Upplýsingar

Prédikun Arndísar G. Bernhardsdóttur Linn í Kvennakirkjunni Neskirkju í febrúar 2017

Kæru kirkjugestir

Innilega til hamingju með daginn!  Í kvöld höldum við uppá 24 ára afmæli. Í tuttugu og fjögur ár hefur Kvennakirkjan verið vettvangur kvenna (og stundum karla)  til að móta eigin guðfræði og nota hana svo hversdags og spari. Og í öll þessi ár hefur Kvennakirkjan leitast við að gefa konum tækifæri til að nálgast Guð á eigin forsendum og gefa trú sinni gildi í lífinu. Í Kvennakirkjunni höfum við talað öðruvísi um Guð, farið okkar eigin leiðir í leitinni að boðskap Jesú og uppskorið ríkulega.

Í ár er líka runnið upp mikið afmælisár í Lúhersku kirkjunni. Þess er minnst að 500 ár eru liðin frá því Marteinn Lúther, guðfræðiprófessor og munkur í þýskalandi hengdi táknrænt skjal á dyr kirkjunnar í Wittenberg.  Í 95 greinum setti hann fram kenningar sínar um kristna trú og leiðir til að endurbæta hana. Kveikjan að þeim var sá  gjörningur sem var orðinn vinsæll innan kirkjunnar, að selja syndaaflausnir, að selja fyrirgefninu. Lúther ofbauð – það er ekkert flóknara en það – og hann gat ekki setið aðgerðarlaus þegar embætti Páfa og yfirstjórnar kirkjunnar misbuðu almenningi sem í ótta sínum við Guð reiddi fram kynstrin öll af peningum til að bjarga sálum sínum og ættingja sinna. Með þessum gjörningi sínum kom Lúther af stað mótmælendahreyfingu innan kaþólksu kirkjunnar  sem síðar varð að okkar kirkjudeild, evangelísk lúthersku kirkjunni.

Um margt minnir þessi vegferð Marteins á vegferð Jesú Krists. Jesú misbauð hræsni og valdnýðsla kirkjulegra leiðtoga síns tíma og hristi hressilega upp í hugmyndum samtíma síns um Guð. Hann talaði öðruvísi um Guð og notaði dæmisögur og hugtök sem voru á skjön við það sem tíðkaðist innan gyðingdómsins. Að lokum fór svo að gyðingdómurinn klofnaði, ef við getum sagt sem svo og kirkja Jesú Krists á jörðu varð til.

Ég held í raun að Lúther hafi ekki ætlað að kljúfa kirkjuna heldur aðeins bæta hana. Ég held að Lúther hefði tekið því fegins hendi ef Páfi hefði yðrast gjörða sinna og snúið af þeirri röngu leið sem hann hafði valdið sér. En það gerði Páfi ekki – heldur bannfærði hann Lúther.

Fyrir mér hefur femínísk guðfræði – kvennaguðfræði síðustu áratuga líka gengt veigamiklu siðbótarhlutverki innan kirkjudeilda heimsins. Þeim sem fóru að skrifa femíníska guðfræði misbauð karlæg og úrelt hugmyndafræði kristnidómsins og gagnrýndu harðlega svo margt sem áður hafið verið talið sjálfsagt.   Femínísk guðfræði tók til við alsherjar endurskoðun og gagnrýni á öllu sem tengdist trú, trúararfinum, kenningum, túlkunum og biblíuútleggingum. Og í þeim ranni var nóg af hlutum til að gagnrýna.

Það sem þau öll sem hrundu af stað siðbót og endurskoðun áttu sameiginlegt var hugrekki, hugrekki sem þau fengu frá trú sinni.  Þau  gátu ekki setið hljóð hjá á meðan hefðir og siðir og túlkun kirkjunnar fóru að snúast um hégómagirnd og valdabrölt mannfólksins en ekki Guð.

Jesús færði fólkinu föður sinn, Guð sem var með þeim og þótt vænt um þau og hann kenndi fólkinu að biðja beint til Guðs án allra málalenginga. Hann ruddi burt öllum milliliðunum sama hvað nafni þeir nefndust. Það þurfti hugrekki til að kalla Guð faðir.

Lúther færði fólkinu trúna á sínu eigin tungumáli. Í helgihaldinu vék latínan fyrir þýsku og Biblían varð aðgengileg á tungumáli sem fólkið skyldi. Allt snérist þetta um að gera Guð og trú aðgengilega fyrir alla í samfélaginu. Fyrir Lúther var Guð ekki hátt upphafinn og refsigjarn heldur vildi Guð færa fólkinu náð sína og miskunn. Það þurfti hugrekki til að andmæla Páfa.

Kvennaguðfræðin endurskoðaði svo allan trúarafrinn eins og hann lagði sig og færði trúarsamfélaginu nýjar og skiljanlegar leiðir til að rækta trú sína. Þetta gerði frelsunarguðfræðin líka – færði ákveðnum hópum sem traðkað hafði verið á í nafni trúarinnar mannvirðingu og kærleika trúarinnar.

Og talandi um Kjark – ætli það sé ekki öllum ljóst að Það þurfti í upphafi heilan helling af kjarki til að kalla háæruverðugan, heilagan, hátt upphafinn og almáttugan Guð vinkonu sína.

Marteinn Lúther sagði að Allt líf hins kristna manns væri stöðug endurskoðun, stöðug siðbót. Fyrir mér er tilvist og hlutverk Kvennakirkjunnar órjúfanlegur hluti af sibót. Elífri siðbóta kirkjunnar. Í helgihaldinu og í námskeiðum okkar í Kvennakikjunni finnum við stöðugt nýjar leiðir til að tala við Guð vinkonu okkar, til að deila reynslu okkar af hvernig við finnum kraft hennar í amrstri dagana og hvernig við getum óhræddar lagt allt sem á okkur hvílir í hendur hennar.

Og það þarf ennþá kjark til að gera hlutina á þann hátt sem við gerum, ekki gleyma því.

En með aðstoð Guð vinkonu okkar sem gefur okkur mátt og mildi til að takast á við lífið og finna gleðina í hversdeginum eru okkur allir vegir færir. Það er kjarni gleðiboðskaparins sem Guð færir okkur. Og Það eru svo sannarlega forréttindi. Takkkk elsku Guð fyrir að vera vinkona okkar. – og innilega til hamingju með afmælið okkar ! Amen !