvottabali Guðs

Og það er af þessu öllu sem við þurfum að fá að dífa okkur í þvottabala Guðs, held ég. Til að þvo af okkur mistökin og misskilninginn og allt sem særði okkur og kom okkur til að særa aðrar manneskjur. Hugsaðu þér bara ef við gætum lagt okkur stutta stund í bleyti hjá Guði á hverjum degi og svo myndi hún þvo af okkur það sem særir okku. Hún myndi vinda okkur varlega milli handanna og breiða okkur til þerris á grænu grasinu sínu, taka okkur inn ilmandi af hreinu loftinu og strauja okkur rétt aðeins, ef henni fyndist það þurfa. Og þá værum við tilbúnar fyrir næstu atburði eða næsta dag.

En það er nú einmitt þetta sem er hægt.

Við megum dífa okkur í þvottabala Guðs svo að hún þvoi af okkur þreytu okkar, leiða og áhyggjur, depurð og kvíða, og hvað annað sem þjáir okkur, líka það sem er bara hugarburður okkar og tóm vitleysa og okkur til skammar að vera að burðast með.

Þetta er auðvitað ekkert smámál. Það er stórmál. Og ef við getum þetta, það er að segja þegar við getum þetta, verður líf okkar allt öðru vísi. Eins og við vitum og höfum oft fundið.

Það er ekki það að öll málin sem við glímum við hverfi, sum vandamál halda áfram að vera vandamál. Og ég er viss um að í þvottabala Guðs fáum við styrkinn til að bera þessi mál og þora að bera þau. Alveg eins og þvottakonurnar báru þvottinn inn allan Laugaveginn og hingað inn eftir. Þær skildu hann ekki eftir niður við Frakkastíg eða inni við Hlemm. Þær fóru ekki að gera eitthvað annað og taka í nefið og hætta við þvottinn. Það hvarflaði ekki að þeim. Og þegar þær voru búnar að þvo hann voru þetta alveg sömu sængurfötin og pilsin og skyrturnar sem þær höfðu komið með, bara hrein og fín og ilmandi. Það er svoleiðis sem Guð þvær okkur í þvottinum sínum, við erum þær sömu eftir sem áður, en við höfum eignast nýjan kraft og ilm og yndisleika. Sumt er farið, eins og vitleysan sem við ölum með okkur. Sumt er enn, það er enn þungt, en við þorum að bera það heim aftur, eins og þvottakonurnar gerðu. Og við vitum að við getum það.

Mildar og máttugar konur kvennahreyfingarinnar, við sjálfar

Við erum að tala um okkur sjálfar og um kvennahreyfinguna á þessum hátíðisdegi kvenna. Við óskum allar Kvenréttindafélaginu til hamingju með 95 ára afmælið og þökkum því fyrir starfið. Við erum líklega allar á einn eða annan veginn tengdar hinni miklu og undursamlegu kvennabaráttu sem var mesta breytingarhreyfing síðustu aldar. Það er kvennabaráttunni alveg hreint ómetanlegur styrkur að við séum allar, hver og ein, í þvotti hjá Guði. Því sterk vinátta sterkra kvenna breytir heiminum. Og Guð þarfnast kvenna sem hafa sjálfstraust og eru mildar og máttugar. Það er svoleiðis sem við verðum þegar Guð vindur okkur eftir þvottinn sinn. Við verðum mildar og máttugar.

Og það er það sem heimurinn þarfnast núna. Núna þegar kvennahreyfingin er búin að láta þrjár máttugar bylgjur ganga yfir veröldina: Bylgjuna sem Jesús kom af stað og er sagt frá í Nýja testamentinu, bylgjuna sem byrjaði í frönsku stjórnarbyltingunni og kvennaheyfingu Bandaríkjanna, og svo bylgjunni sem byrjað um 1960.

Og hvað nú?

Hvað finnst þér?

Mér finnst, ég held, ég er alveg viss um, að það sem Guð þarfnast af okkur núna, til að reisa næstu kvennabylgju, sé að við, hver og ein, þvoum okkur í vatninu hennar og látum mjúkar hendur hennar breiða okkur út í blæinn sem styrkir okkur og gerir okkur nýjar og mildar og máttugar.

Núna, þegar við höfum fengið möguleika til að menntast og stjórna, þurfum við umfram allt að bera kvenlegar hugmyndir aldanna inn á sviðið. Við megum ekki ganga inn í leikritið eins og það er.

Við verðum að breyta því. Með anda þvottakvennanna, þeirra sem þvoðu og þjónuðu og gerðu lífið aftur hreint og gott. Konur hafa alltaf sýnt umhyggju. Og við skulum halda því áfram þegar við fáum völdin, þegar við stjórnum og ráðum á skrifstofum og spítölum og skipum og flugvélum og kirkjum. Við skulum ráða með mildi. Þvottakonurnar áttu ekki valdið til að stjórna sínum eigin verkum. Við eigum miklu meira vald til að ráða sjálfar störfum okkar. Notum þetta vald til góðs fyrir veröldina.

Mótum nýja stefnu. Við getum það

Guð sem þvær þvott og bakar og sópar, Guð sem sýndi öllu fólkinu sínu óendanlega umhyggju, er sífelld fyrirmynd okkar. Hún sýndi alltaf umhyggju. Og hún átti alltaf valdið. Hún sleppti því ekki. En hún sat ekki að því ein. Hún gaf öllum sem unnu með henni vald til að eiga og nota og njóta.

Tökum höndum saman við kvennahreyfinguna um allan heiminn. Og höldum mjúkt og fast í hendur hver annarrar. Mótum nýja stefnu. Við getum það. Gerum það.

Guð blessi þig. Amen