Upplýsingar

Við höldum áfram að óska hver annarri til hamingju með afmælið. Kvennakirkjan er tólf ára og þess vegna lásum við textann um það þegar Jesús var tólf ára í musterinu. Hann sagði foreldrum sínum að hann ætti að vera í húsi Guðs, og orðin geymdu það í sér að hans biði sérstakt hlutverk sem biði hans eins. Við eigum líka að vera í húsi Guðs.
Við höfum líka sérstakt hlutverk. En það er ekki einstakt fyrir okkur aleinar, eins og það var einstakt fyrir hann að verða frelsari heimsins, hann einn, hann sem var Guð sem kom. Við eigum hlutverk okkar með allri kirkjunni sem Jesús stofnaði og hefur annast alltaf síðan, hughreyst og leiðrétt og hvatt til að standa vörð um sannleikann, frelsið og gleðina. En við eigum það samt sérstaklega með öllum hópum kirkjunnar, fyrr og síðar, sem hafa staðið vörð um frelsi og gleði kvenna bæði hversdags og spari, eins og Jesús talaði um og breytti allri stöðu okkar. Jesús stofnaði kvennakirkjuna og alla kvennahreyfinguna. Og við sem skrifum og lifum kvennaguðfræði höfum það sérstaka hlutverk, mitt í margvíslegum viðfangsefnum og misjöfnum frá einni okkar til annarrar.

Við skulum rifja það upp á tólf ára afmælinu hvaða hlutverk Kvennakirkjan okkar hefur. Hvað finnst þér?

Nú ætla ég að segja hvað mér finnst. Og biðja þig að hugleiða hvort þú ert mér sammála. Því það skiptir svo miklu. Það skiptir alltaf svo miklu að við tölum saman og uppörvun hver aðra til að móta stefnur, finna leiðir og njóta göngunnar. Við höfum gert það í tólf ár. Þess vegna höfum við gert allt sem við höfum gert í gleði og friði Guðs.

Ég tel að við getum orðað hlutverk okkar með þremur setningum.

Í fyrsta lagi urðum við til og erum til af því að þú ert til. Og af því að við erum allar til. Við erum til til þess að gæta hver annarrar. Og gleðja hver aðra. Til þess að hver einast okkar geti komið og vitað að hún á þessa Kvennakirkju. Hún getur komið í messurnar og á námskeiðin og bænastundirnar og ferðirnar og til alls sem við gerum og fundið ró í erli og umsvifum daganna. Við verðum að eiga vinjar, fallega, góða staði til að hvíla okkur, létta af okkur byrðunum og fá nýjan kraft. Og nýjan frið. Og nýja gleði. Himinhrópandi gleði. Og þótt þetta sé allt nýtt er það samt sami krafturinn, friðurinn og gleðin sem við höfum fundið ótal sinnum áður. Það er frá Guði, sem gefur okkur þetta allt aftur og aftur og aftur. Við viljum að Kvennakirkjan sé einn af þessum stöðum í lífi okkar allra.

Í öðru lagi höfum við það hlutverk að móta saman þennan góða stað þar sem við hittumst. Móta saman Kvennakirkjuna. Móta það hvað hún segir og hvernig hún vinnur. Það leiðist hönd í hönd þetta tvennt, hvernig okkur líður hérna og hvað við erum að segja hver annarri. Við urðum til og erum til til þess að skrifa og lifa kvennaguðfræði.

Kvennaguðfræði er margs konar. Hún er til í öðrum trúarbrögðum. Hún er til í öllum heimshlutum kristinnar kirkju. Kristnir kvennaguðfræðingar segja allt mögulegt sem aðrar eru ósammála. Allt þetta gefur allri kvennaguðfræðinni meiri styrk og liti.

Við í Kvennakirkjunni berum fram ýmsa skoðanir sem við höfum ýmislegt álit á. Við fengum mismunandi trúaruppeldi og höfum eignast mismuandi lífsreynslu og höfum mismunandi skapgerð. En við rúmumst hér allar. Ég, eins og þið líka, hitti oft fólk sem spyr mig um Kvennakirkjuna. Um daginn sagði ég við mann á Laugaveginum að við værum margvíslegar en við værum kristnar og flestar okkar væru í þjóðkirkjunni. Samt þyrftum við alls ekki að vera í þjóðkirkjunni og ef konur sem væru í öðrum kristnum kirkjum vildu vera með okkur myndum við bjóða þær velkomnar. Ef konur sem væru búddatrúar vildu vera með okkur væru þær velkomnar. En við byggðum eftir sem áður trú okkar og allt starf okkar á kristinni kvennaguðfræði sem talar um frelsi okkar bæði heima og heiman og á rót sína í því sem Jesús sagði og því sem hann er í trú okkar á hverjum degi lífs okkar. Seinna um daginn hitti ég konu sem spurði líka, og ég sagði það sama, og hún sagði: Já, ég er búddisti. Og ég hugleiddi það þegar við skildumst hvernig henni myndi líða í samveru okkar. Ég vona að henni liði vel.

Hver finnst þér vera grundvallaratriði kristinnar trúar? Kristin kirkja, hvenær sem hún vinnur starf sitt í veraldarsögunni, og hvar sem hún er, er hluti af allri kirkjunni, fyrr og síðar. Við erum það líka. Við höfum það hlutverk að mótmæla kvenfyrirlitningunni sem kirkjan boðaði, alveg frá ýmsu í boðskap Gamla testamentisins og til þessa sunnudags. En við erum hluti af þessari kirkju. Við megum fagna yfir boðskap hennar sem flutti og boðar okkur miklu oftar styrk og gleði en fjötra og sorg. Og við gleðjumst yfir öllum hreyfingum og einstaklingum í kirkjunni sem boða konum frelsi og frið. Það skiptir okkur svo óendanlega miklu. Það er undursamlegt hlutverk okkar að lifa og boða frelsi allra kvenna, sem boðar líka frelsi allra manna og allra barna.

