Upplýsingar

Við skulum þakka hver annarri og hvert öðru fyrir að koma í messuna okkar í kvöld.
Þú heldur þessa messu með þeim sem sitja við hliðina á þér og fyrir framan þig og aftan þig. Það skiptir öllu máli í kvöld eins og alltaf að þú komst því þessi guðþjónusta væri ekki eins ef þú hefðir ekki komið.
Þessi messa eins og allar aðrar messur eru hið gullna tækifæri til að endurnýja hugsanir okkar. Við komum með áhyggjur okkar og tölum um þær við Guð meðan við syngjum og biðjum og hlustum í nærveru hinna. Og við komum með gleði okkar og þökkum Guði fyrir hana. Þú veist það áreiðanlega af reynslunni hvað það er óendanlega gott að hugsa um það sem gengur vel hjá okkur, hugsa til þess sem við höfum bara gert svo ljómandi þokkalega, og til gleðinnar sem við höfum haft af því. Og hugsa um fólkið sem hefur verið vænt við okkur og við höfum heldur glatt en hitt. Það er fátt eins gott og að fá að vera með verulega góðu fólki, þótt það sé ekki nema að fá að vera nálægt því, hvað þá að vinna með því eða búa með því, sagði hún Karen Horney sem var ein af þeim sem stofnuðu til nútíma sálgreiningar.

Hvernig líður þér í kvöld? Naustu dagsins eða glímdirðu við eitthvað
erfitt eða dauflegt? Það er sem oftast sitthvað af ýmsum sortum í
dögunum. Eða hvað finnst þér? Ég held að það verði aldrei öðru vísi. Og ég held það sé betra að sjá það. Við glímum alltaf við eitthvað Ég segi enn og aftur eins og maðurinn frá Húsavík. Það er alltaf eitthvað. Og ef það er ekki eitthvað þá er það bara eitthvað annað.

Ég held að það skipti mestu hvað við hugsum um þetta allt. Það skiptir alltaf mestu hvað við hugsum. Hvernig við tökum lífinu. Hvernig við mætum mótlætinu sem sneiðir ekki hjá einu einasta af okkur, og hvernig við njótum lífsins þegar það er svo gott að vakna og byrja daginn, og þakka fyrir hann þegar næsta nótt kemur og svæfir okkur. Það er svo undarlegt að það þarf eiginlega meiri kjark til að njóta lífsins en sætta okkur við að það er fullt af mæðu. Eða hvað finnst þér? Mér finnst það næstum ótrúlegt hvað erfiðu hugsanirnar geta troðið sér fram fyrir glaðværðina.
Mér finnst oft eins og það sé mér algerlega um megn að skipta um hugsanir þótt ég viti að mér liði miklu betur ef ég hugsaði bjartari hugsanir.
Ég myndi halda að þetta stafaði af ringulreiðinni og þessum óskaplegum asa og vinnuæði og kaupgræðgi í íslensku þjóðfélagi sem við erum alltaf að tala um en gerum svo lítið til að breyta. Ég myndi halda það ef ég hefði ekki lesið vitnisburð Biblíunnar um að þessi tregi til að njóta gleðinnar og óttaleysins var alveg eins fyrir tvö þúsund og þrjú þúsund árum.

Fagnaðarerindi kristinnar trúar segir okkur í kvöld eins og þá að Guð sé hjá okkur í ringulreiðinni og vilji hjálpa okkur til að breyta henni með
því að gefa okkur nýjar hugsanir. Sínar hugsanir. Ég hjálpa þér til að
velja lífið. Ég tek burtu steinhjartað og gef þér lifandi hjarta. Ég gef þér uppsprettu lifandi hugsana sem þú mátt bera með þér og hafa alltaf hjá þér. Biblían segir líka að það sé bara Guð sem getur gefið okkur nýjar hugsanir. Við gætum flest sagt margar sögur af því hvernig við reyndum að breyta um hugsanir en gátum það bara ekki. Meira að segja fermingarbörnin sem eru bara 13 ára gætu ábyggilega sagt ýmsar svona sögur af sjálfum sér.

Þau fluttu okkur guðspjallið um samversku konuna við Jakobsbrunn til að íhuga saman í kvöld. Það er um konu í Gyðingalandi fyrir tvö þúsund árum sem hafði átt í ýmsum erfiðleikum sem hún hafði alltaf reynt að leysa á sama hátt. En það hafði aldrei gengið. Hún bara gat þetta ekki. Og þennan dag fór hún út að brunninum til að sækja vatn eins og hún gerði kannski á hverjum degi. En þennan dag hitti hún Jesúm. Hún hitti hann af því að hann beið eftir henni, af því að hann ætlaði að tala við hana.
Hann vissi allt um hana og hann bauð henni inn í nýja veröld sem hann var kominn til að stofna. Hann sagði henni að hann væri Guð sem væri kominn til fólksins síns og væri frelsari hennar sjálfrar. Og hann sendi hana til að segja fólkinu sínu að koma líka og fá endurnýjun og blessun. Og þau komu og trúðu og fögnuðu. Hún var fyrsti prédikarinn sem Jesús sendi til að segja hver hann væri. Fyrsti prédikarinn sem Jesús sendi var kona.

