Upplýsingar

Við höfum heyrt sögu páskavikunnar. Um alla þessa miklu atburði sem gerðust. Um fólkið og frelsarann, það sem hann gerði og það sem það gerði. Hann ákvað að ganga á hólm við dauðann sem birtist í öllu lífinu. Og fólkið ákvað að gera ýmislegt. Þau sem elskuðu hann og vissu að hann var Guð sem var kominn til þeirra gátu ómögulega skilið hvað hann var að gera. Þau sem höfðu ekki hugmynd um það hver hann væri gerðu hitt og þetta eftir því hvaða dagur var og hvaða áróður lá í loftinu. Á pálmasunnudag vildu þau fá hann sem foringja en fjórum dögum seinna vildu þau krossfesta hann. Foringjar þjóðarinnar vildu losna við hann og Rómverjinn Pílatus sem átti að halda uppi rómversku réttlæti þorði það ekki en baðst persónulegri ábyrgð. Konan hans bað hann að standa með Jesú, en hann hlustaði ekki á hana.
Við sjáum sjálfar okkur í þessu öllu. Við tökum líka ýmsar ákvarðanir og hlustum á ýmsan áróður og þekkjum ekki sannleikann þótt við heyrum hann. Ekki alltaf en stundum. Stundum hlustum við rétt og hugsum rétt og segjum rétt og gerum það sem við sjáum líka seinna að var rétt. En stundum gerum við eitthvað sem okkur finnst vera rétt en finnst svo seinna að hafi verið rangt. Og stundum var það líklega rangt. En stundum var það næstum áreiðanlega rétt. Og við mættum sem best fagna og gleðjast yfir því. En við gerum það ekki allta, stundum höldum við áfram að hafa samviskubit og ásaka sjálfar okkur og aðrar manneskjur og gera lífið óþarflega þungbært.

Eða hvað finnst þér? Er þetta ekki bara einhvern veginn svona? Þetta merkilega líf sem við eigum sjálfar svo undursamlegan skerf af, og byrjar upp á nýtt á hverjum einasta morgni með nýjum tækifærum?

Við ætlum í kvöld að spegla okkar líf í atburðum páskavikunnar. Við ætlum að segja hver annarri að þjáning páskavikunnar en líka þjáning okkar. Það er sagt núna að páskavikan sé óþolandi. Og föstudagurinn langi alveg fullkomlega óþolandi af því að þá má ekkert gera. En kirkjan heldur áfram að biðja okkur að taka páskavikunni sem blíðu tækifæri til að huga að okkur sjálfum. Við skulum horfast í augu við það að þjáning páskavikunnar er þjáning okkar eigin lífs sem birtist okkur á ýmsum dögum okkar, sumar, vetur, vor og haust.

Hugsum um það eitt augnablik hvað okkur finnst hverri um sig um okkar eigin þjáningu. Hvað er það sem íþyngir þér? Hvað er það sem þú vildir geta losnað við eða betrumbætt í lífi þínu?

Við ætlum í kvöld að hvetja hver aðra til að setjast ekki að í vanlíðan okkar heldur standa upp og ganga út úr henni. Það er þess vegna sem við viljum nú sauma mjúklega hver að annarri og biðja hinar að huga að því hvað þær hugsa um lífið. Því það er ekki öðru vísi sem við getum séð hvað er vont og hvað er gott og stigið út úr vanlíðan okkar. Hvað er gott? Og hvað er vont?

Og hvers vegna er alltaf eitthvað vont? Hvers vegna getum við ekki bara tekið réttar ákvarðanir, verið góðar við sjálfar okkur og aðrar manneskjur, séð um að það séu engin stríð og fólk sé ekki fátækt og að það sé hugsað vel um veikt fólk og settir peningar í rannsóknir á sjúkdómum? Og hvers vegna eru sjúkdómar yfirleitt til?

