Upplýsingar

Prédikun í Jólaguðþjónustu Kvennakirkjunnar 25. desember 2017 í Háteigskirkju. Sr. Arndís Linn prédikaði

Biðjum saman:

Ljúfi Jesús lýstu mér
svo lífsins veg ég finni
láttu ætíð ljósið frá þér
ljóma í sálum minni.

Amen

Ljós aðventunnar hafa smátt og smátt sprottið fram, úr endalausu myrkri síðustu vikurnar. Eitt og eitt hafa þau kviknað,  marglitu og glitrandi rafmagnsljósin sem ryðja burt þéttasta skammdeginu.  Smátt og smátt höfum við líka kveikt kertin á aðventukrönsunum okkar, sem á mörgum heimilum skipa stóran sess í undirbúningi og aðdraganda jólanna. Eftir því sem ljósunum fjölgar virðist vetrarmyrkrið hörfa og tilveran, verður örlítið bjartari.

En jólaljósin eru ekki einungis vanmáttug tilraun til að lýsa upp svartasta skammdegið. Þau eru tákn um hátíð ljóss og friðar.

Þau vísa til einhvers sem er meira og máttugra en allt það sem við fáum skilið í þessum heimi. Þau vísa til þess sem við heyrðum hér í Jóhannesarguðspjalli áðan, :

Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki.

Hið sanna ljós sem guðspjallið talar um er Jesú, jólabarnið frá Betlehem, sem síðar í sama guðspjalli sagði um sjálfan sig ,,Ég er ljós heimsins“

Fyrir nokkrum árum starfaði ég í barnastarfi hér í  Lágafellskirkju og við kenndum yngstu börnunum að segja þessa tilvitnun úr Biblíunni með höndunum.  ,, Jesús sagði , Ég er ljós heimsins“  Stundum bættum við við og og kenndi nú börnunum að halda áfram og segja ,,Og við getum verið ljós fyrir Jesú

Og börnin voru áhugasöm: ,,Hvernig ljós“ spurðu þau í einlægni? Hvernig get ég lýst fyrir jólabarnið? Þau réttu upp höndina eitt af öðru og vildu öll leggja sitt af mörkum til að lýsa fyrir litla barnið í jötunni.

Já hvað táknar þetta ljós sem er  grundvöllurinn að boðskap jólanna? Hvað er það í boðskapum  sem fær okkur til að horfa á lífið í sínu víðasta samhengi, til að vekja með okkur samkennd og hvetur okkur til að koma auga á hin raunverulegu gildi í lífinu? Hvað er það í boðskap jólanna sem er svo mikilvægt að við getum alls ekki án þess verið?

Kjarni þess sem fagnaðarerindi jólanna boðar okkur er  kærleikur og von.

Öll þekkjum við kærleikann og áhrif hans,  og getum bent á hann í sinni tærustu mynd.  Ástfangið fólk, nýbakaður faðir sem heldur á frumburði sínum, dóttir sem hjúkrar aldraðri móður sinni, kærleikur milli vina og innan fjölskyldu. Kærleikurinn er kröftugur, stundum nánast áþreifanlegur og fær miklu áorkað. Hann er drifkrafturinn sem fær ýmis félagasamtök til að taka virkan þátt í að bæta samfélagið og láta gott af sér leiða. Hann er aflið sem knýr Íslendinga til að standa sama og leggja góðum málefnum lið þegar náttúruhamfarir hafa látið til sín taka eða þegar safna þarf fyrir þá sem minna mega sín.

En kærleikurinn er ekki bara þar sem hann geislar og tindrar, í stóru og mikilvægu stundunum í lífi okkar, hann er svo miklu víðar í samskiptum okkar. Í svo mörgu smáu sem við komum aldrei orðum að.

