Upplýsingar

Prédikun í Kvennakirkjunni í NÓVEMBER  2016 – Arndís G. Bernhardsdóttir Linn

Á kvennaárinu mikla, 2015 sá ég áhrifamikla leiksýningu í heimabæ mínum Mosfellsbæ. Það var Leikfélag Mosfellsbæjar sem setti upp þessa metnaðarfullu sýningu sem hét Mæður Íslands. Leikara hópurinn hafi skapað verkið  í samvinnu við leikstjóran og það fjallaði um veruleika íslenksra kvenna á einlægan og ögrandi hátt.

Mér er sérstaklega minnistæð ein senan þar sem leikararnir, konur á öllum aldri, stilltu sér upp í hálfhring, snéru andlitum sínum að áhorfendum og stóðu þöglar um stund. Svo byrjaði sú fyrsta; Ég hefði ekki átt að gera þetta svona. Svo kom löng þögn. Önnur kona, allt annarsstaðar í röðinni hóf þá upp rausn sína og sagði ; ohh, það er svo ömurlegt á mér hárið. Sú þriðja, hvað ég er vitlaus? Síðan héldu þær áfram hver af annarri með stuttar, hnitmiðaðar setningar. Ég man gæsahúðina sem hríðslaðist upp eftir bakinu á mér þegar ég gerði mér grein fyrir hvað var að gerast. Þær voru að túlka samtölin sem við eigum innra með okkur, við okkur sjálf. Þegar við drögum okkur niður og teljum sjálfum okkur trú um að við séum ekki nógu hitt eða þetta.

Og ég hugsaði, Vá ég sem hélt þetta væri bara ég ! hvert stefnum við vesalings mannfólkið, er það virkilega svona sem við tölum til okkar sjálfra á Íslandi í dag, eru þetta áhrifin sem við höfum hvort á annað á 21 öldinni… heimur versnandi fer, ekki satt?

Í haust, ári seinna hef ég svo setið námskeið í Lágafellskirkju um hugrekki. Það er byggt á rannsóknum konu sem heitir Brené Brown og er prófessor við háskóla í Houston. Hún hefur síðasta áratuginn rannsakað skömm og hugrekki, berskjöldun og verðugleika og tekið viðtöl við tugþúsundir fólks á öllum aldri og öllum kynjum.  Brene segir að menningin í okkar vestræna heimi sé einstaklega lituð af hugmyndum um skort og það birtist í inngrónum hugmyndumA um að við séum ALDREI NÓG. Við endurtökum með sjálfum okkur, bæði ómeðvitað og meðvitað, eins og rispaðar grammafónsplötur að við séum ekki nógu hitt eða þetta; ekki nógu dugleg, klár, afkastamikil, gáfuð, skynsöm, ákveðin, falleg, grönn, – Þú mátt velja þína uppáhalds rullu.

Áhrifin sem þess skorts- menning hefur á okkur er að við upplifum skömm, höfum tilhneygingu til að kenna öðrum um, festumst í samanburði og verðum fráhverf fólki og hugmyndum. Brene leggur sterka áherslu á að við verðum að skilja skömmina, þessa sársaukafullu tilfinningu sem telur okkur trú um að eitthvað sé að okkur og að við séum þess ekki verð að tilheyra og vera elskuð.

Hún bendir líka á að í menningu þar sem hugmyndir um skort eigi svo vel uppá pallborðið líði okkur oft eins og við eigum erfitt með gleðina: Við vöknum á morgnanna og hugsum: það gengur vel í vinnunni, allir í fjölskydlunni eru hraustir,engar meiri háttar krístur, mér líður vel í eigin skinni – Ó sjitt, þetta er slæmt, verulega slæmt, þetta hlýtur að vera of gott til að vera satt – það hlýtur að bresta á með ógæfu hvað á hverju.

Mér finnst allt sem Brene segir meika svo ótrúlega mikinn sens svo ég sletti eins og unglingarnir. Og kannski er það ekki skrítið því hún er ekki að búa til eða fabúlegar um einhverjar kenningar heldur er hún að draga saman og túlka endalaus samtöl við fólk sem hefur opnað sig og sagt frá líðan sinni. Hún er að vinna með reynslu fólks – hún er m.a. að fá fólk til að segja hvernig rispaða grammafónplatan þeirra hljómar og veldur því vanlíðan.

Og ég hugsaði aftur, Vá, Er þetta líka svona í Bandaríkjunum, eru þetta áhrifin sem við höfum hvort á annað á 21 öldinni… heimur versnandi fer, ekki satt?

Og svo fer ég um síðustu helgi á skemmtilega og nærandi ráðstefnu í Háskólabíó, svo kallaða GLS ráðstefnu.  Þar er kona sem flytur feiknagóðan fyrirlestur. Hún heitir Danielle Strickland og kemur frá hjálpræðishernum

Og hún er að tala um Gídon í Biblíunni. Gídeon sem Biblíufélagið okkar hér á Íslandi og samsvarandi félög um allan heim heita eftir. Gídeon vann mikið afrek í stríði með fámennan her undir leiðsögn Guðs. En áður en til sigursins kom sendi Guð engil sinn til að ávarpa Gídeon og hvetja hann til afreka. Guð ávarpaði hann og sagði; Drottinn er með þér, hugrakki hermaður.

En Gídeon möglar – hmm, það er nú ekkert sem bendir til þess, segir hann.

Guð gefst ekki upp og segir aftur við hann: Farðu í styrkleika þínum, er það ekki ég sem sendi þig?

Og hvað haldiði að Gídeon hafi sagt: ,,Æ, Drottinn, hvernig ætti ég að frelsa Ísrael? Ætt mín er aumasta ættin í Manasse og ég smæstur í ætt minni.“

Heyriði, í alvöru, hvað hann segir: Æi ég er ekki nógu góður til að frelsa, ættin mín er ekki nógu sterk, ég er ekki nógu stór, ekki nógu, ekki nógu,……

Og mér varð hugsað til fleirri valinkunnra persóna úr Biblíunni: Hvað sagði ekki Móse þegar Guð sagði honum að leiða Ísraelsmenn útúr egyptalandi: Hver er ég, á ég að fara að tala við Faraó, og nokkrum köflum síðar: Æi Drottinn aldrei hef ég málsnjall mðaur verið, Æi Drottin ertu ekki til í að senda einhvern annan ? Heyriðið hvernig hann hefur talað við sjálfan sig, ég er ekki nógu merkilegur, ekki nóg góður í að tala.

Og ég hugsa, Bíddu hefur þetta ekkert með 21 öldina og versandi heim að gera, hefur þetta alltaf verið svona, höfum við alltaf verið svona – rispaðar grammafónsplötur…

Hvar byrjaði þetta? Kannski bara í upphafi?

Guð skapaði himin, jörð, ljós, sjó, jurtir, dýr, Adam og Evu, ávaxtatré, höggorm og búmm…

Þar með fór allt í vitleysu. Eina stundina voru þau alsber og alsæl og þá næstu gerðist hvað – þau fóru að blyggðast sín – þau fundu fyrir skömm. Þeim fannst þau ekki nógu eitthvað til að standa ber frammi fyrir Guði.  Þau sundruðust frá Guði og upplifðu skömm.

Þurfum við að kalla það synd? Nota þetta gildishlaðna, neikvæða en  oft á tíðum líka merkingarlaust notaða orð – Megum við ekki bara kalla það sundrung frá Guði ?
Ég veit það ekki.

Ég veit bara það að það eina sem getur í alvöru læknað þessa tilfinningu, þó ekki sé nema stutta stund í einu er samfélagið við Guð. Að tala við Guð – að fela Guði allar sínar hugsanir og tilfinningar.

Ég veit líka að þetta er ekkert nýtt fyrir ykkur – ekkert sem þið hafið ekki heyrt áður. En þó við heyrum hlutina aftur og aftur er ekki endilega víst að við höfum alltaf vit og berum gæfu til að hugsa þannig öllum stundum. Ég trúi því að við þurfum að heyra hlutina á nýjan og nýjan hátt til að fá þá til að virka betur í lífi okkar.

Staðreyndin er sú að við þurfum að æfa okkur í að tengjast Guði aftur og aftur og aftur. Við náum aldrei að gera það í eitt skipti fyrir öll. Ekki frekar en það dugar okkur að borða einu sinni í viku eða draga andann einu sinni á dag. Við þurfum að gera það aftur og aftur og aftur.

Við þurfum meðvitað að æfa okkur í að leyfa okkur að vera í Guði og leyfa Guði að vera í okkur, eins og Jesús sagði í guðspjallatextanum áðan: ,, svo að þau séu öll eitt, eins og þú Guð ert í mér og ég í þér, svo séu þau einnig í okkur.

Þú í Guði – Guð í þér.

Amen.