Upplýsingar

Við skulum hafa örlitla hugleiðingu áður en við göngum út í vorkvöldið og förum saman, allar sem getum og höfum tímann til, í kaffið hjá Ásdísi og Olgu og Steinunni niðri á Urðarhól.

Við höfum gefið hver annarri ró og frið í umhugsun um möguleika léttleikans í fyrirgefningunni og vissunni um vænu skrefin sem Guð hjálpar okkur að ganga. Á morgun þegar við göngum út í fyrsta vinnudag vikunnar, hvaða vinnu sem við höfum, launaða eða ólaunaða, göngum við í vissu Guðs.

Guð frelsar mig frá volæðinu og gefur skrefum mínum festu. Hún leiðir mig út á víðlendið. Það er skrifað um þetta í 23. Sálminum:

Þú leiðir mig út á grænar grundir
þar sem ég má hvílast við friðsæl vötnin.
Þegar ýmislegt gerist sem gæti vakið mér volæði
óttast ég samt ekki,
því þú ert hjá mér.
Þú gefur vellíðan og vissum um sjálfa mig
og þá undursamlegu gjöf að óttast ekki fólk.

Á morgun verða þessar grænu grundir og friðsælu vötnin það líf sem við vöknum til. Hvert ferð þú í fyrramálið? Hlakkarðu til – eða finnst þér það hversdagslegt – eða finnst þér það kvíðvænlegt?

Okkur langar svo til að uppörva þig. Eins og þú uppörvar okkur. Svo að þér finnist það bara heldur gott að vakna til þess lífs sem þú vaknar yfirleitt til. Það er ekki alltaf alveg eins, en það er oftast eins. Við förum í vinnuna úti í bæ, eða í vinnuna heima hjá okkur. Við hittum fólk, margt eða fátt, fyrr eða síðar í hverjum degi. Og það er alla vega, og við komum því alla vega fyrir sjónir og eigum misjafnlega auðvelt með að umgangast það eins og það á misjafnlega auðvelt með að umgangast okkur.

Þetta er allt innifalið í vissunni um vænu skrefin. Volæðið sem grípur okkur stundum er líka innifalið. Það er ekki bannað að vera í volæði. Missa kjarkinn, vilja vera heima, vilja fara heim og taka símann úr sambandi og ansa ekki dyrabjöllunni, ef svo furðulega skyldi vilja til að einhver kæmi á þessum dögum þar sem engin koma nú yfirleitt í önnur hús. Nema til að selja happdrættismiða eða safna tómum flöskum til styrktar kórnum eða íþróttaliðinu.

Það er ekki bannað að leggjast ögn í volæði. Og við erum ekki að segja það hver við aðra í þessari messu né öðrum. Við erum að segja hver annarri að við séum flottar og yndislegar manneskjur sem höfum vel efni á að gefast ögn upp inn á milli eða gefast alveg hreint upp og segja okkur til volæðis. Það er ekki vonlaust. Það er bara tímabundið. Svo finnum við vissuna aftur og göngum vænum skrefum út í vonina og vinnuna og vináttuna og allt sem styrkir okkur.

En hvers vegna leggst volæðið yfirleitt að okkur?
Það er ekki gott að segja. Stundum, hugsa ég, af því að lífið verður ögn volað. Það er ekki við því að gera og ég held við ættum að taka því sem hluta af lífinu og taka þessu volæði bara vinsamlega. En kannski blöndum við sjálfar óþarflega miklu volæði í hverdagana af því að við tökum ekki nógu mikið inn af von og vissu daglega. Það þarf að taka inn von og vissu eins og lýsið og trefjarnar. Við skulum hugsa um það núna þegar við sitjum enn hérna saman.

Hvernig tekur þú inn þína von og vissu daglega?
Þú átt urmul af vissu út um allt, inni í huga þínum, og allt í kringum þig.

Við hugleiddum það áðan og við skulum hugleiða það aftur til að festa það í huga okkar.
Til að uppörva hver aðra. Til að taka ögn til í huga okkar í vorinu. Til að henda ögn af óþarfa volæði og taka fram vonirnar og vissuna sem hefur ýst aftar í hugskoti okkar. Og til að setja nýja vissu í skápana og á borðið og í gluggakisturnar.

Hvað setjum við nú þar?
Það getur verið gleðin yfir morgunkaffinu, gleðin yfir laufunum á trjánum, yfir sjónum við Skúlagötuna eða Gróttu, yfir samtali við gott fólk, yfir vinnunni, börnunum okkar, kvöldmatnum, kvöldunum, sjálfum okkur í trú okkar og gleði.

Við fáum oft ýmislegt fallegt til að setja í gluggakisturnar eða á skrifborðið eða eldhúsborðið, eins og litla gula blómið sem ég setti á altarið áðan og set í fyrramálið á furuborðið okkar í Kvennakirkjunni.

Nú langar mig svo til að segja þér af einni svona gjöf sem ég fékk. Það er saga síðan á miðvikudaginn. Ég hugsa að hún sé líka þín saga, ekki alveg eins, en einhvern veginn svipuð.

Bæði fram eftir vikunni sem leið og nokkur skipti í vikunni þar áður og þar áður, var ég með fínu og góðu fólki, sem er samt svo erfitt að vera með. Þegar ég er með þeim segi ég alltaf eitthvað svo asnalegt og frekt og fíflalegt að ég þarf daga til að ná mér. Þetta er óttalegt volæði, sannast að segja, og svo innilega óþarft. Ég hugsa um það í hvert skipti sem við höfum talað saman hvað í ósköpunum sé eiginlega að okkur. Ég hef hugsað um það árum saman, því við erum alltaf að hittast við og við. Ég bara vissi það ekki fyrr en á miðvikudaginn hvað var eiginlega um að ske. Og það var undursamleg uppgötvun.

Ég uppgötvaði að þegar ég er með þeim erum við öll að segja eitthvað frekjulegt. Líka þau. Líka ég. En á miðvikudaginn, þegar við hittumst í bænastundinni og við töluðum allar saman og gáfum hver annarri tíma til að tala og hlusta og biðja saman og syngja, þá sá ég að hvers vegna við hin erum svona asnaleg.

Ég verð svona asanleg af því að ég fæ ekki tíma til að segja það sem mig langar til – og þá verð ég svo asnaleg – af því að þetta gerist hreint alltaf þegar við tölum saman. Og ég gef þeim ekki nokkurn tíma til að segja það sem þau vilja segja. Það er alveg eins ég og þau sem byrja að vera asnaleg. Haldið þið að þetta sé skemmtilegt? Það er óvirðulegt. Og volæðislegt.

En á miðvikudaginn sá ég að mér er bara nær að taka minn hluta í mínar kvennakirkjukonuhendur og breyta því sem er volæðislegt í það sem er æðislegt. Æðislega gott. Breyta mér. Vera þar eins og ég er hjá ykkur þegar mér líður vel og er bara ég í volæði eða vissu eftir því sem dagarnir drífa að mér.
Svo takk fyrir.

Ég hugsa að þú skiljir söguna og finnir einhvern samhljóm við hana í þínum huga og þínum hversdögum.

Guð gefur okkur öllum von og vissu í vináttu okkar. Og við skulum ganga vænum skrefum út í vorið á eftir og líka á morgun. Og láta léttleika fyrirgefningarinnar og vissunnar um væna og góða lífið umlykja okkur. Við erum yndislegar manneskjur. Vinkonur Guðs. Hún blessar okkur. Alltaf. Amen.