Upplýsingar

Nemið staðar við vegna og litist um og spyrjið um gömlu göturnar. Spyrjið hver sé hamingjuleiðin og farið hana, svo að þið finnið sálum ykkar hvíld. Jer. 6.16
Hún klauf björgin í eyðimörkinni og gaf þeim gnóttir að drekka. Sálm. 78.15

Sjáðu, ég legg fyrir þig tvo vegi, veg lífsins og veg dauðans. Veldu nú lífið. 5. Mós. 30.19
Jesús sagði: Ég er veguinn, sannleikurinn og lífið. Og sannleikurinn gerir ykkur frjálsar og lífið er eilíft líf. Jóh. 14.6 og 8.32 og 11.25-26
Nemið staðar við vegina og spyrjið um gömlu göturnar. Spyrjið um hamingjuleiðina og farið hana. Svo að þið finnið sálum ykkar hvíld.

Við völdum okkur vers um gönguleiðir af því að við höldum göngumessu í dag. Fyrir tvö þúsund og sex hundruð árum bað Jermía fólkið sitt að nema nú staðar og athuga sinn gang. Og núna biðjum við hver aðra og okkur sjálfar að stansa og litast um. Hægjum á okkur, æðum ekki svona áfram. Setjumst aðeins niður og spjöllum saman. Svo að við gefum hver annarri ró til að gá inn í okkar eigið hjarta. Hvert ertu eiginlega að fara, elskan mín? Ertu handviss um að þú sért í alvörunni að fara þangað sem þú ætlar, eða þangað sem þig langar? Eða ertu kannski einmitt að fara þangað? Það getur vel verið. Við ætlum ekki að segja hver annarri að við séum alltaf á villigötum og vitum ekki okkar rjúkandi ráð. Við erum oft á þeirri leið sem við ætluðum okkur að fara og við skulum styrkja hver aðra til að halda áfram.

Það er ekki út í bláinn að við spyrjum hver aðra hvert við séum nú eiginlega að strunsa og hvort við séum vissar um að við séum að fara þangað sem við ætluðum. Það er oft einhver óvissa í hjarta okkar og við erum ekki alltaf vissar um vegina. Og við látum oft berast með straumnum án þess að hugsa nokkuð sérstaklega um það hvort leiðirnar sem við göngum séu leiðirnar sem við ættum að fara og ætluðum að fara.

Þetta er ekki nema eðlilegt. Við göngum á vegum sem við höfum ekki lagt sjálfar. Við berumst með okkar eigin menningu sem hefur orðið til úr því sem gerðist, bæði góðu og vondu. Við bárum ekki ábyrgð á heimsstyrjöldinni og við höfðu ekkert að segja um breytingarnar sem urðu á Íslandi á eftir, um flutningana úr sveitunum og byltinguna í efnahag landsins. Og við höfum ekkert að segja um efnahagsmálin núna, um hnattvæðinguna og um þensluna og samdráttinn í atvinnulífinu hjá sjálfum okkur. Það er eitthvað ókunnugt fólk sem stjórnar þessu öllu og við göngum á þeirra vegum. Og grunar oft að þau hafi ekki frekari hugmyndir um það en við hvert þau eru eiginlega að fara.

Sagan er furðuleg. Alveg eins og hún var á dögum Jeremía. En einhvern veginn tökum við allar þátt í sögunni. Við berum byrðarnar af mistökum hennar og njótum gæðanna. Við njótum gæðanna og við skulum þakka verulega innilega fyrir það. Við skulum ekki segja hver annarri að við erfum bara vondar hugmyndir og vondan veruleika. Það er ótal margt gott í sögunni sem bærist til okkar. Eins og til dæmis kvennahreyfingin sem breytti heiminum fyrir okkur hvort sem við lögðum nokkuð til þess eða ekki.

Og inni í allri þessari ópersónulegu sögu sem umlykur okkur eigum við okkar eigin sögu. Það er eins og góði dátinn Sveik sagði: Inni í litla heiminum er annar heimur, miklu stærri. Það er alveg rétt og við sjáum það. Inni í veröldinni er okkar eigin veröld og hún er miklu stærri þótt hún sé minni. Hún er minni af því að hún er bara örlítill hluti af allri veröldinni og kemur fæstum við, en hún er stærri af því að hún er okkar eigin veröld. Og okkar eigin veröld skiptir okkur mestu.

Og nú erum við að spyrja hver aðra hvað okkur finnist um okkar eigin veröld núna í dag þegar við stöndum saman hérna í rigningunni á Þingvöllum. Hvernig líður þér? Hvernig líður þér í dag og hvernig leið þér í gær, og hvernig heldurðu að þér líði á morgun?

Núna ætlum við að huga að því. Af því að það skiptir þig mestu. Og það skiptir okkur hinar svo miklu hvernig þér líður. Af því að við höfum allar áhrif hver á aðra og það er þess vegna sem við hittumst og þess vegna sem við höfum Kvennakirkju. Til að hjálpa hver annarri, spyrja hver aðra spurninga og hvetja hverja okkur til að leita að svörunum sem við þurfum að hafa til að halda áfram í lífinu. Til að gera upp við minningarnar sem eru ekki góðar og til að njóta hinna sem eru svo góðar og yndislegar. Og til að halda svo leiðinni áfram í trú á Guð, sjálfar okkur, hinar og lífið.

Á leiðinni drekkum við úr læknum. Við eigum heima á leiðinni. Ein af fyrstu bókunum um kvennaguðfræði annarrar bylgju kvennahreyfingarinnar er eftir Nelle Morton sem er ein af mæðrum kvennaguðfræðinnar. Bókin heitir Við eigum heima á leiðinni, eða Leiðin er heimili okkar, The Journey Is Home. Það þýðir að um leið og við stefnum að markinu gerist smátt og smátt það sem við stefnum að. Það gerist ekki allt í einu og það gerist ekki bara þegar við náum markinu. Það gerist smátt og smátt á leiðinni. Og svoleiðis er það í kvennabaráttunni og svoleiðis er það í okkar eigin lífi. Það sem við ætlum að láta gerast gerist smátt og smátt. Smátt og smátt finnum við spurningarnar sem við viljum spyrja og smátt og smátt finnum við svörin.

Við komumst nær sjálfum okkur, lærum að lifa með sjálfum okkur í okkar heimi, lærum að opna hann fyrir hinum, lærum að láta hann hafa áhrif á litla heiminn fyrir utan okkur. Eins og kvennahreyfingin gerði, hún breytti heiminum fyrir utan sig og hún breytti heiminum inni í sér og konurnar sem unnu þar breyttu sjálfum sér og hver annarri.

Þær höfðu alla vega afstöðu til Guðs og kristinnar trúar. En við treystum trú okkar. Við byggjum á henni. Við drekkum úr lækjum hennar og vitum að það er Jesus sem er leiðin og sannleikurinn og lífið.

Við vitum að það er hann sem var frumkvöðull kvennabaráttunnar og það er hann sem núna leggur fyrir okkur sem stöndum hérna saman í rigningunni og eigum Kvennakirkjuna saman og hver um sig okkar eigið líf og allt þetta fléttast saman, við vitum að það er hann sem leggur fyrir okkur tvo vegi. Veg hamingjunnar og veginn sem er engin hamingja. Og við veljum hamingjuna, við veljum lífið. Amen