Upplýsingar

Við skulum biðja: Guð minn og Guð þinn: Kenndu okkur að leita til þín í sorgum okkar og í gleði okkar. Hjálpaðu okkur að taka ávallt skref í þá átt að verða betri manneskjur. Kristur; gefðu að við munum boðskapinn sem þú færðir okkur; að elska hvert annað, að dæma ekki, að óttast ekki. Amen.
Kæru vinkonur og vinir. Gamall maður sem átt hafði í langri og strangri veikindabaráttu, sagði við mig fyrir skömmu. Væna mín, mundu mig um það, er þú verður prestur, að tileinka þér ekki væmni í orðum og atferli. Eitthvað fannst þessum aldna heiðursmanni að væri um það, að prestar kæmu sér upp slíku viðmóti. Ég, sem vil vera töff, lofaði að passa upp á þetta. Þegar ég var að semja þessa prédikun, leituðu þessi orð á mig. Afhverju? Er eitthvað í okkur sem finnst það vera væmið sem er okkur mikils virði og sem okkur finnst gott og yndislegt. Ég held að það eigi stundum við mig. Mig langar að tala um trú í kvöld og ætla þá bara að vera svolítið væmin. En ég held samt að það sé þannig, að ef talað er í einlægni og frá hjartanu verði það ekki þannig. Og ég ætla að tala frá hjartanu. Trúin hefur breytt svo miklu í mínu lífi. Í sorgum og áföllum get ég í dag leitað í hana og fundið huggun. Huggun og þar af leiðandi styrk sem ég vissi ekki um áður. Þessi uppgötvun verður til þess að það kviknar löngun til að verða þess megnug að hjálpa öðrum til að finna þetta líka. Fyrir nokkrum árum átti ég ekki trú. Í dag á ég hana og það hefur verið æfintýri lífs míns að fá trú á Guð, trú á Jesús. Ég ætla að reyna að segja ykkur afhverju.

Í Matteusarguðspjalli fer Jesús með hin voldugu orð sem skrifuð standa í 5Mósebók. „Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum“. Þar með er hann að segja fólkinu hvert sé hið æðsta boðorð – Þú skalt elska! Það er kærleikurinn sem er æðstur alls. Og þetta er það sem Jesús flutti til okkar, hann gaf okkur fordæmi og fyrirmynd því allt líf hans var fylgd við þetta boðorð. Hann lifði Guði í anda og sannleika. Og það er einnig boðað hverri manneskju hér á jörð og á öllum tímum. Elskaðu Guð þinn á himnum sem gaf þér lífið og elskaði þig að fyrra bragði. Gefðu Guði kærleik þinn sem andsvar við kærleik hans eins ljúflega og blómin opnast fyrir sólinni. En Jesú lætur ekki hér staðar numið. Hann deildi við faríseana um hvað væri hið æðsta boðorð og það hafði verið hulið fyrir þeim að það var til beint framhald á hinu æðsta boði. Þetta var aðeins helmingurinn. Jesús bendir á annan stað í ritningunum sem beint framhald. Það sækir hann í 3M. „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfa/n þig“. Hann hafði einnig sagt þeim það í Fjallræðunni. „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir“.

Þetta var svar Jesú, þetta var hið tvíþætta lögmál lífsins, hið fullkomna lögmál. Aðeins þetta „Elska skaltu“ Hjá Gyðingum stóð boðið um elskuna til náungans í engu sambandi við trúarjátningu þeirra. Þeim duldist dýpt þess sem Jesú sá með því að binda þessi boð saman – elskuna til Guðs og elsku manna á millum. Að hvorugt má vanta til að hitt geti þrifist. Við getum ekki elskað Guð nema að elska líka samferðafólkið og kærleikann til þess þrýtur, nema að hann nærist á kærleikanum til Guðs. Trúin og siðgæðið er sprottið af sömu rót því án kærleika er það innantómt. Jesús gefur þessu boðorði nýtt líf og nýjan skilning er hann segir í Jóhannesarguðspjalli. „Þér skuluð elska hvert annað á sama hátt og ég hef elskað yður“

Þetta er svo heillandi boðskapur, tær og í raun einfaldur og sjálfsagður, við sjáum í hendi okkar að ef farið væri algjörlega eftir þessu væri heimurinn góður staður að vera í. Því miður er það ekki svo að heimurinn endurspegli þennan boðskap. En við megum ekki gleyma því að alltaf inn á milli í hrjáðum heimi sjáum við skýr merki þess, að þessi boð eru lifandi þrátt fyrir allt. Það sem við getum gert er að reyna að fremsta megni að styðja þessi boð, örlítið í senn, skref fyrir skref. Og ef við villumst af leið, sem við munum vissulega gera, þá er um að gera að koma sér inn á hana aftur.

