Upplýsingar

Hófleg vitleysa hversdagsins
Þetta var fyrsta messa ársins og yfirskriftin var eitt af V orðunum sem við höfðum valið sem yfirskrist nýja ársins. Við fluttum messunar í kaffisalnum en ekki inni í kirkjunni. Kaffilsalurinn er hluti af kirkjunni og hann gefur okkur tækifæri til að sitja þéttar í hópnum. Messan byggðist, eins og allar messur, á sameiningu í söngnum og orðunum, en núna líka á inngripum í ræðuna, bæði með orðum og atburðum. Atburðirnir voru að við komum inn með kassa og dökkgrænu leiktjöldin okkar, sem eru nokkrir metrar af grænu efni, og með grímur. Þær sem töluðu sátu með hinum í hópnum og töluðu þaðan.

Textarnir voru um léttleika hversdaganna eða hina hóflegu vitleysu hversdagsins, eins og yfirskriftin fjallar um og tvær okkar lásu þá með þessum orðum:

Jesús gerði svo margt sem var allt öðru vísi en fólkið hans þekkti. Hann gerði til dæmis konur að samstarfskonum og leiðtogum sem aðrir menn létu sér ekki detta í hug. Hann eldaði morgunmat á ströndinni fyrir vinafólkið sitt og sagði því að gera allt mögulegt sem það hafði ekki órað fyrir en gerði lífið miklu skemmtilegra. Og svo var hann alltaf í boðum.

Og svo sagði hann: Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfri sér og taki kross sinn daglega og fylgi mér. Því hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun bjarga því.

Þetta þýðir meðal annars að við skulum ekki fela okkur bak við uppgerð. Við skulum hafa okkar eigið andlit á hverjum degi. Við skulum fylgja Jesú eins og við erum og feta í fótspor hans. Og við munum sjá að við lærum að gera allt mögulegt eins og hann gerði það. Hann kemmir okkur að fara okkar eigin götur í hóflegum léttleika sem breytir lífinu. Guð blessar okkur til þess.

Presturinn: Verum innilega velkomnar í kvöld og gleðilegt ár og takk fyrir hitt árið. Það var yndislegt ár og hafði líka yfirskriftina ár yndisleikans. Það er svo yndislegt þegr allt er yndislegt. Og enn yndislegra þegar það blandast með ýmissi vitleysu eins og alltaf gerist. Og lang yndislegast þegr við tökum á móti þessari vitleysu í staðinn fyrir að vera hræddar við hana og finnast lítið til um hana. Hún er hluti af hversdeginum. Og hún er hluti af sjálfsmynd okkar ….

(Presturinn kemst ekki lengra af því að ein okkar kemur inn með stóran kassa).

Presturinn: Hvað er nú þetta?

Rödd 1: Þetta er sjálfsmyndin.

Rödd 2: Ja hérna. Er þetta ekki obbólítið köntuð og klunnaleg sjálfsmynd?

Rödd 1: Ekki bara. Sjálsmyndir þurfa að vera stöðugar og rúmgóðar.

(Kona kemur og tekur dagblöð upp úr kassanum og efst er sjónvarpsdagskráin).

Rödd 1: Sko, þetta er sjónvarpsdagskráin og dagblöðin. Það er nú enginn smábunki á dag og það þarf heldur ekki smátíma til að að horfa á sjónvarpið. En það er með því, elskan mín, það er með því sem við eignumst okkar eigin sjálfsmynd. Það er með því að fylgjast vel með og vera eins og fólk er flest.

Rödd 2: Heldurðu að það sé best að falla inn í veggfóðrið og verða alveg eins og allar manneskjur og allt í kringum okkur?

Rödd 1: Ég er ekki alveg frá því. Það er að minnsta kosti léttara.

Rödd 2: Sjáðu bara.

(Við tökum græna efnið og tvær okkar halda því uppi fyrir framan okkur. Konur úr kórnum koma og vefja eina þeirra inn í annan bút af efninu og láta hana standa fyrir framan efnið sem hinar halda uppi).