Hvers vegna sígum við alltaf aftur niður á við þótt stundum sé allt svo gott? Veistu það? Ég ætla bara að segja okkur það í kvöld. Af því að ég veit það. Ertu tilbúin að heyra það?

Nú segi ég það. Við vitum ekki hvers vegna þetta er svona. Við höfum ekki hugmynd um það.

Fannst þér þetta heldur lítilfjörlegt svar? Ekki finnst mér það. Og ég legg blíðlega að þér að láta þér finnast það merkilegt. Af því að það er einfaldlega satt og af því að sannleikurinn frelsar okkur. Jesús sagði það. Hann sagði að sannleikurinn gerði okkur frjálsar. Og þegar við horfumst í augu við það að við vitum ekki hvers vegna sjúkdómar og stríð geysa og hvers vegna við hugsum óskiljanlegar hugsanir, og tökum rangar ákvarðanir, og burðumst með samviskubit yfir því sem við þurfum ekki að kenna okkur né öðrum um, þegar við horfumst í augu við að þetta er bara svona, þá höfum við gott svar í höndum okkar. Og við eignumst frelsi til að hætta að ásaka sjálfar okkur og aðrar manneskjur yfir því sem hvorki þær né við ráðum ekki við. Og þá getum við snúið okkur frá ráðaleysi okkar og að ráðunum sem páskavikan og páskarnir bjóða okkur.

Það er stórkostlegt tilboð. Það er tilboðið um að setjast ekki að í vanlíðan okkar heldur standa upp og ganga út úr henni. Til þess að komast undan því að setjast að í vanlíðan okkar þurfum við að sjá að okkur líður stundum illa og stilla okkur um að láta sem ekkert sé. Við megum gefa okkur þá miklu gjöf að hafa það í huga að engin manneskja í öllum heiminum kemst hjá margs konar vanlíðan. Fólk páskavikunnar komst ekki hjá henni. Jesús komst ekki hjá henni sjálfur. Það getur allt gerst í lífi okkar og allra annarra. Sjúkdómar og sorg, slys og mistök og árekstrar og særindi. Allar manneskjur óttast þetta allt. Við getum ekki komist hjá því að óttast líka.

Jesús sagði aldrei að líf okkar myndi verða sársaukalaust. Hann sagðist vera kominn til að gefa okkur frið, en hann sagði líka að hann myndi færa okkur baráttu og að sú barátta myndi særa okkur eins og hún særði hann. En mitt í þessu öllum gæfi hann okkur frið, sinn eigin frið sem Biblían segir að sé æðri öllum skilningi. Því eins og við skiljum ekki alltaf vanlíðan okkar skiljum við heldur ekki alltaf vellíðan okkar. Hún kemur stundum bara af sjálfu sér.

Ég er samt ekki að segja að öll vanlíðan okkar og öll vellíðan okkar komi bara af sjálfu sér og við vitum aldrei hvers vegna. Við vitum oft hvers vegna okkur líður illa og hvers vegna okkur líður vel. Og við gerum ýmislegt sjálfar sem veldur okkur vanlíðan og líka margt sem gefur okkur vellíðan. Og eins og það er stórkostlegt svar að vita að við höfum ekki hugmynd um hvers vegna sorgin og stríðin og sársaukinn viðgangast í heiminum og hvers vegna bakteríur og vírusar fá að dafna í ríki Guðs, eins er það stórkostlegt að vita að við vitum oft hvað við hugsum og getum haft undursamleg og góð áhrif á það. Við getum tekið sjálfar okkur og hver aðra að okkur og hjálpast að við að gera lífið betra. Við getum ekki gert það að algóðu lífi, en við getum sagt hver annarri að það sé hluti af lífinu að ganga gegnum dimmuna og að við komumst alltaf aftur út í sólskinið. Og að fæst sem við óttumst að geti gerst í lífi okkar mun gerast. Fæst sem við óttumst gerist. Flest hefur tilhneigingu til að fara heldur vel. Það er ekki bara hugsanlegt, það er áreiðanlegt.

Svar páskavikunnar og páskamorgunsins er þetta: Það koma alltaf páskar eftir föstudaginn langa. Það verður alltaf upprisa eftir erfiðleikana í lífi okkar. Það er af því að Jesús kom og lifði lífinu við sömu hörmungarnar og við og sigraði það sem veldur þeim. Hann sigraði dauðann, hvar sem hann birtist í dögunum og okkar eigin hugsunum og þegar hann birtist við endi lífsins. Og þess vegna gefur hann okkur upprisu í huga okkar og lætur sólina skína aftur í hjarta okkar.

Hvað segirðu um þetta? Það er þetta sem við hjálpum hver annarri til að nota það í öllu lífi okkar, í páskavikunni og á páskunum og alla daga.

Vinkona okkar Svanhildur Blöndal prédikaði í síðustu messu um gleðina yfir því að kunna að gleðjsast. Þessi prédikun er framhald af því sem hún sagði. Ég setti prédikunina hennar í tvo kassa, vanlíðanina og vellíðanina. Og við ætluðum að spyrja í kvöld hvernig við kæmumst upp úr vanlíðanarkassanum yfir í vellíðanarkassann.

Þegar við lítum til baka sjáum við að þegar við stóðum í vanlíðanarkassanum áttum við samt margs konar vellíðan. Við áttum þrátt fyrir allt gleði trúar okkar þótt við fyndum það ekki alltaf fyrr en á eftir. Og þegar við komumst upp úr vanlíðan okkar tökum við ýmislegt af henni með okkur. Það verður bara að hafa það. Og það er vellíðan okkar að vita það, horfast í augu við það og þora það. Við stígum út úr vanlíðan okkar með fullri vissu um að hún kemur kannski aftur eins og hún er núna, eða hún kemur einhvern veginn öðru vísi. En líka með vissuna um það að mitt í vanlíðaninni eigum við samt mikið af vellíðan.

Jesús talaði um krossinn sem biði hans og hann sagði að við skyldum líka taka okkar kross og bera hann. Ég held að það þýði að við skulum taka það á okkur að vera við sjálfar. Og það þýðir að við skulum taka það á okkur að þora að bera allar tilfinningar okkar, góðar og vondar og læra að umgangast þær.

Hann sagði að við skyldum taka á okkur ok sitt. Okið var herðatré fyrir byrðarnar, konurnar og mennirnir sem voru vatnsberar í Reykjavík notuðu ok til að halda vatnsfötunum frá sér svo þær þvældust ekki fyrir fótum þeirra og vatnið skvettist á þau. Og til að föturnar yrðu léttari.

Hann sagði að allt þetta sem við vitum að íþyngir okkur og hitt sem við finnum til en vitum ekki hvað er væri fyrirgefið. Hann hefði fyrirgefið okkur allt, líka það að geta ekki fyrirgefið sjálfum okkur.

Hann sagði að við mættum fyrirgefa sjálfum okkur. Allt af því að hann dó fyrir okkur og gaf okkur fyrirgefninguna. Við getum stigið úr vanlíðan okkar til vellíðanar með því að segja okkur þetta allt og gera þetta að lífssýn okkar sem við notum á hverjum degi. Og með því að gera ýmislegt til að láta okkur líða vel. Hvað sem það er. Hafa heldur meira skipulag eða heldur minna, tala heldur meira við fólk eða minna eða bara eins og það er og njóta þess og gleðjast yfir því.

Það eru oft föstudagar í dögunum. En það eru líka oft páskar. En í rauninni er það svo að páskarnir eru í öllum dögunum, hvort sem við finnum það eða ekki. Af því að í kristinni trú okkar, trúnni á Guð vinkonu okkar sem gaf okkur lífið og gefur okkur nýtt frelsi aftur og aftur og er alltaf hjá okkur, í þessarri trú eigum við eilífa fyrirgefningu og lokasigur yfir öllu mótlæti. Guð blessi þig Amen.