Öll reynsla sem við göngum í gegnum, hvort sem hún er góð eða slæm, styrkir í raun mikilvægi þessara boða. Að kærleikurinn er mikilvægastur alls. Við vitum líka að er við förum út af götu kærleikans og erum vond eða dómhörð að þá erum við á villigötum, við vitum það innra með okkur og líður ekki vel. Einhver rödd segir okkur að þetta sé ekki hin rétta leið. Stundum tökum við mark á henni en því miður ekki alltaf. Jesús gaf okkur líka annað boð, sem kemur skýrt fram í sögunni í Jóhannesarguðspjalli um konuna sem átti að grýta fyrir hór. En þetta boð er „dæmið ekki“. Þetta boð reynist okkur jafnerfitt hinu fyrra. Aftur og aftur dettum við í þá gryfju að dæma. Alla vega ég. Þá á ég ekki við að við eigum að samþykkja eða viðurkenna vond verk. Láta kúgun og brot á réttindum annara óátalið. Aldeilis ekki. En við eigun að sýna hvort öðru miskunn og umburðarlyndi og okkur sjálfum líka. Þetta er stundum svo erfitt, alltof oft reyndar. En það er bara um að gera að halda áfram og áfram við að reyna að fara eftir þessum boðum. Afhverju? Kynni fólk að spyrja. Afhverju, spyr ég og kannski líka þú? Svarið í mínum huga er það að þetta eru BOÐIN. Við eigum að elska alla sköpun Guðs, manneskjuna, dýrin og náttúruna. Ég tel að það sé stórt atriði sem leggja þarf áherslu á. Er það trúverðugt að segjast elska Guð og menn en misþyrma svo hundinum sínum og vera sama um velferð hans, eða að eyðileggja fagra náttúru og skilja eftir rústir einar. Nei, það er ekki trúverðugt. Er hægt að standa úti í fallegu landslagi og vera ósnortin? Er hægt að horfa í blíðleg og trygg hundsaugu og vera ósnortin? Ef það er hægt er elskan ekki trúverðug.

Það má segja að kærleikur manna á millum sé oft það erfiðasta að fylgja. Þau samskipti geta verið svo flókin. Við verðum óviss um hvort kærleikur okkar er velkominn, við erum hrædd við höfnum og stundum líkar okkur ekki við samferðafólkið og eigum því erfitt með að sýna því kærleik. En samt er það hið mikilvægasta allra boða. Það sem við getum gert er að reyna að fremsta megni að hlýða boðum Meistarans frá Nazaret. Og þó við hrösum og förum á sveig við þau er um að gera að rísa upp og fara inn á beina veginn aftur. Aftur og aftur og aftur. Og einhversstaðar úti við sjóndeildarhringinn komum við auga á afleiðingar fullnustu þessara boða. Höfum því ævinlega hugfast, hversu erfitt sem það stundum er: „Elskum hvert annað“ öll sköpun Guðs. Og dæmum ekki.

Í þeirri viðleitni að fara eftir svo erfiðum boðum, því þau eru erfið, er gott að finna sér fyrirmyndir. Ég, sem kona, leita mér að kvenfyrirmyndum. Nú um stundir á ég mér tvær sem eru mér kærar. Önnur var besta vinkona Jesú, María Magdalena. Og hver var hún?

María Magdalena var samferðakona Jesú. Hún hefur verið sveipuð dularfullum og óræðum hjúpi í kirkjusögunni í gegnum aldirnar. Hún hefur að mestu verið falin. Það hafa verið miklar vangaveltur um hlutverk hennar í tilurð kristindómsins. Rannsóknir og túlkanir á henni hafa tekið miklum stakkaskiptum síðustu þrjátíu árin, ekki síst vegna þess að kvennaguðfræðin, sem blómstrað hefur á þessum tíma, hefur tekið hana upp á sína arma. Í Vesturkirkjunni hefur hún lengst af verið iðrandi syndari, hin fallna kona sem var endurreist af Jesú, hóra sem iðraðist og gerði yfirbót það sem eftir var af lífi hennar. Þessi ímynd, sem byggð er á vægast sagt vafasömum heimildum, hefur verið notuð til að innræta konum auðmýkt og undirgefni. Það var ekki fyrr en á seinni hluta tuttugustu aldar að önnur ímynd af Maríu Magdalenu leit dagsins ljós innan kirkjunnar og í fræðunum, sem konan sem stóð staðföst við krossinn og var fyrsta vitnið að upprisunni.