Rödd 1: Já, þetta er flott. Hún sést ekki. Það er óskaplega þægilegt.

Rödd 2: Það er nefnilega gott að láta bara blöðin og sjónvarpið segja okkur hverjar við erum eða getum að minnsta kosti verið ef við leggjum okkur fram.

Presturinn (kemur með lítinn kassa): Nei, ég held alls ekki að þetta sé svona. Ég held að það sem gerist í dagblöðunum og sjónvarpinu sé margt gullgott, en það er samt bara lítill hluti af því sem er að gerast í þjóðfélaginu og heiminum.

Rödd 2: Hvað meinarðu?

Presturinn: Það er allt mögulegt að gerast á hverjum einasta degi á Stokkseyri og í Þykkvabbæ og Siglufirði og Stöðvarfirði og Ísafirði og Suðureyri. Og það sem gerist i sjónvarpinu og blöðunum er bara smákassi á við það allt saman.

(Presturinn tekur marga og mismunandi kassa undan borðinu og raðar þeim upp).

Rödd 1 (fer ofan í kassann sem táknar sjálfsmyndina): Jæja, kannski við gáum hvort það er eitthvað svoleiðis í sjálfsmyndinni.
(Hún tekur upp lopasokka).

Rödd 2: Sko, sko, sko. Er ekki bara komið táknið um sjálfstæðið!

Rödd 1: Hvernig í ósköpunum eru lopasokkar tákn um sjálfstæði kvenna?

Rödd 2: Það er bara svona af því að við höfum talað um að við skulum gera það sem við vijum og finnst best fyrir okkur sjálfar. Og svo segjum við að ef við viljum vera heima á kvöldin í lopasokkum og horfa á sjónvarpið eða lesa blöðin eða gera eitthvað annað eða alls ekki neitt, í staðinn fyrir að fara eitthvað út, þá gerum við það bara.

Rödd 1: Og skiptum okkur ekkert af því hvað annað fólk gerir eða segir um það.

Rödd 2: Einmitt. Þau eru sjálfstæðar manneskjur og við erum það líka. Og ef við treystum okkur til þess, eins og til dæmis að hvíla okkur eða vinna og vinna ef það er það sem við viljum og þurfum, ef við finnum okkar eigin stíl og elskum hann og notum, þá er miklu líklegra að við notum flotta og yndislega sjálfsmynd okkar.

Rödd 1: Og föllum inn í veggfóðrir þegar okkur sýnist og verððum einstaklingar þegar það er það sem okkur sýnist.

(Hér sungum við sálminn sem Sigríður Magnúsdóttir þýddi: Oft er örðug leið).

Presturinn: Það var skemmtilegt að þið skylduð grípa inn í ræðuna áðan, en ég vona að ég fái nú frið til að halda þessa ræðu og bið ykkur úti í sal að grípa ekki fram í fyrir mér. Við ætluðum að tala um hæfilega vitleysu hversdagsins. Og ég hafði hugsað mér að ympra á því við okkur hvernig okkur getur liðið miklu betru ef við leyfum ýmissi vitleysu sem streymir um hvern einasta dag að streyma bara um okkur í staðinn fyrir að vera að berjast á móti henni.
Og af því að þið fórum að tala um sjálfsmyndina skulum við tala meira um hana. Ég held að hún sé ein allra dýrmætasta eign okkar. Og ég held að það skipti okkur öllu hvaða sjálfsmynd við höfum. Og ég held líka að við séum alltaf, alltaf, að móta sjálfsmynd hinna. Ég held að það gefi okkur mikla blessun að fá hjálp hinna. En ég held líka að afskipti annarra fipi okkur og rífi okkur niður.

Ég held að það sé satt sem þið sögðuð þegar þið fóru að grípa fram í fyrir mér, og gerið það nú ekki aftur, að allt sem gerist sé alltaf að móta okkur. Það sem hin gera mótar okkur, og ég held að það sé oft skynsamlegast að falla bara í hópinn. En það er ekki alltaf víst að hópurinn sé neitt flottari en lopasokkarnir okkar. Það getur vel verið að það sé ekki alltaf allt sem sýnist, heldur ekki hjá þeim sem hafa flottustu framhliðina. Það getur vel verið að við og hin sem sýnum flottar framhliðar séum brothættar manneskjur á bak við þær. Og það getur verið að hluti af lausninni á lífsgátunni leynist í því að við gáum vel að því hvaða grímu við höfum og hvaða grímu hin hafa. Af því að við dáumst oft að ýmsu sem er ekkert aðdáunarvert. Og lopasokkarnir væru miklu betri. Það væri miklu, miklu, miklu. miklu betra ef við tækjum niður grímurnar. Það væri ……

(Elísabet Þorgeirsdóttir grípur fram í fyrir prestinum, hún rís upp og segir): Já, ég held það líka. Og ég var að hugsa um hvort ég mætti ekki bara lesa kvæði sem ég orti þegar ég var sextán ára:

Gríman sem við hylgjum okkur með,
okkur sjálf eins og við erum í raun og veru.
Gríman sem ber stiðnað bros okkar,
það andlit sem við sýnum hvert öðru,
berum á torg og setjum upp
þegar við nálgumst hvert annað.

Inni á klósetti tökum við það ofan.
Þegar skyggja tekur leggjum við það
á rúmstokkinn.

Um leið og vekjaraklukkan hringir
setjum við það upp aftur,
kalt, fjarlægt og fjandsamlegt.

Ljóðið er birt með leyfi Elísabetar. Það heitir Gríman og birtist í ljóðabók hennar Augað í fjalllinu sem kom út 1977. Útgefandi var Ljóðhús.

(Þegar hún er rétt búin að lesa koma fimm konur inn með grímur, fáránlegar og hlægilegar).

(Hér sungum við Dómar heimsins dóttir góð eftir Jóhannes úr Kötlum).

Presturinn: Við skulum halda áfram að tala um grímurnar og sjálfsmyndina og hóflega vitleysu hversdagsins. Það er hluti af hóflegri vitleysunni að við skulum marséra inn með þessar grímur og við gerum það bara til að vefja obbolitla hversdagsvitleysu utan um okkur allar til að skemmta okkur stutta stund. Það er best að taka þær bara niður. Takið nú grímurnar niður og verðið aftur þið sjálfar. Og hugsum allar um það hvaða grímur við höfum kannski og hugleiðum hvað við viljum gera.

(Konurnar taka grímurnar niður og setjast og presturinn heldur áfram).

Grímurnar geta verið okkur til skemmtunar. Og þær geta verið okkur til verndar. Við erum ekkert skyldugar til að sýna allt sem í okkur býr. Nema síður sé. Við höfum ekki einu sinni leyfi til að ónáða hvaða manneskju sem er með því ýmsa og brotna, eða því ýmsa og glaðklakkalega sem býr stundum með okkur. Við getum ekki hellt vonbrigðunum yfir hinar og heldur ekki gumað af heppni okkar. Sumar grímur eru góðar.

En sumar eru vondar. Bráðvondar, og gera lífið verra. Ég held það séu grímurnar sem við setjum á okkur í ótta okkar. Við óttumst hin. Af því að við höldum að þau hafi heppnast betur en við. Stundum höldum við það af því að það er sagt frá þeim en ekki okkur í blöðunum og sjónvarpinu, en stundum af einhverju öðru. Og af því að þau sem heppnast betur en hin þurfa að verja stöðu sína og af því að þau vita að það er margt fólk sem hefur heppnast betur og eru til sýnis fyrir það, og mörg sem heppnuðust betur en eru ekki enn til sýnis en geta orðið það hvenær sem er, þá eru þau smeik um stöðu sína. Og þá þurfa þau að setja upp grímu til að fela það hvað þau eru smeik. Og þess vegna verðum við kannski í rauninni öll jafn mikið út í bláinn og grímurnar sem vinkonur okkar settu á sig.