Í feimislegu brosi, vingjarnlegu viðmóti,  tryggð, trausti og umburðarlyndi. Ef til vill tökum við kærleikanum og verkunum sem af honum spretta  oft eins og sjálfsögðum hlut. Við gleymum að gefa okkur tíma til að meta og vega það góða sem að okkur er rétt frá degi til dag. Og í amstri hversdagsins  getur okkur líka reynst erfitt að muna, að kærleikurinn öfundar hvorki né reiðist,  er hvorki langrækinn né raupsamur eins og einn fallegasti texti Biblíunnar minnir okkur á.

En við megum aldrei gleyma að án gæskunnar, án kærleikans, án ljóssins sem hrekur burt andlega skugga, getum við ekki lifað.

Máttur kærleikans verður okkur hvergi ljósari en þegar ástvinir okkar hverfa á braut. Þegar sjálfan dauðann bera að garði er það kærleikurinn sem varð til manna á milli sem stendur eftir og lifir með minningunum að eilífu.

En ljósi heimsins og boðskap jólanna fylgir ekki bara kærleikur heldur einnig von.

VON

þetta litla, þriggja stafa orð virðist við fyrstu sýn ekki voldugt.  En þannig er vonin. Hún er hljóð, lætur lítið yfir sér og margir veita henni litla athygli, jafnvel þótt hún sé mjög máttug.

Af og til heyrast reyndar þær raddir að von sé í raun og veru afneitun.

Að sá sem hafi von sé einfaldlega að láta eins og hlutirnir séu betri en þeir eru í raun og veru. En vonin snýst hvorki um að loka augunum fyrir erfiðleikum né um að slá ryki í augu sjálfs sín eða samferðafólks. Vonin er tilfinning sem verður til þegar við sættum okkur við aðstæðurnar sem við erum í, og höfum kjark og þor til að horfa fram á veginn, til framtíðar sem getur orðið betri. Til framtíðar í trú sem verður betri.

Ef við skoðum okkar eigið líf og þá reynslu sem við höfum öðlast eigum við væntanlega öll minningar um von, jafnvel veika von sem varð að veruleika.

Eitthvað sem hefur blessast betur en nokkur þorði að vona. Ástvini sem hafa veikst og náð bata. Einstaklinga sem hafa lent í óyfirstíganlegum erfiðleikum en samt sem áður náð að sigrast á þeim.

Kannski eigum við minningu um líf sem á undraverðan hátt var bjargað eða jafnvel minningu um von sem breyttist og varð að sterkri von um að lífið haldi áfram eftirdauðann.

Já vonin er okkur mikilvæg og því er við hæfi að skoða hina ævafornu frásögn guðspjallanna um fæðingu og líf Jesú Krist frá öðru sjónarhorni.

Þrátt fyrir alla dýrðina sem sagan hefur sveipast gegnum árhundruðin var hún  í upphafi ekki saga dýrðar, heldur miklu frekar saga um von í vonlitlum aðstæðum.

Það var sannast sagna vonlítið að fæðast í fjárhúsi. Það var vonlítið að fara gegn ríkjandi trúarháttum samtímans á þann hátt sem Jesús gerði.

Það var lítil von í að vera hæddur, hengdur á kross og tekin af lífi.

En  með lífi sínu og dauða flutti Jesús okkur von í  fyrirheitum trúarinnar. Trúin er von,  Það er von í upprisunni og á þá von leggjum við leynt og ljóst traust okkar, á von sem nær út fyrir líf og dauða.

Jólaljósin í umhverfi okkar í öllum sínum fjölbreytileika, hvort sem þau nú eru rafmögnuð eða lifandi hafa slegið tóninn. Nú er tími ljóss og friðar, tími  kærleika og vonar.

Það er okkar að miðla von og kærleika  ljóssins til þeirra sem standa okkur næst.

það er okkar að bera ljós til fólksins í kringum okkur, að lýsa fyrir Jesú með brosi, gleði, vinsemd og vináttu, ekki bara sumstaðar heldur alls staðar.

Hjálpumst að við að bægja andlegu og veraldlegu myrki frá, hrekja burt skuggana og lifa í samræmi við boðskap jólanna. Munum eftir orðum Jesú sem sagði „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins“

Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól!