Upplýsingar

Við skulum biðja.
Guð, þú sem ert uppspretta alls sem lifir. Við þökkum þér fyrir lífið og fyrir hvern dag, sem þú gefur okkur. Takk fyrir að leiða okkur hingað í kvöld, til að hlusta á orðið þitt, biðja saman og njóta samvistanna hvert við annað. Viltu opna hjörtu okkar fyrir orði þínu, svo að það veki okkur og efli. Í Jesú nafni. Amen.
Ég er hamingjubarn, ég á himneskan arf,
þó að hörð reynist ævinnar braut.
Ó, hve gott er, að aldrei ég örvænta þarf.
Mína auðlegð með Jesú ég hlaut.

Þetta vers er úr einum af mínum uppáhaldssálmum. Sálmi, sem ég kynntist hér í Kvennakirkjunni. Í hvert skipti sem ég syng hann, finn ég fyrir mikilli gleði og fyllist undursamlegum friði. Lagið er fallegt og boðskapurinn einfaldur og skýr.

Ég get tekið undir með skáldkonunni, Hugrúnu, og sagt: Ég er hamingjubarn. Það getum við öll. Sérstaklega þegar við hugsum um páskana, hátíð upprisunnar. Við erum hamingjubörn, börn ljóss og vonar. Þrátt fyrir öll vonbrigði lífsins erum við hamingjubörn, vegna þess að við höfum fengið himneskan arf í upprisu Jesú. Við höfum hlotið auðlegð upprisu og lífs í sigri hans.

Vonin er þema þessarar messu. Vonin kristallast í boðskap páskanna. Hún byggir á trúnni á sigur Jesú. Sigur hans á dauðanum, myrkrinu og vonleysinu. Vonin er um upprisu og eilíft líf. Lífsins með Guði, hér og nú og alltaf.

II
María var hamingjubarn. Dag einn kynntist hún manni, sem breytti öllu í hennar lífi. Manni sem gaf lífinu tilgang og markmið. Jesús kom inn í líf hennar. Hann nefndi hana með nafni og sagði henni hver hún væri í raun og veru. Að hún væri einstök manneskja, góð og falleg sköpun Guðs. Jesús sagði að hún ætti að byggja líf sitt á honum og boðskap hans. María fylgdi Jesú og var í hópi bestu vina hans og vinkvenna. Hún kynntist kærleika Jesú og góðmennsku, þegar hann kenndi og læknaði. Jesús var hennar besti vinur.

María stóð við krossinn og horfði á vin sinn deyja. Í hennar augum var allt búið. Hún og tvær aðrar konur gátu ekki yfirgefið krossinn og Jesú. Þegar líkami hans var tekinn niður og lagður í gröf, gengu þær með og sáu hvar líkami Jesú var lagður og steinn settur fyrir gröfina.

Í morgunsárið, meðan enn er myrkur, gengur María til grafarinnar. Þegar hún kemur inn í garðinn er aðeins farið að birta af degi, og hún sér að það er búið að velta steininum frá gröfinni. Hræðsla og örvænting grípur hana. Hún hleypur heim til lærisveinanna og segir þeim frá því, sem hefur gerst. Pétur og Jóhannes hlaupa að gröfinni og sjá hana tóma. En líkklæðin liggja þar. Þeir fara strax aftur heim, því í þeirra augum er það ekki til neins að dvelja við gröfina. En María verður eftir í garðinum. Hún stendur við gröfina og grætur. Hún grætur vegna tómleikans, sem hún finnur fyrir. Grætur vegna þess að vonir hennar og væntingar eru að engu orðnar. Lífið hefur ekki lengur tilgang.

María hafði gert sér vonir um að gröfin væri sá staður, þar sem hún gæti leitað sér huggunar. Hún gæti borið líkama Jesú augum og vitjað hans þar. Nú er líka búið að taka það frá henni – hér er ekkert nema tóm gröf. Það gæti ekki nokkur manneskja skilið líðan hennar, hvað hún hefði misst mikið og hvað það var sem Jesús gerði fyrir hana. Hann hafði gert hana að heillri manneskju.

Vonleysið heltekur Maríu. Henni finnst hún standa við leiðarenda og að framundan sé ekkert nema drungi og vonarlaust myrkrið. Núna er hún ein og við taka litlausir dagar. Dagar án tilgangs og merkingar. Nú myndi hún aldrei framar njóta lífsins.