Hvað heldur þú? Hvaða góðu grímur finnst þér þú geta sett upp til að vernda þig og til að vernda annað fólk fyrir því erfiða og glaðklakkalega í þínu fari sem hin geta ekki þolað? Ég fyrir mitt leyti gæti hugsað að það sé einföld dagleg kurteisi og sjálfstraustið sem þarf til að sýna hana.

Hvað heldurðu að gæti gerst ef þú ákveður að taka ýmsar vondu grímurnar niður og leyfa bara hóflegri vitleysu hversdagsins að verða sýnilegri í svipnum?

Hver er eiginlega þessi hóflega vitleysa hversdagsins?

Ég get hugsað mér að það sé einfaldlega það að við tökum á móti frelsinu og léttleikanum sem birtist í hverjum degi. Og ef við gerum það held ég að léttleikinn og frelsið frelsi okkur frá ófrelsinu sem við bindum okkur í sjálfar. Svo sem eins og með því að vera hrædd við þau sem við höldum að hafi heppnast betur en við. Ef við frelsumst frá því höfum við miklu meira gaman af sjálfum okkur. Við treysum okkur betur og finnst við fyndnari og vænni en annars. Okkur er alveg sama þótt hin heppnist. Af því að erum alveg nógu vel heppnaðasr sjálfar.

Við getum tekið því rólega þótt við fipumst. Það gengur bara betur næst.

Það er ýmsilegt sem verður betra. Þótt við sjóðum stóra bláa dúkinn með hvítu lökunum sem verða ljósblá upp frá því þá verður bara að hafa það. Og þótt við tvíbókum okkur og lendum í veseni út af því þá sætum við lagni og vináttu til að gera gott úr því. Og þótt við verðum okkur til skammar á einn eða annan hátt, þá verður líka að hafa það.

Sérstaklega af því að hófleg hversdagsvitleysan er oftast góð og yndisleg. Og við getum sveipað henni utan um verri vitleysuna. Við getum hlegið að okkur og fyrirgefið okkur og klappað okkur á kinnina og hrósað okkur fyrir að vera svona léttilegar og frjálsar, vænar og fyndnar.

Eða hvað heldur þú? Heldurðu ekki bara að við getum notað árið til að létta sjálfsmyndina og styrkja og gera hana glaðværari. Við ætlum að nota vænleg V – orð í vetur, og vor og sumar og haust og alveg til næstu áramóta. Það hafa komið fram uppástungur um orð eins og vináttuna, velvildina, vonina, vorið, verndina, virknina, valdið og valið. Þú gefur þig fram ef einhver V – orð sem þú vilt koma á framfæri búa með þér.

Stelpurnar byrjuðu á að bera inn sjálfsmynd okkar og velta því fyrir okkur hvenær við viljum falla í fjöldann og hvenær ekki og hvernig við getum lifað okkar eigin lífsstíl hvað sem hver segir. Við ætlum að tala um þetta allt árið og vertu velkomin til umræðunnar.

Við skulum ljúka með því að segja einu sinni enn það sem við erum alltaf að segja og hafa hver eftir annarri:
Það er lífið sem gleður okkur og lífið sem særir okkur. Og mitt í þessu lífi er Guð, vinkona okkar, og þegar við tölum um lífið erum við að tala um Guð, og þegar við tölum um Guð erum við að tala um lífið. Við þurfum ekki að draga okkur út úr lífinu til að huga að sjálfsmynd okkar. Það er mitt í daglegu lífi okkar sem við mótum hana og bætum og kætum. Við getum tekið sjálfsmynd okkar í eigin hendur og utan um okkar hendur eru hendur Guðs.

Og nú bætum við þessu við í kvöld:
Gott eigum við að geta blandað hóflegri vitleysu hversdagsins inn í lífið svo að það lyfti sér og ilmi og geri andlit okkar enn yndislegri og okkur sjálfar enn fyndnari og skemmtilegri, vænni og sannari.