Upplýsingar

Það að kveikja ljós og lýsa öðrum veginn í myrkrinu. Mér fannst það svo gott og fallegt og göfugt. En svo vaknaði spurning. Hver lýsti mér veginn í myrkrinu? Hvernig átti ég að rata minn veg, ef ég væri alltaf að að lýsa upp veginn fyrir aðra? Átti enginn ljós fyrir mig?
Jú, svarið kom til mín.Ég átti líka ljós fyrir mig. Við eigum öll ljós fyrir okkur. Við þurfum bara að muna eftir því að nota það. Að ganga um dagana okkar með ljósið okkar og leyfa því að skína á okkar veg og þá lýsir það svo bjart, að aðrir njóta þess líka. Það tók mig þó nokkurn tíma að finna ljósið mitt og líka þó nokkurn tíma í viðbót að sannfæra sjálfa mig um, að það væri alveg í lagi að ég sjálf nyti góðs af þessu ljósi. Mér fannst það í fyrstu svo eigingjarnt og sjálflægt að ætla fyrst að njóta einhvers sjálf og svo að hugsa um aðra á eftir. En núna veit ég að ég er jafn mikils virði og allir aðrir og mér er treyst til þess að bera mitt ljós, bæði fyrir mig og aðra. Ég treysti því að ljósið mitt sé bjart og fallegt og geti lýst upp bæði mitt myrkur og annara. Og þegar við vinkonurnar, Guð og ég fáum okkur göngu saman í skammdeginu, þá er aldrei dimmt hjá okkur, því ég segi: Jæja Guð, nú leggjum við í ´ ann. Nú þurfum við að kveikja. Og við notum ljósin okkar og ljómum báðar af gleði. