Upplýsingar

Prédikun Huldu Hrönn M Helgdóttur ,,Gestrisni og samstaða“ út frá texta Rómverjabréfs 12.13 í innsetningarmessu hennar til Kvennakirkjunnar í Hallgrímskirkju 18. mars 2018

Náð sé með ykkur og friður frá Guði.

Það er ánægjulegt að koma til Kvennakirkjunnar og fá að þjóna hér saman meðal skapandi kvenna sem stunda kvennaguðfræði.  Það er spennandi og skemmtilegt að iðka þau fræði saman og opna glugga fyrir straumum Heilagrar andar sem endurnýjar, lífgar og blessar.

Í dag ætla ég að tala við ykkur um gestrisni og samstöðu.  Það hefur verið sagt að þetta séu ein helstu einkenni kristins fólks.  En tímarnir breytast og mennirnir með og nú er tekist á um það hversu gestrisin við eigum að vera og hversu mikil samstaða okkar eigi að vera.

Í Biblíunni erum við hvött til að sýna gestrisni.  Í Rómverjabréfinu segir:  „Takið þátt í þörfum heilagra. Leggið stund á gestrisni.“ (Róm.12:13)

Gestrisnin hefur margar hliðar.   Hún hefur haft þrönga skilgreiningu sbr. þegar þú tekur á móti einhverjum heima hjá þér eða býður einhverjum heim til þín að borða.  En við þurfum að skilgreina gestrisni víðar,  því hún er svo mikið meira, því hún er einnig innri gestrisni, sem kemur frá hjarta þínu.  Hvernig sýnir þú þína innri gestrisni?  Ert þú t.d. gestrisin gagnvart þeim sem eiga erfitt  eða þeim sem ganga þér við hlið í daglega lífinu?

Gestrisni er vinsemd, hún er að deila hvert með öðru, og nú á dögum eigum við víst erfitt með það segja þau sem vinna í kærleiksþjónustunni:   Gestrisni er það hvernig við tengjumst hvert öðru í því samfélagi sem lifum og hrærumst í.  Gestrisni felur í sér virðingu gagnvart hvort öðru, þótt við séum ólík innbyrðis,  og viðurkenna ófullkomleika okkar sjálfra og annarra.  Gestrisni er að opna hjörtu okkar og dyr fyrir þeim sem eru í neyð en um leið að viðurkenna að við sjálf erum einnig í þörf fyrir samstöðu og von.  Gestrisni er að gefa og þiggja.“  (ályktun aðalfundar Evrópsku kærleiksþjónustunnar 2016)

Það er áhugavert að skoða Postulasöguna og lesa um hvernig samfélag trúaðra var í frumkirkjunni:  Daglega kom fólk saman með einum huga í helgidóminum,  braut brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans. (Post.2:46)  Þetta er yndislegt að heyra.  Þau deildu saman samfélagi og mat í gleði og lofgjörð.  Það er greinilegt að samstaða var meðal þeirra því einhugur ríkti hjá þeim.

Þessu samfélagi viljum við miðla, góðu og vingjarnlegu þar sem ríkir félagslyndi, glaðværð og veislugleði, með því að við tökum þátt í og gefum eitthvað til samfélagins hvert og eitt með hjálp Guðs  þar sem við styrkjum trúna, tengslin og samstöðuna.  Því frelsunin er tengd samstöðu og „til frelsis frelsaði Kristur okkur.  Standið því stöðug og látið ekki aftur leggja á ykkur ánauðarok.“ (Gal.5:1)  Frelsi kristins manns felur í sér að vera með öðrum og tengja sjálfan sig þeim því við speglum okkur í öðru fólki og erum samfélagsverur.   Við þurfum á hvert öðru að halda.

Með því að skoða andstæðuna sem er einstaklingshyggjan sem birtist nú um stundir í heiminum, þá sjáum við betur tenginguna milli frelsunar og samstöðu í kristninni.  Í „guðspjalli markaðarins“ segir að öll séu „frelsuð“ þegar þau sinni sínum eigin áhuga og hugsi um sjálf sig  og fólk er þjálfað til að eiga, stjórna og ráða á meðan í samstöðunni er náð og miskunn, þar sem við gefum af okkur sjálfum til annarra.  Í samstöðinni erum það við en í einstaklinghyggjunni ég.

Jesús hitti mikið af fólki.  Honum var umhugað um velferð þess.  Það sjáum við m.a. þegar hann mettaði mannfjöldann.  Hann var gjarnan í veislum og fögnuðum,  svo mjög að hann var kallaður mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum. (Matt.11:19)  Umtalið var samt við sig þegar færa átti einhvern niður af stalli.  Það sama á við um kristnina í dag.  Það er unnið gegn grunnþáttum hennar en við tökum varla eftir því svo samdauna erum við orðin því sem tíðarandinn boðar.  Svo mjög er hagvöxturinn lofaður, jafnvel kominn í Guða tölu að því er menn segja og samkeppnin er komin í stað miskunnarinnar.  Þetta leiðir til þess að við drögum okkur inn í skel og gerum það sem manneskjan við hliðina á okkur gerir – það er svo miklu auðveldara.  En hætt er við, þrátt fyrir alla einstaklingshyggjuna, að í fjöldanum hættum við að vera persónur, dýrmæt sköpun Guðs elskuð og virt.   Því er þörf á því sem kallað hefur verið valdefling – að við áttum okkur á mikilvægi okkar í heildinni, hversu dýrmætir einstaklingar við erum.

Hér í dag erum við að deila saman kvölmáltíðarsamfélagi.  Þetta er hið nýja sjónarhorn, að þörf sé á að fólk hittist og eigi skemmtilega stund saman í borðsamfélaginu.    Kvöldmáltíðarsamfélagið er náðarmeðal.  Þetta er lyf þar sem við læknumst fyrir náðina sem er Guðs gjöf – alveg ókeypis.   Ég vona að það sé í lagi ykkar vegna að hún sé ókeypis?  Það þarf víst allt í dag að vera á okurverði og háð samkeppni ef það á að vera í tísku.  Það dásamlega er að þú þarf ekkert að gera, ekkert að vinna fyrir náðinni, aðeins að meðtaka gjöf Guðs og leyfa læknandi áhrifum hennar að græða þig.  Já að frelsa náðina undan samkeppnisöflunum og njóta hennar saman.

Gestrisnin og samstaða er stóra málið í dag.

Samfélag, hjálpsemi, samstaða  og gestrisni er nauðsynleg.  En þau eru flókin mál í nútíma þjóðfélögum en við höfum mörg úrræði til hjálpar.  Hjartalagið skiptir máli, hugur þarf að fylgja máli.  Leggjum stund á gestrisni og samtöðu.  Við þurfum á hvekrt öðru að halda, að borða saman, að gleðjast saman og þiggja gjafir Guðs.  Já gleymum ekki gleðinni, hún lífgar dagana og gleði Guðs er styrkur okkar.

Amen.