Jólamessa í Dómkirkjunni 29. desember 2002

Einu sinni enn hittumst við í jólaguðþjónustu til að segja hver annarri jólaguðspjallið. Við segjum af langri ferð þeirra Maríu og Jósefs og litla asnans þeirra yfir fjöllin alla leiðina suður til Betlehem. Og um mergðina í borginni sem fyllti öll herbergin og húsin svo að Jesús fæddist í fjárhúsi.
Við syngjum um englana á Betlehemsvöllum og hirðana sem heyrðu sönginn, allt í einu í næturkyrrðinni, þar sem þau voru búin að eiga nótt eftir nótt, kannski í fjölmörg ár, án þess að nokkuð gerðist. En þessa nótt heyrðu þau englasöng og fengu boð um að sjá Jesúm. Svo að þau fóru, og þau sáu Jesúm. Það voru bæði lífsreyndar konur og litlar stelpur í hópnum, og reyndir menn og litlir strákar. Og við heyrum um vitringana sem komu langar leiðir til að gefa Jesú gjafir. Þeir treystu stjörnunni og þeir hlustuðu á Guð sem sagði þeim að sniðganga refinn Heródes sem varð miður sín af ótta þegar hann heyrði um nýjan konung í landinu. Hann hlustaði ekkert á Guð. En ef hann hefði hlustað hefði hann heyrta hana sagja að Jesús væri allt öðru vísi konungur en hann og ætlaði aldrei að setjast í hans sæti. Og við syngjum enn meira um Jósef og Maríu, þau sem fyrst sáu Jesúm og fóru heim með hann og ólu hann upp. Við hlustum á flautuleikinn hjá Örnu og Hallfríði og sönginn hjá Aðalheiði og kórnum og hver annarri. Og við lyftum huga okkar upp úr fari hversdagsins.

Eins og alltaf þegar við hittumst. Við lyftum huganum alltaf upp úr farinu. Til að endurnýjast og gleðjast. Jólamessan er einstök með sérstökum hátíðleika sínum og frásögunni um fyrstu jólin. Sem við höfum heyrt um síðan við fæddumst. Og við getum […]

Messa í Hallgrímskirkju 1. desember 2002

Ótrúlegt en satt, það er aftur komin aðventa. Það er svo stutt síðan ég pakkaði jólaskrautinu í kassann. Mér finnst líka eins og örstund hafi liðið frá því ég býsnaðist við að líma hneturnar á aðventukransinn enn eina ferðina. Ég var heilt kvöld að koma þessum kransi saman og hann skal sko fá að tróna allar aðventur héðan í frá því mikil var vinnan við að setja hann saman.
Aðventan er sem sé gengin í garð. Aðventan með alla sína yndislegu leyndardóma, einkennilegan ilm, tilfinningasveiflur og ljósadýrð. Hvað verður gott að koma út í morguninn og sjá öll aðventuljósin í gluggunum. Hvað er indælt að setjast niður á kaffihús og finna lykt af negulnöglum og mandarínum.
Þessi tími er líka tími mikilla tilfinninga. Angurvær jólalögin óma, við minnumst gamalla tíma, horfinna tíma. Og um leið og okkur kennir pínulítið til í sálinni finnum við friðinn umvefja okkur. Þann frið sem tilheyrir aðventunni. Það er svo skrýtið að einmitt í myrkri daganna þá skín ljósið hvað allra skærast. Nú þegar myrkrið leggur þykka slæðu sína hvað þéttast yfir landið nær ljósið að lyfta myrkrarslæðunni upp, lyfta svo hátt að nóttin ljómar sem dagur. Ljósið lýsir leiðina bjarta og hrindir á brott myrkrinu svarta.

Eins er það með eril aðventunnar hraðann, asann og ysinn. Einmitt í mesta asanum finnum við hvað friðurinn kemur sterkt inn. Sem aldrei fyrr er kvöldið kyrrt og leyndardómsfullur friðurinn sveipar okkur rósemd og kyrrð. Og þegar sorgin knýr að og við munum missi okkar á liðnum tímum kemur gleðin líka svo sterk og við finnum styrk okkar, hamingju og lífið sjálft bjóða okkur til fylgdar við sig.

