Upplýsingar

Predikun í stofum Kvennakirkjunnar 2. desember 2018

Ég var að hugsa um að tala um fullveldð og umræður þessara daga.  Bara eitt í umræðunni.  Bara eitt.  Við getum talað saman um þetta allt og við erum áreiðanlega sammála um margt og ósammála um annað.  Það er svo prýðilegt eins og  ævinlega að víkka sjónarmiðin.

Eg ætla að tala um umtalið um okkar eigin persónulega fullveldi.  Það er talað aftur og aftur um þjóðkjörið fólk sem sé meira en við venjulegar ókjörnar manneskjurnar.  Ég held ekki að það sé rétt.

Við skiptumst ekki í tvo flokka.  Við erum öll þjóðkjörin og fullvalda og berum öll ábyrgð á fullveldi okkar.  Það er alveg satt að margt fólk, þjóðkjörið og ráðiið til starfa þarf að taka ákvarðinar um margt sem við hin þurfum ekki.  Þau þurfa að koma fram þar sem við þurfum ekki að vera og lýsa yfir skoðunum sem við þurfum ekki.  En ábyrgðin sem þau bera er ábyrgð okkar allra.

Þegar þeim tekst vel er það af því að okkur tekst vel í því að vera fullvalda einstaklingar í fullvalda þjóð.  Þau eru hluti af okkur öllum í kringum sig.

Það verða alltaf deilur um ákvarðanir og framkvæmdir. Það var deilt um ákvörðunina um fullveldið 1918.  Og um lýðveldið 1944.  Og um Atlandshafsbandalagið og um Evrópusambandið.  Það er sífellt deilt um launakjör.  Og um velferðarmál og um skólamál.  Við gefumst stundum upp á að hafa einbeittar skoðanir á þessu öllu og felum það fólkinu sem hefur fallist á að hafa skoðanir og framkvæmdir.  Sumum treystii ég og öðrum treystir þú.  Þetta er svo alvanalegt eins og maðurinn á Akranesi sagði alltaf.

En við erum öll fullvalda og jafn fullvalda og þau sem við kusum eða treystum.  Þau mótast af skoðunum okkar og við af skoðunum þeirra.  Ég er samt búin að fullyrða að við felum þeim að komast að ýmsum niðurstöðum sem við gerum ekki sjálf.  Mér finnst ég þurfa að segja eitthvað nánar um það að við séum samt öll jafn fullvalda.

Ég ætla að sækja rökin í aðventuna.  Það er tíminn sem við hugsum sérstaklega um það að Guð kom sjálf til okkar.  Hún kom i eigin persónu og hætti að vera rödd sem talaði en sást aldrei.  Hún kom og varð persóna eins og við.  Þegar hún kom sat hún í hópnum eins og hún sæti á auða stólnum hérna í hringnum.   Það var hægt að taka í hendina á henni og tala við hana og borða með henni. Hún var Jesús.

Jesús gekk um á meðal þeirra sem stjórnuðu í Ísrael.  Það voru mennirnir sem stjórnuðu eftir lögmálu þjóðarinnar og mennirnir sem stjórnuðu eftir rétti Rómverska ríkisins.  Hann var í hvorugu líðinu.  Hann kallaði saman sitt eigið lið.  Það var venjulegt fólk.  Og óvenjulegt.  Hann bauð fordæmdu fólki og fátæklingum, ómenntuðu fólki og konum.  Þau voru öll kjörin.  Guð hafði kosið þau.

Hvað áttu þau að gera?  Þau áttu að vera  sjálfstæðar og réttlátar manneskjur og lýsa öðrum til góðra hugsana Guðs og framkvæmda hennar.  Jesús skipti fólki aldrei í meira fullvalda fólk og minna fullvalda.  Aldrei nokkurn tíma.   Við eigum að vera eins og þau sem hann kaus.  Þau voru fullvalda fólk sem treysti Guði og vann með henni.  Eins og við segjum hver annarri æ og ætíð.  Við getum það ekki sjálfar í eigin mætti.  En við getum það í mætti Guðs.

Margrét Danadrottning var hjá þjóðinni í gær og sat í kuldanum við Stjórnarráðið.   Hún er bæði fullvalda þjóðhöfðingi og  venjuleg manneskja í þjóð sinni.  Hún hefur kosið sér leiðina til að geta það.  Það verða lokaorðin.  Margrét Danadrottning sagði í ævisögu sinni:

Hin kristna trú er kjarni lífs míns.  Það finnst mér að minnsta kosti.  Eg ætti líklega heldur að segja að þannig sé það núna því það átti sannarlega ekki við fyrir tuttugu árum.  Alls ekki.  Núna er hún mér hins vegar mikils virði.  Hún er grundvallaratriði.  Ég er svo sem ekki neitt sérlega fróm sál vegna þess, ekki heldur sérlega góð sál.  En þetta hefur mikla þýðingu fyrir mig.  Mjög mikla.  Þett er undirstaðan.  Þetta er hinn fasti punktur tilverunnar þegar allt annað virðist vera á hverfanda hveli.

Guð blessar okkur. Amen