Þegar kólnar tökum við fram vetrarfötin

Þegar kólnar tökum við fram vetrarfötin.  Og kannski fáum við okkur kökubita þegar okkur finnst við þurfa að hressa okkur ögn.  Þegar við missum jafnvægið grípum við í eitthvað sem styður okkur.   Sem betur fer.  Annars yrði okkur óþarflega kalt og við yrðum óþarflega eirðarlausar og við myndum detta ef við styddum okkur ekki.  Við missum stundum ró okkar og finnum öryggisleysi og kulda innra með okkur og vildum að við vissum hvernig við gætum hresst okkur við.  Þau sem lifðu í veröldinni sem Biblían skrifaði um fyrir 3000 árum fundu þetta líka, alveg eins og við þótt aldirnar séu á milli okkar.  Þá gripu þau í Guð.  Og hún hélt þeim, hressti þau og gaf þeim festu og öryggi í hjarta sér.  Þess vegna stendur í Sálmunum 40.3:  Hún dró mig upp úr djúpum skurðinum, upp úr botnlausri leðjunni og gaf mér fótfestu á klett.
Blíðar kveðjur,  Auður Eir Vilhjálmsdóttir

By |3 október 2013 17:10|Dagleg trú|

Drottinn bíður þess að geta miskunnað

Drottinn bíður þess að geta miskunnað
En Drottinn bíður þess að geta miksunnað yður og heldur kyrru fyrir, uns hann getur líknað yður. Því að Drottinn er Guð réttlætis. Sælir eru allir þeir, sem á hann vona.Jesaja 30.18-22
Þessi orð spámannssins hafa alla tíð verið mér kær og nú undanfarið hafa þau verið mér mikill styrkur við veikindi og fráfall eiginmanns míns síðastliðið vor. Vil ég deilda þessum yndislegum orðum spámannsins með þeim sem ganga í gegnum erfiðleika lísins. Þegar við missum náinn ástvin fylgir því mikill gestagangur og erill á heimilum okkar sem syrgja. Þegar frá líður fækkar gestakomum. Ástvinurinn er farinn og við sitjum eftir með sorgina og ýmis veraldleg vandamál sem þarf að leysa. Þá upplifum við okkur stundum ein og yfirgefin.

Máttur orða spámannsins hafa í öllu þessu reynst mér sem klettur. Guð sjálfur bíður þess að geta miskunnað mér og heldur kyrru fyrir þar til ég þarf á Drottni mínum að halda. Þetta hefur verið mér ómetanlegt. Ég get leitað til Guðs þegar allt er öfugsnúið og ómögulegt. Þolinmæti almættisins á sér engan enda.

Vitandi það að Guð bíði eftir því að geta miskunnað mér, gefur mér kraft og þrótt, því ef ég er við það að bugast, þá er Guð tilbúinn að reisa mig upp aftur. Fegurð og kraftur orðanna gefur mér kjark og þor að takast á við verkefni nýs dags.

Auður Inga Einarsdóttir

By |27 september 2013 21:14|Dagleg trú|

Endursögn Biblíunnar

Við breytum stundum ritningartextunum sem við lesum í messunum.  Við breytum alltaf í mál beggja kynja og stundum breytum við orðum og orðalagi orð fyrir orð til að gera textana skiljanlegri.  Og stundum verða breytingarnar að endursögn eins og núna þegar ég endursegi upphafið á 25. Davíðssálmi.  Ég skrifa fyrst textann úr Biblíunni og svo endursögnina.

Til þín, Drottinn, hef ég sál mína,
Guð minn, þér treysti ég.
Lát mig eigi verða til skammar,
lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.

