Upplýsingar

Þær gengu fram…….

Prédikun í Kirkju óháða safnaðarins  15. mars 2015 – Arndís G. Bernhardsdóttir Linn

Dætur Selofhaðs gengu nú fram. Dætur hans hétu Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa. Þær gengu fram fyrir Móse og Eleasar prest, höfðingjana og allan söfnuðinn við dyr samfundatjaldsins og sögðu. (4.Mósebók 27.2)

Þannig hefst saga systrana fimm í fjórðu Mósebók sem komu sér út úr tjöldum sínum, án þess að á þær væri kallað, tróðu sér inní hið allra heilagasta og stilltu sér upp fyrir fram karlaveldið. Á stað þar sem konur áttu hvorki erindi né höfðu rétt til að vera. Þær voru ósáttar við lög feðraveldisins og mótmæltu því að erfðaréttur gengi aðeins til drengja. Þær voru einkadætur föður síns og vildu halda nafni hans á lofti og gera tilkall til eigna hans. Kannski voru þær hræddar en þær voru ákveðnar og framsýnar, hugsuðu út fyrir rammann og tóku ábyrgð á eigin lífi. Þær tókust á við hindranirnar sem urðu á vegi þeirra og neituðu að sætta sig við óréttlæti samfélagsins

Það er skemmst frá því að segja að Móse snéri sér til Guðs. Hún var að sjálfsögðu ekki lengi að koma honum í skilning um að hlusta á konurnar og verða við kröfu þeirra. Guð vinkona þeirra var með þeim í baráttunni.

Raddir kvenna eru ekki sérlega fyrirferðamiklar í Biblíunni – hvorki í Nýja Testamentinu né því gamla. Lindsay Hardin Freeman og trúsystur hennar í Minnesota hafa tekið sig til og talið öll þau orð sem konur segja í Biblíunni.  Í bók Fremann sem heitir Konurnar í Biblíunni: allt sem þær sögðu og hversvegna það skiptir máli  kemur í  ljós að konur segja í kringum 14.000 orð í Biblíunni, u.þ.b. 1,2 prósent af öllum orðunum sem þar standa. (1.1 milljón orð). Það tæki meðal ræðukonu innan við tvo klukkutíma að lesa öll þessi orð. Það er ekki ýkja mikið. En Freeman og kynsystur hennar eru sammála um að þær 93 konur sem þó fá að tala í Biblíunni hafi í öllum tilvikum verið einstaklega djarfar.[1]

Í Guðspjallatextanum sem ­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­Kristín las áðan heyrðum við líka um konur sem gengu fram. Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar sem voru með þeim. Þær fluttu þann boðskap að Jesús væri upprisinn, hefði sigrað dauðann. Boðskap sem í tímans rás hefur verið fluttur konu fram af konu, en líka kenndur bæði við hneyksli og heimsku. En það eru engin orð höfð eftir þeim í texta guðspjallsins, þær segja ekkert sjálfar, það er aðeins sagt frá því að þær hafi sagt frá.

Við vitum mæta vel að það er ekki bara í Biblíunni sem konur hafa „óvart“ orðið raddlausar. Íslenskar konur fyrri alda hafa verið álíka mjóróma. Það hefur því verið áhugavert að fylgjast með síðustu ár og jafnvel áratugi hvernig ýmis listform hafa verið notuð til að ljá konum fyrri alda raddir sem þær höfðu ekki áður.

Þetta skynjuð við sterkt  á námskeiði Kvennakirkjunnar nú í vetur þegar rithöfundarnir Kristín Steinsdóttir og Helga Guðrún Johnson komu til okkar.

Þær ræddu við okkar um bækur sínar Vonarlandið og Sagan þeirra, sagan mín. Þær ræddu um Guðfinnu, Stefaníu, Margréti, Jóku, Köndu, Stellu og Katrínu sem voru bæði þvottakonur og vatnsberar, yfirstétta konur og konur í lægstu stigum þjóðfélagins. Báðar segja þær sögurnar frá sjónahóli kvenna, ljá þeim raddir og veita einstaka innsýn inní líf þeirra. Og það er óhætt að segja að aðalpersónurnar hafi verið ákveðnar og framsýnar, hugsað langt út fyrir rammann og tekist  á við ýmsar hindranir sem urðu á vegi þeirra. Bæði Kristín og Helga ásamt öðrum höfundum, íslenskum og erlendum hafa gengið fram og  gert reynsluheim kvenna á ólíkum tímum sýnilegan.