En hver eru grundvallaratriði kristinnar trúar sem hvetur til þessa boðskapar og gerir hann mögulegan? Kirkjan bærist til og frá í straumi aldanna og líka á þessari nýju öld. Kristin trú á fyrr og síðar mátt sinn, möguleika og gleði í þessum grundvallaratriðum. Við getum haft ýmsar skoðanir um ýmislegt, en það er tilgreindur sannleikur sem við getum ekki haft misjafnar skoðanir á. Það er tilgreindur sannleikur sem er dýpri og hærri en persónulegar skoðanir okkar allra. Það er sannleikurinn sem ber uppi kvennabaráttuna og alla góða baráttu, allan sannleika, allan frið og gleði.

Ég tel að þessi grundvallaratriði séu þau sem eru orðuð í postullegu trúarjátningunni sem er farið með við skírnina og í öllum sunnudags guðþjónustum þjóðkirkjunnar. Hún er frá því um 200 og hún segir það sem söfnuðirnir vildu segja um nýja trú sína, það að hún væri trú á Guð sem skapar, frelsar og er alltaf hjá okkur.

Við orðum þessa trúarjátningu í öllum messum okkar, á margvíslegan hátt. Við trúum á Guð sem skapaði heiminn og skapar með okkur hvern dag og kallar okkur til að skapa með sér. Við trúum á Jesúm sem frelsar heiminn dag eftir dag mitt í ógnum hans og mun að lokum frelsa hann frá öllu illu og skapa nýjan heim þar sem ekkert illt er til. Á Jesúm sem er hjá okkur í lífinu og tekur á móti okkur í dauðanum. Við trúum á heilagan anda sem vekur okkur með kossi á hverjum morgni og er hjá okkur til næsta morguns og vekur okkur þá með nýjum kossi.

Ég tala um Guð sem vinkonu okkar. Og mér finnst það skipta öllu. Það er pólítísk yfirlýsing um Guð í okkar hópi. Og það er játning um vináttu hennar. Mér finnst þetta meðal höfuð málum kvennaguðfræðinnar. Sumum okkar finnst það ekki. Og það er allt í lagi. Ég held áfram að tala um Guð sem vinkonu okkar, sumar okkar gera það líka, en aðrar okkar alls ekki. Engin okkar er að loka Guð inni í orðunum sem við veljum. Við vitum allar að Guð er miklu meiri en hugmyndir okkar. Við vitum að Biblían lýsir Guði með mörgum, mörgum orðum. Hún er hönd og bjarg og eldur, vinkona og vinur og móðir og faðir. En heimurinn er í hennar höndum, hún skapar, frelsar og framkvæmir og elskar.

Einu sinni kom ein af fremstu kvennaguðfræðingum lútersku kirkjunnar í heimsókn til okkar fyrstu kvenprestanna. Hún heitir Musimbi Kanyora og var forstöðukona Kvennavettvangs Lúterska heimssambandsins í Genf. Hún kenndi okkur lag frá Afríku. Og ég ætla að kenna okkur það og bjó til einfaldan texta sem við þurfum ekki að hafa blöð til að syngja. Hann er um boðskapinn sem við flytjum hver annarri, í kvennaguðfræðinni sem við skrifum saman, til að koma saman um í messunum og eiga og nota í dögum okkar.

Hann er svona: Ég er falleg, ég er falleg, ég er falleg, ég er flott.

Og ég er…..

Ég er fyndin, ég er fyndin, ég er fyndin, ég er flott.

Og ég er…..

Ég er með Guði, ég er með Guði, ég er með Guði

og henni finnst ég flott.

Þetta er ekki stórmikið ljóð. Og þetta er ekki mont og sjálfumgleði. Það er langt frá því. Þetta er trúarjátning. Játning um vináttu Guðs sem gerir okkur fallegr og fyndnar og góðar manneskjur. Það er hún sem gerir okkur að þeim flottu manneskjum sem við erum.

Og þegar við finnum hvað við erum flottar verðum við öðrum góðar. Og nú skulum við syngja.

Nú hef ég stungið upp á tveimur atriðum sem við getum talið upp sem einkenni Kvennakirkjunnar. Þau eru að vera hver annarri uppörvun og að móta saman þá kvennaguðfræði sem við notum til þess. Þriðja atriðið er að hafa áhrif á kirkjuna í kringum okkur og þjóðfélagið sem við búum í. Við höfum gert það. Við höfum haft áhrif með messum okkar og með guðfræði okkar. Með frelsisboðskap okkar sem birtist meðal annars í því að hvetja alla kirkjuna til að tala mál beggja kynja. Mig langar til þess að við tölum meira um þetta seinna. Í kvöld finnst mér nóg að segja að þetta helst líka hönd í hönd við hin tvö fyrri atriðin sem líka halda þéttingsfast í hendur. Ein af leiðunum, og ein hin allra besta, er nefnilega sú að við uppörvum hver aðra svo að hver okkar hafi áhrif á sínum stað, heima og heiman. Við höfum allar áhrif þar sem við erum. Við veljum sjálfar hvernig við förum að því. Og það er undursamlegt að eiga frelsið til þess.

Styrkjum hver aðra til að vera þær sem við erum og viljum vera og getum verið og halda áfram að njóta þess. Styrkum hver aðra, í kvöld eins og alltaf, til að njóta kristinnar trúar okkar, nota kvennaguðfræði okkar, og standa með Guði sem alltaf stendur með okkur. Guð blessar okkur.

Amen.