Ég lyfti öllum hugsunum mínum upp til þín, Guð,
elsku vinkona mín, ég treysti þér.
Hjálpaðu mér til að meta vináttu þína meira en allt annað,
svo að þau sem vilja gera lítið úr mér nái engum tökum á hugsunum mínum.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir Vilhjálmsdóttir

By |18 september 2013 23:12|Dagleg trú|

Vertu leiðtogi í lífi þínu

Þú ferð með sjálfri þér hvert sem þú ferð.  Í öllu daglegu lífi, með hverjum sem þú ert og í öllu sem þú gerir, hversdagslegu og  sérstöku, erfiðu og góðu.
Hvað þarftu til þess?
Þú þarft að hafa sjálfa þig á hreinu.
Þú þarft að sjá hvað þú hefur ekki á hreinu.
Og hvað gleður þig og uppörvar.
Sjáðu hvað þig langar að gera betur.
Sjáðu  hver þú ert.
Þú ert yndisleg manneskja og vinkona Guðs.
Þú ert leiðtogi af því að þú ert vinkona Guðs.
Þú heldur áfram í lífi þínu, mild og máttug.  Og hún er með þér.

Námskeiðið er byggt á ráðleggingum Fjallræðunnar:   Treystu Guði hvaða tilfinningar sem fylla hjarta þitt.  Vertu hugrökk, friðsöm og umburðarlynd.  Ekki láta uppspunnar ásakanir særa þig lengi.  Ekki vera dómhörð, heldur ekki um sjálfa þig.  Hugsaðu oft um það góða sem þú átt.  Trúðu ekki öllu. Trúðu Jesú.

Námskeiðið er í Þingholtsstræti 17 byrjar mánudaginn 30. september og stendur til 28. október,
í  fimm kvöld, frá klukkan 19.30 til 21,  frá hálf átta til níu.
Það kostar 5000 krónur með námskeiðsbók.

Vertu innilega velkomin og skráðu þig á kvennakirkjan(hja)kvennakirkjan.is  eða í síma 5513934.

By |14 september 2013 21:49|Fréttir|

Safna saman

Ef þið leitið mín munuð þið finna mig. Þegar þið leitið mín af öllu hjarta læt ég ykkur finna mig, segir Drottinn. Ég mun snúa við högum ykkar og safna ykkur saman.  (Jeremía 29.13-14)
Á haustin er alls staðar verið að safna saman.  Börnin safnast saman í skólana aftur, fullorðna fólkið safnast saman til að sinna áhugamálum sínum.  Við söfnum saman kartöflum og grænmeti úr jörðinni.  Kindunum mínum verður bráðum safnað saman en misjöfn örlög munu þær vissulega hljóta.  Þegar ég safnaði saman berjum um daginn minntist ég hughreystandi orðanna sem Guð hefur oft sagt við fólkið sitt, þar sem Guð lofar að safna okkur saman.  Sum haust og suma daga þarf ég á því að halda að Guð safni mér saman.  Ég þarf þess líka að Guð hjálpi mér að safna saman því sem ég þarf að geyma og henda hinu.  Af öllu hjarta veit ég að Guð finnur mig og ég Guð og örugg hvíli ég í því að Guð safnar ekki bara mér saman heldur öllum hinum líka.
Guðbjörg Arnardóttir

By |11 september 2013 21:14|Dagleg trú|

Guð varðveitir útgang þinn og inngang

Ég valdi okkur þetta vers úr Davíðssálmi, 121.8, sem haustversið í byrjun starfsins og nýrrar byrjunar í lífi okkar með haustinu.  Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu, héðan í frá og að eilífu.  Við erum alltaf að byrja á nýju og nýju til tilbreytingar og endurnýjunar.  Nú varðveitir Guð okkur í útgöngu okkar úr sumrinu og inn i haustið.  Versið var haft yfir þegar við vorum skírðar og hefur alltaf fylgt okkur.  Guð hefur alltaf fylgt okkur, inn og út úr tímabilum og hugarhræringum og hverju sem er.  Það er svo stórkostlegt að ekki verður orðum að komið.