Jesús kallaði margar fleiri konur til að vinna með sér. Hann afneitaði kvenfyrirlitningunni sem hafði ríkt um aldir. Kvenfyrirlitningin kom bæði frá trúarbrögðunum, líka Gamla testamentinu og svo frá grísku heimspekinni. Jesús andmælti henni og gaf konum aftur réttinn sem Guð gaf þeim í sköpuninni. Hann breytti aldagömlum hugmyndum sem fólki hafði ekki dottið í hug að gætu breyst eða ættu að breytast. Og þegar vinkonur hans og vinir stofnuðu kirkjuna eftir upprisu hans héldu þau fast við þessar nýju hugsanir sem Jesús gaf þeim og kirkjan skar sig úr af því að þar voru konur í forystu alveg eins og menn.

Það er svo margt sem kirkjan hætti við að hugsa þegar hún hélt göngunni áfram og lét bara fara í sama farið. Hún hætti við að fylgja hugsunum Jesú um stöðu kvenna og hún hætti við að hugsa um það að þau sem stjórna eigi að þjóna og um það að allar manneskjur eiga sama rétt. Samt hélt Páll postuli áfram að segja það sem Jesús hafði sagt. Hann sagði að allar manneskjur væru jafnar og það ætti ekki að vera nein mismunum milli kynþátta eða stétta eða kvenna og manna. Samt seig kirkjan aftur inn í gamla farið og safnaði valdinu inn í hóp kirkjufeðra sem tóku hver annan að sér og útilokuðu konur.

Það er óskaplega erfitt að halda stefnunni. Það er svo erfitt að setja hana, og svo að treysta henni og breyta henni, finna leiðirnar og sameininguna og þola ringulreiðina innan frá og utan að. Það er svo erfitt að berjast fyrir hugsjónum sínum á heimavelli af því að þar náum við í hvert annað til að mala niður með alls lags aðferðum. Og þar geta þau sem hafa valdið hefnt sín á þeim sem hafa það ekki. Það er miklu auðveldara að berjast á móti því sem er langt í burtu af því að fólkið þar veit ekkert hvað við erum að segja og nær ekki til okkar.

En daginn sem samverska konan hitti Jesúm sá hún allt í einu það sem hún hafði aldrei séð áður. Hún sá að heimavöllur hennar var ekki vonlaus og hún gat gert það sem hana hafði líklega aldrei grunað. Hún gat verið prédikari. Hún gat boðið öðrum að hugsa hugsanir sem það hafði aldrei vitað að það gæti hugsað eða vildi hugsa. Hún gat þetta af því að hún gat haft Jesúm að leitoga lífs síns.

Þetta býðst fermingarbörnunum okkar. Og þér og mér bauðst það þegar við
fermdumst. Og alltaf síðan hefur Guð boðist til að endurnýja það fyrir
okkur á hverjum einasta morgni.
Hún er hjá okkur allan daginn og styður okkur í hverri þeirri baráttu sem við þurfum að berjast og gefur okkur kjarkinn sem við þurfum til að njóta dagana þegar við þurfum ekki að berjast fyrir einu eða neinu og megum njóta vinnunnar og vináttunnar og veðurins og liggja í leti ef það er á dagskrá. Hún gefur okkur kjarkinn til að nenna að vera til og þora það.

Við ætlum að segja ykkur hvernig það var þegar hún kom í fermingartímann.

Þið vitið hvernig það er. Fólk hringir stundum og segist ætla að koma.
En svo hringir það stundum aftur og segist bara ekki komast, því miður.
En Guð hringdi hvorki til að segjast koma eða geta ekki komið. Hún kom bara. Hún gekk inn í stofuna okkar á Laugaveginum og settist við borðið hjá okkur og var með okkur allan tímann. Svo fór hún með öllum fermingarbörnunum þegar þau fóru, Auðbjörgu og Guðrúnu, og Hildi og Sigrúnu og Sindra og Sigríði Jónasar og Sigríði Daða og Valgerði. Og hún var líka hjá Hrafnkötlu sem býr úti í Englandi og kemur heim til að fermast í sumar.

Hún fór með þeim heim í strætó eða í bílnum með foreldrum þeirra eða hún gekk með þeim heim, niður Laugaveginn og leit í búðargluggana með þeim og
brosti með þeim til fólksins á gangstéttinni. Og hún var líka eftir hjá
okkur og tók á móti öllum kórkonunum sem streyma alltaf til Öllu á söngæfingu eftir fermingartíma. Hún hitaði kaffið með þeim og söng alla sálmana með þeim. Og um leið var hún hjá þér. Hvar sem þú varst. Og þar sem þú ert þar er fínast, og þitt eigið líf skiptir öllu. Og einmitt þess vegna eru það svo mikil fagnaðartíðindi að Guð skuli vilja endurnýja það dag eftir dag.

Ég held að fyrirgefningin sé undirstaða lífs okkar. Fyrirgefning Guðs sem hún gefur okkur til að fyrirgefa sjálfum okkur og öðrum og lífinu, þegar við þurfum þess. Í fyrirgefningunni fáum við frelsi til að kjósa um svo margt í dögum okkar. Og í frelsinu eignumst frið, líka í ófriðinum og baráttunni fyrir því sem við höfum valið okkur að berjast fyrir. Við eigum möguleikana á að breyta hugmyndunum sem eru á bak við það sem þjáir
og hrjáir hversdaga okkar. Við eigum möguleikana af því að hún er hjá
okkur. Hún sem kom og er Jesús. Hún sem er vinkona þín. Og gefur þér sínar hugsanir. Til hamingju með þetta allt. Þakka þér enn og aftur fyrir að vera hérna. Guð blessar þig. Amen.