En hver var hún í raun og veru? Fræðifólk hefur ekki aðeins skoðað guðspjöll Nýja testamentisins og skrif kirkjufeðranna, heldur einnig leitað fanga í textum sem fundust á 18. og 19. öld á Egyptalandi og víðar. Þar birtist mynd sem auðveldar okkur að fá skýrari mynd af henni sem lærisveini, postula og umfram allt sem manneskju.

Hugsið ykkur ef hún gæti teygt sig yfir myrkur liðinna alda og frætt okkur. Hún hefur haft frá mörgu að segja. Hún var sú sem fylgdi Jesú frá Nazaret, frelsara kristninnar frá upphafi starfs hans. Hún styrkti starf hans með fjármunum sínum. Hún var ein af fáum fylgjendum hans sem var til staðar við krossfestinguna og greftrunina. Hún var valin til þess að verða fyrsta vitnið af upprisunni. Samkvæmt Maríuguðspjalli, kenndi Jesús henni hluti sem hann kenndi ekki öðrum. Í öðru riti, guðspjalli Filipusar er hún hans aðalfélagi, sá lærisveinn sem hann elskaði mest allra.

Hvergi er að finna nokkurn staf fyrir þessu fáránlega orði sem klínt hefur verið á hana, sem þýtt hefur verið á íslensku „bersyndug“. Enda kemur í ljós að það á sér uppruna sinn á 5. og 6. öld og er að mestu hugarsmíð Gregory I páfa. María Magdalena hefur verið fótum troðin í gegnum aldirnar, fyrst núna er hún að fá uppreisn æru og það er skylda okkar að halda því verki áfram. Í persónu hennar finn ég fyrirmynd í hinum stóru atburðum sem henda á lífsgöngunni. Að reyna að vera trú, sterk og sjálfstæð, reyna að sýna kærleik, að dæma ekki. En það er oft svo erfitt og þá er gott að leita til fyrirmynda eins og Maríu Magdalenu.

Hin fyrirmyndin mín er svolítið öðruvísi. Og þó. Ein af mínum uppáhaldssögum sem barn, voru um Línu Langsokk. Það var notalegt sem fullorðin manneskja að hreiðra um sig, og rifja upp gömul kynni við Línu. Sagan um hana er hressandi og uppbyggjandi lesning fyrir öll. Fyrir öll þau sem vilja varðveita barnið í þeim sjálfum. En það sem kom mest á óvart við að lesa Línu nú, sem fullorðin, var það að boðskapur Línubókanna birtist mér í nýju ljósi. Ekki bara sem saga og ævintýri, heldur sem leið til að lifa lífinu. Sem fyrirmynd.

Hver er svo Lína? Hún er dóttir konungs svarta fólksins suður í höfum, hún er sterk, andlega og líkamlega, býr í eigin húsi, hún á dýr, hest og apann Níels, og hún á fullt af gullmyntum. Lína hagar lífi sínu að eigin vild og fer algerlega sínar leiðir. Til dæmis gengur Lína í allt of stórum skóm. Afhverju? Jú, hún vill hafa pláss til að vaxa í, og geta hreyft tærnar. Það á ekkert að hemja hreyfingarnar og þrengja sjóndeildarhringinn. Í sínum stóru skóm og með sína höfðinglegu lund, er Lína skemmtileg ögrun fyrir okkur öll sem af og til göngum í allt of þröngum skóm. Fyrir okkur öll sem af og til höfum allt of þröngan sjóndeildarhring, ekki aðeins í garð annara, heldur einnig í garð okkar sjálfra.

Fyrir okkur sem stundum gleymum hvernig við eigum að lifa. Á sinn eigin hátt þá skilur Lína hversu ríkt og fallegt lífið getur verið, og hve óvænta möguleika það getur falið í sér. Dæmi um það er þegar Lína fer einn daginn út með vinum sínum, Önnu og Tomma, og gerist gripasafnari. Lína segir vinum sínum að heimurinn sé fullur af hlutum, og hún segir að það eina sem þurfi að gera sé að fara og finna þá. Þau fara út í heiminn og leita. Lína er full af gleði og bjartsýni, og hrópar upp yfir sig vegna þessara dásamlegu hluta sem hún finnur. Hún sér möguleikana sem felast í smáum og að því virðist ómerkilegum hlutum.

Hún finnur tvinnakefli sem tvinninn er búinn af, en það er upplagt til þess að blása með sápukúlur. Hún finnur dós með götum á botninum, og þá er hún upplögð í það að verða „ekki“ kökudós. Anna og Tommi fylgja ekki alveg hugsanaferli Línu. En til að gera vinkonu sína og vin ánægð, þá „lætur“ Lína þau finna fallega hluti inni í holu tré. Þau ræða það sín á milli að það sé aldrei að vita með hana Línu, það sé ekki gott að vita hvort hún hafi lagt þessa hluti þarna eða ekki. En þau ákveða samt að hér eftir ætli þau að verða gripasafnarar upp á hvern einasta dag. Við skulum líka gerast gripasafnarar, læra að grípa gleðina í hinum smáu og stóru atburðum í lífinu, okkur og samferðafólkinu okkar til gagns og gleði.

Sagan um Línu kennir okkur að lífið getur verið miklu undursamlegra heldur en við höldum. Lífið felur í sér gjafir til okkar sem bíða þess að við finnum þær. Lífið opnar augu okkar fyrir því að hið stórkostlega getur verið að finna í því smáa, það verðmæta í því ómerkilega. Við eigum að opna augu okkar fyrir þeim möguleikum og margbreytileika sem liggur fyrir framan okkur, ekki bara einhverntíma, eða á morgun, heldur einnig í dag. Núna og hérna. Það er gott að láta minna sig á þetta, í skugga hryðjuverka, mannréttindabrota og kúgunar, og þegar erfiðleikar steðja að í okkar eigin lífi, að framundan er ljósið og vonin. Að vita að bjartari tíð muni koma. Hann lofaði okkur því hann Jesús. Hlutirnir eru ekki alltaf eins og þeir líta út fyrir að vera. Oft eru þeir miklu stærri og meira gefandi heldur en lítur út fyrir í fyrstu. Lína og öll hennar uppátæki færa okkur heilmikinn boðskap. Lína elskaði náungann, og hún elskaði og annaðist dýrin. Þegar ræningjar brutust inn til Línu og ætluðu að stela frá henni, snéri hún því upp í andhverfu sína og þau skildust sem vinir. Hún dæmdi þá ekki sem óalandi og óferjandi. Ekkert er sagt meira af ræningjunum, en sú hugsun læðist óneitanlega að, að upp frá því hafi þeir bætt ráð sitt. Ef lesið er um Línu í þessu ljósi, er ómögulegt annað en að láta sér detta í hug að Astrid Lindgren hafi haft boðskap Meistarans frá Nazaret að leiðarljósi er hún skrifaði Línubækurnar.

Ég sagði ykkur í upphafi að ég hefði lært að leita til Guðs í sorgum og áföllum. Ég gerði aðra uppgötvun síðar. Það er líka afskaplega gott að leita til Guðs í gleði. Til dæmis að ræða við Jesú þegar allt gengur í haginn, þegar allt er skemmtilegt og gott. Þegar lífið blómstrar hjá börnunum mínum. Þegar sólin skín. Fyrir nokkrum dögum eignaðist ég lítinn frænda. Heilbrigðan fallegan dreng sem gladdi alla fjölskylduna. Áður en ég vissi af var ég farin að ræða þennan gleðiatburð við Guð og biðja um bjart og gott líf fyrir litla strákinn. Það var svo gott að deila þessu með Guði að ég varð enn glaðari yfir fæðingu hans.

Ég þakka fyrir að fá að deila þessum hugleiðingum með ykkur og Guð gefi okkur sem flesta góða og glaða daga og styrk á þeim erfiðu. Og Guð gefi okkur trú.
Amen.

Lokaorð: Anna Pálína Árnadóttir

Góða Guð !
Ég þakka þér fyrir að vera vinkona mín. Þakka þér fyrir að ég skuli að kvöldi dags mega afhenda þér allar mínar áhyggjur og kvíða og leggjast róleg til svefns, vitandi það að þú leysir úr öllu saman.
Vitandi það að þú munt mæta mér að morgni í ilminum af nýlöguðu kaffi, háreysti barnanna minna, augum mannsins míns og malinu í útvarpinu.
Vitandi það að þú fylgir mér í gegnum daginn, blikkar mig með nýútsprungnum fíflum, kitlar mig í nefið með ilminum af vorinu og strýkur mér um vangann með andvaranum.
Vitandi það að þú stendur með mér ef nágranninn tekur ekki undir kveðju mína, yfirmaðurinn hvæsir á mig eða strákurinn kemur heim í rifnum buxum.
Vitandi það að þú ert við hliðina á mér frá morgni til kvölds þegar ég enn á ný legg allt í þínar hendur.
Þakka þér fyrir að vera vinkona mín og fyrir að leyfa mér að vera vinkona þín.
Amen