Postulasagan   2. 43 – 47    –  Fyrsti söfnuðurinn  var í Jerúsalem –  þau áttu allt saman og hittust á hverjum degi  í musterinu og heima, borðuðu saman og lofuðu Guð

Postularnir, konur og menn, gera mörg tákn og undur og fólk gengur í kirkjuna.  Þau halda hópinn og eiga allt saman.  Fólk selur eigur sínar og setur í sameiginlegan sjóð.  Þau hittast á hverjum degi í helgidómi Gyðinganna í Jerúsalem og  líka heima þar sem þau brjóta brauð í helgri athöfn til að þakka fyrir upprisu Jesú Krists.  Svo borða þau saman og lofa Guð.  Þau eru vinsæl og Guð bætir daglega nýju fólki í hópinn.

Kærleikssamfélag hópsins

Lúkas skýrir frá þessu einstaka kærleikssamfélagi sem ríkti í fyrsta söfnuðinum.  Þegar kirkjan varð fjölbreyttara samfélag fólks af ólíkum uppruna og skoðunum kom upp ýmis togstreita sem varð að leysa.  Það sést í seinni köflum í Postulasögunni og  bréfunum sem taka við af Postulagsögunni í Nýja testamentinu.   Trúin á Jesúm Krist krossfestan og upprisinn var aldrei véfengd.  Það var hennar vegna sem hópurinn varð til og fólk gekk í hann.  Togstreitan var ekki vegna efasemda um trúna á Krist heldur um trúfesti við gyðingdóminn og um framkvæmdir í starfinu.