Hún blessar okkur þegar við göngum inn til hennar sem á bæði tímann og eilífðina og stjórnar Guðsríkinu.  Þú veist hvernig það er.  Við komum inn fyrir dyrnar og hún tekur strax á móti okkur, sest hjá okkur og hlustar og svarar.  Hún hlustar á allt og skilur allt og á alltf ráð.

Biðjum hver fyrir annarri. Biðjum fyrir þeim sem eiga í erfiðleikum núna og fyrir þeim sem eiga góða tíma í haustinu.  Jónas skrifaði í spádómsbókina sína, 2.8, að bænir okkar komi til Guðs og mér finnst ég geti séð þær koma inn úr gættinni og setjast við borðið hjá henni, litlar og fallegar og ná ekki niður á gólf.  Og hún sest hjá þeim og hlustar á þær og tekur málið að sér.

Blíðar haustkveðjur,  Auður

By |4 september 2013 21:04|Dagleg trú|

Kvennakirkjan heldur guðþjónustu í Neskirkju við Hagatorg

Sunnudaginn 8. september klukkan 20 heldur Kvennakirkjan guðþjónustu í Neskirkju við Hagatorg. Í guðþjónustunni setur séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir séra Arndísi G. Bernhardsdóttur Linn í embætti prests Kvennakirkjunnar en þær munu starfa saman sem prestar Kvennakirkjunnar. Séra Arndís prédikar, Anna Sigríður Helgadóttir syngur einsöng og Kór Kvennakirkjunnar leiðir söng undir stjórn Aðalheiðar Þorsteinsdóttur.

Kaffi í safnaðarheimilinu á eftir. Þær sem sjá sér fært að koma með kaffibrauð fá alúðarþakkir.

By |4 september 2013 14:58|Fréttir|

Konur sem standa í skilnaði

Konur sem standa í skilnaði

Konur með svipaða reynslu hittast og tala saman, tala við Guð og hlusta á hana, tala við leiðbeinendur   –   og ná áttum. Samverurnar hefjast  þriðjudaginn 1. október  klukkan 17.15 og standa til 18.30.  Leiðbeinendur verða Guðrún Elíasdóttir, Guðrún B. Jónsson og Kristín Ragnarsdóttir.

By |2 september 2013 23:04|Fréttir|

Námskeið Kvennakirkjunnar í haust

Námskeið Kvennakirkjunnar þetta haustið verða sem hér segir:

Vertu leiðtogi

Fyrir hvað fólk?  Fyrir þig. Þú útskrifast með þessa diplómu: Þú ert mild og máttug af því að þú ert vinkona Guðs. Kennslan er byggð á Fjallræðunni. Við kennum allar  með Auði Eir. Biblíuvers, bænir og söngur innifalið. Námskeiðið verður á  mánudögum klukkan 19:30 frá 30. september til 28. október.

Yndisleg uppörvun

Konur segja frá forgöngukonum kvenfrelsis á Íslandi.  Þú verður enn skemmtilegri og ánægðari með þig eftir námskeiðið. Þú verður frá þér numin og það endist. Námskeiðið verður á mánudögum klukkan 19:30 frá 4. nóvember til 2. desember.

Námskeiðin eru í Þingholtsstræti 17.  Skráðu þig á netfangið okkar, kvennakirkjan(hja)kvennakirkjan.is  áður en þau byrja. Námskeiðin kosta bara 5000 krónur.

 

By |11 ágúst 2013 14:17|Fréttir|

Útimessa í Öskjuhlíð

Sunnudaginn 11. ágúst verður Kvennakirkjan með útimessu í Öskjuhlíð sem hefst kl. 16:00. Við hittumst við inngang Perlunnar og göngum saman um Öskjuhlíðina. Auður Eir Vilhjálmsdóttir flytur hugleiðingu og við syngjum saman undir stjórn Aðalheiðar Þorsteinsdóttur.

By |8 ágúst 2013 14:12|Fréttir, Óflokkað|