Hvaða leyndardómur er þetta? Jú, elsku Guð er komin til okkar í huga, líf og sál. Elsku Guð sem […]

Messa í Langholtskirkju 10. nóvember 2002

Bæn
Leiddu mig Guð – eftir þínu réttlæti, sestu niður með mér og rabbaðu við mig, gjörðu beina brautina þína fyrir mér svo ég sjái hvert ég á að fara. Gefðu mér daglegt brauð og hjálpaðu mér við að fá að taka þátt í að baka það. Því að þú ert vinkona mín og vinur og ert með mér í gleði og sorg. Amen
Þori ég get ég vil ég
Hún er sjö ára gömul. Hún er stödd í sundhöllinni á Barónstíg. Hún stendur hátt uppi á bretti. Allt of hátt. Hún fær fiðring í magann og kvíðahnút. Hún hefur verið stödd þarna áður en þá þurfti hún að bakka niður stigann, því hún þorði ekki að stökkva. Þau sem stóðu fyrir aftan hana í röðinni voru ferlega pirruð að þurfa að hleypa henni niður. En… þau þurfa þess ekki í þetta skipti því hún gengur út brettið og lætur sig gossa. Spliss – splass – vatnið fussast og hún fer á bólakaf, vatnið tekur vel á móti henni og hún skýst upp aftur og kemur upp úr brosandi út að eyrum og það eru engin smá eyru!

Hún þorði, hún gat og hún vildi og hún stökk.

Hún er 37 ára gömul. Stödd fyrir utan Háskólann. Hún fær fiðring í magann og kvíðahnút. Hún hefur verið stödd þarna áður, en hætti við, þá var það of erfitt og of mikil vinna með börnin. Hún sagði við Guð „Guð nú verður þú að hjálpa mér inn um þessar dyr“.. og hún fann hvernig Guð krækti handleggnum í hennar og hjálpaði henni inn, …. og það var tekið vel á móti henni.

Hún gat, hún þorði, hún vildi og hún gekk inn.

Hún er fertug. Stendur í prédikunarstól í Langholtskirkju. Hún fær fiðring […]

Messa í Háteigskirkju 13. október 2002

Fagnaðarerindið
Ég skrifaði þessa ræðu í dag. En ef ég hefði vitað það í gær að veðrið yrði svona í dag hefði ég skrifað hana í gær. Af því að í gær var veður til að skrifa. Þú manst hvernig veðrið var, létt og ljósgrátt og hlýtt og faðmandi. En í dag er það dökkgrátt og mér finnst það ekki yndislegt. Ég heimsótti þrjár góðar manneskjur eftir hádegið en staldraði hvergi þótt mér væri boðið það, af því ég þurfti að fara heim og skrifa, og kaupa brauð í leiðinni. Ég fór í tvær búðir.
Það fékkst ekkert sem ég ætlaði að kaupa og aðgerðaleysið var breitt yfir allt þar inni. Svartir plastpokar voru meira að segja lagðir yfir það sem var í glerborðinu í annarri búðinni, og ekkert umleikis. Ég hefði geta tekið brauð síðan í gær eða fyrradag og haft með mér heim, en hver kærir sig um svoleiðis brauð? Ekki ég. Svo ég fór heim að skrifa. Það sem átti að vera svo lauflétt og yndislegt, en myndi verða þungt og litlaust.

Og það er ekki leyfilegt að skrifa þungt og litlaust um fagnaðarerindið. En stundum verður ekki við því gert. Eins og það sem á að verða svo gott verður stundum þyngslalegt. Eins og kökur sem falla. Og sósur sem brenna við. Og eins og liturinn á veðrinu í dag og líf mannsins sem ég ætla að segja þér ofurstutt frá.

Í morgun heyrði ég sögu um ungan mann sem fór í fæðingarorlof. Þetta er þriðja barnið hans og fyrsta sinnið sem hann fer í fæðingarorlof. Hann sagði frá því úti í bæ hvað honum þætti gott að vera í fæðingarorlofi, en svo uppgötvaðist það fyrir slysni að hann treystir sér ekki til að nota […]

Göngumessa á Þingvöllum 22. september 2002

Nemið staðar við vegna og litist um og spyrjið um gömlu göturnar. Spyrjið hver sé hamingjuleiðin og farið hana, svo að þið finnið sálum ykkar hvíld. Jer. 6.16
Hún klauf björgin í eyðimörkinni og gaf þeim gnóttir að drekka. Sálm. 78.15

Sjáðu, ég legg fyrir þig tvo vegi, veg lífsins og veg dauðans. Veldu nú lífið. 5. Mós. 30.19
Jesús sagði: Ég er veguinn, sannleikurinn og lífið. Og sannleikurinn gerir ykkur frjálsar og lífið er eilíft líf. Jóh. 14.6 og 8.32 og 11.25-26
Nemið staðar við vegina og spyrjið um gömlu göturnar. Spyrjið um hamingjuleiðina og farið hana. Svo að þið finnið sálum ykkar hvíld.

Við völdum okkur vers um gönguleiðir af því að við höldum göngumessu í dag. Fyrir tvö þúsund og sex hundruð árum bað Jermía fólkið sitt að nema nú staðar og athuga sinn gang. Og núna biðjum við hver aðra og okkur sjálfar að stansa og litast um. Hægjum á okkur, æðum ekki svona áfram. Setjumst aðeins niður og spjöllum saman. Svo að við gefum hver annarri ró til að gá inn í okkar eigið hjarta. Hvert ertu eiginlega að fara, elskan mín? Ertu handviss um að þú sért í alvörunni að fara þangað sem þú ætlar, eða þangað sem þig langar? Eða ertu kannski einmitt að fara þangað? Það getur vel verið. Við ætlum ekki að segja hver annarri að við séum alltaf á villigötum og vitum ekki okkar rjúkandi ráð. Við erum oft á þeirri leið sem við ætluðum okkur að fara og við skulum styrkja hver aðra til að halda áfram.

Það er ekki út í bláinn að við spyrjum hver aðra hvert við séum nú eiginlega að strunsa og hvort við séum vissar um að við séum að fara þangað sem við ætluðum. […]

Í Fríkirkjunni í Hafnarfirði 15. september 2002

Við skulum byrja prédikun haustsins með því að segja hver annarri sögu. Þegar fegurð haustsins breiðir sig yfir garðana og göturnar og stofurnar og eldhúsin og lamparnir loga á kvöldin þá er mátulegt að fara að segja sögur. Og við hreiðrum um okkur í blíðri rónni og sveipum að okkur mjúku lampaljósinu.
Það var einu sinni lítil prinsessa. Hún átti heima í höllinni hjá mömmu sinni og pabba og hjá eldabuskunni og garðyrkjumanninum, og þvottakonunni og konunni sem festi allar skrúfur sem losnuðu og manninium sem festi allar tölurnar sem duttu af fötunum og hjá konunni sem saumaði alla kjólana á prinsessuna. Hún varð að hafa marga menn og margar konur sem þræddu nálarnar og sikksökkuðu og applíkeruðu og rykktu blúndurnar og púffermarnar og saumuðu utan um rúllebúkkið. Því litla prinsessan fékk nýjan kjól á hverjum einasta degi. Þess vegna átti núna, þennan daginn sem við segjum hver annarri frá, eittþúsund sextíu og átta kjóla. Af því að hún var orðin rúmlega þriggja ára gömul.

Og þá gerðist skelfingin. Við vitum hvernig það er. Við búum við gleði og þokka, og vorin koma og haustin og okkur grunar ekki að lífið taki upp á því næsta dag að gretta sig framan í okkur. En þennan dag vaknaði litla þriggja ára prinsessan og sá strax að það var ekki nýr kjóll á flauelisstólnum við rúmið hennar. Það var kjóllinn síðan á miðvikudaginn í hinni vikunni, rauði kjóllinn með hvíta kraganum og slaufunum við faldinn.

Hún fór að gráta. Það var engin komin til að klæða hana af því að hún vaknaði svo snemma og af því að það var svo mikið að gera í höllinni og fullt af fólki að sulta og reykja bjúgu og sauma vambir. Og hún […]

Við þvottalaugarnar 19. júní 2002

Sjáið nú þennan fallega og marglita dúk sem ég tek upp úr þvottakörfunni og legg yfir prédikunarstólinn. Þetta er einn af dúkunum sem við höfum á borðinu okkar í Kvennakirkjunni í Þingholtsstræti. Hann gæti alveg eins verið í kvenfélagsambandinu eða kvenréttindafélaginu eða heima hjá þér. Við eigum allar alla vega dúka sem við breiðum á borðið fyrir gestina okkar og okkur sjálfar. Við setjum á þá mávastellið eða leirdiskana, súpur og sósur, ilmandi rétti og kaffi og súkkulaðkökur og rjóma og epli. Við sitjum og tölum og hlæjum og lífið er er vægast sagt yndislegt. Eitthvað af matnum drýpur alltaf á dúkana, og kertin drjúpa og þeir þekjast litríkum blettum. Svo við skellum þeim í þvottavélina einhvern næsta daginn, þurrkum þá og setjum þá hreina og ilmandi aftur inn í hillur þangað til við notum þá næst.

Við erum einhvern veginn eins og þessir dúkar. Við erum yndislegar manneskjur sem röðum fólki í kringum okkur og gerum því lífið betra og skemmtilegra. Og við tökum við alls lags slettum og gusum sem þarf stundum að þvo af okkur.

Það er fátt betra en fá að standa í ljómanum af góðu fólki sem er ekkert að velta því fyrir sér hvað það er gott og skemmtilegt. Það er það bara. Alveg eins og þú. Og hvað skyldi nú verða til þess að góðu fólki, og þér líklega þar með, þyki það ekki alltaf verulega til skemmtunar, hvorki sér né öðrum? Það er umhugsunarefni kvöldsins. Það er sálarþvotturinn. Ég held að það sé svoleiðis með okkur allar að okkur finnst stundum að við verðum að þvo eitthvað af okkur. Hvað finnst þér þú stundum þurfa að þvo af huga þínum?

Stundum er það bara eitthvað eitthvað, einhver dæmalaus og óútskýranleg […]