En ljósið í gröfinni fangar huga Maríu og hún lítur inn og sér tvo engla. Þeir spyrja hana hvers vegna hún gráti. Hún svarar strax, eins og ekkert sé sjálfsagðara en að tala við engla, og segir þeim frá raunum sínum. María bíður ekki eftir svari þeirra, heldur snýr sér við og ætlar út úr gröfinni. Þá stendur Jesús fyrir framan hana, en hún þekkir hann ekki. Hann segir við hana: „Kona, af hverju ertu að gráta? Að hverjum leitar þú?“ María heldur að Jesús sé grasgarðsvörðurinn og fer að segja honum frá því sem gerst hefur, en hann stoppar hana og segir við hana eitt orð. Jesús nefnir nafnið hennar: María.

Útgrátin og vonarlaus heyrir María nafnið sitt. Hún lifnar við og gleðin hríslast um hana. Þetta kallar hana aftur til lífsins. Jesús kemur enn á ný inn í líf Maríu. Hann felur henni það hlutverk að verða fyrsti kristni prédikarinn. Hún fer og segir vinum sínum og vinkonum frá því að hún hafi séð Drottin. María vitnar um það að Jesú lifir og hann mun lifa í gegnum hana og þau öll sem eru vinir hans og vinkonur.

Snúningur Maríu er mikilvægur. Hún snýr frá myrkri til ljóss, frá dauða til lífs, frá vonleysi til vonar. Jesús kemur til hennar og hvetur hana til að velja lífið. Að hún leyfi lífinu að leika um sig. María snýr sér að hinum lifandi Kristi, sem færir henni nýtt upphaf. Það opnast önnuð hurð, nýr kafli hefst í lífi hennar. Framtíðin blasir við Maríu, full af tækifærum og óvæntum uppákomum, sem hún tekst á við með hjálp Jesú, sem mun halda áfram að leiðbeina henni og hvetja til góðra verka.

III
Lífið er ganga – ferðalag, þar sem skiptast á skyn og skúrir. Ferðalag þar sem leiðirnar eru mislangar og sumar erfiðari en aðrar. Andstæðurnar í lífinu eru margar. Gleði og sorg. Sigrar og ósigrar. Fögnuður og eftirsjá. Vellíðan og vanlíðan. Engin manneskja kemst hjá þjáningu og vanlíðan. Þjáningin er hluti af mannlegu lífi. Öll verðum við fyrir mótlæti í lífinu. Við þurfum að takast á við sjúkdóma, okkar eigin eða ástvina okkar, atvinnuleysi eða ofmikla vinnu, ástvinamissi eða hvað annað sem veldur okkur vanlíðan og tekur frá okkur viljann til að lifa.

En eins og Jesús kom til Maríu, kemur hann líka til okkar og hvetur okkur til að velja lífið. Hann vill að við dveljum í ljósinu og segjum skilið við myrkrið og það sem veldur okkur vanlíðan. Jesús gengur með okkur gegnum lífið. Styður og hvetur þegar vel gengur og huggar og umvefur þegar á móti blæs.

Vinir og vinkonur Jesú spurðu á páskadagsmorgun: Hvar er Jesús? Og svarið var – Jesús er í faðmi Guðs. Jesús kom í heiminn til að gefa mönnum kraft, líf og von. Vegna hans vitum við, að við munum líka fá að hvíla í faðmi Guðs.

Það var sérstakur dagur þegar þú varst borin/n til skírnar. Sérstakur dagur fyrir þig, Guð og kirkjuna. Þetta var í fyrsta skipti sem Jesús nefndi þig með nafni. Hann gladdist yfir þér og gerir enn. Hann veit hver þú ert og þekkir þig með nafni. Jesús vill fá að vera besti vinur þinn. Fá að leiðbeina þér, styðja og styrkja. Fá að gefa lífi þínu tilgang og merkingu.

Vegna dauða Jesú og upprisu eigum við, ég og þú, vonina um okkar eigin upprisu og um eilíft líf. Upprisu á hverjum degi, eftir vonbrigði okkar, sorgir og myrkur. Vonina um eilíft líf. Lífsins með Guði, hér og nú og alltaf. Það er vegna páskasigurs Jesú sem við getum öll sagt: Ég er hamingjubarn, ég á himneskan arf…Mína auðlegð með Jesú ég hlaut.

Amen.