Á alþjóðlegum baráttdegi Kvenna sem haldinn var hátíðlegur um síðustu helgi gekk fjöldinn allur af konum og mönnum fram og lögðu málefnum Kvenna lið með einhverjum hætti. Áföngum og sigrum var fangað, ýmissra kvenna var minnst og baráttu fundir voru haldnir. Í kirkjum landsins var beðið fyrir jafnfrétti og mannréttindum.

En jafnvel þó ötullega hafi verið unnið með þrotlausri baráttu fyrir  bættum mannréttindum kvenna  og jafnrétti kynjana sýnir tölfræðin að enn eru  allt of margar hindranir í veginum.

Ofbeldi gegn konum telst til útbreiddustu en jafnframt minnst viðurkenndu mannréttindabrota í heiminum í dag.

Enn deyja 800 konur á hverjum einasta degi vegna vandamála tengdum meðgöngu. Konur verja 16 milljónum klukkustunda á hverjum degi í að sækja vatn.  Þær fá enn 10 – 30 prósent lægra laun en menn og konur eru enn um 60 prósent þeirra sem eru ólæs í heiminum í dag. Það er því varla skrítið að UN Women, stofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur í þágu kvenna og jafnréttis hafi setti af stað átak sem kallast ,,Step it up“ og hefur verið þýtt á íslensku ,,spýtum í lófana“. Átakið er ákall til þjóða heimsins um að hraða aðgerðum í þágu jafnréttis og markmið stofnunarinnar er að kynjamisrétti verði útrýmt fyrir árið 2030.[2]

Það er því miður staðreynd, árið 2015 að raddir kvenna fá enn ekki að hljóma um allan heim. Nöfn þeirra heyrast ekki og reynsla þeirra er ekki virt. Ekki fyrr en þær hugrökkustu fá nóg. Í því samhengi er vert að hugsa til Malölu, yngsta nóbelsverðlaunahafa í heimi sem segir að hún vilji ekki að sín veðri minnst sem stelpunnar sem var skotinn heldur sem stelpunnar sem stóð upp – Hún gekk fram og mótmælti óréttlæti samfélagsins.

Fyrir rúmum 22 árum gekk vaskur hópur, djarfra, íslenskra kvenna fram. Það voru Auður Eir, Guðný, Inga Hanna, María, Elísabet, Ninna Sif og Rannveig og hinar sem voru með þeim. Þær gengu fram og stofnuðu kirkjuna okkar, Kvennakirkjuna. Á svipuðum tíma voru Kvennakirkjur að verða til víða um heim. Við getum sagt að Kvennakirkjur með feminíska guðfræði í fararbroddi hafi troðið sér inní hið allra heilagasta í Kirkjunni og stillt sér upp fyrir framan karlaveldið eins og það lagði sig. Þær voru ósáttar við kúgun kvenna innan kirkjunnar, einsleitar guðsmyndir, einsleitt tungutak og mótmæltu því að það væri ekki alvöru rými fyrir þær hjá Guði.  Þær vildu leita að löngu þögnuðum röddum kvenna og gefa öllum konum fortíðar og framtíðar tækifæri til að láta rödd sína hljóma og tilbiðja Guð á sínum eigin forsendum. Og það er ljóst að Guð vinkona þeirra var með þeim í baráttunni.

Við þurfum öll að ganga fram, rétt eins og dætur Selofhaðs forðum. Við erum öll kölluð til að gefa konunum sem komu frá gröf Jesú rödd. Við erum kölluð til að fylgja og flytja fagnaðarerindi Jesú krists. Boða frelsi, frið, fögnuð, já og  femínisma Því í heimi Guðs er hvorki kynþáttamismunun, stéttaskipiting né misrétti kynjanna. Við erum jú sannarlega öll jöfn í Jesú Kristi.

Guð vinkona okkar gefur okkur kraftinn til að stíga fram, ákveðnar og framsýnar. Guð gefur okkur kraft til að hugsa út fyrir rammann og takast á við hindranir. Guð á þá ósk heitasta að við spýtum í lófana og tökum sama höndum um gera heiminn okkar að þeim stað sem hún ætlaði honum að vera. Amen.

[1] Feeman, Lindsay Hardin: Bible Women: All Their Words and Why They Matter

[2] http://kjarninn.is/2015/03/althjodlegur-barattudagur-kvenna-kynjajafnretti-verdi-nad-fyrir-arid-2030/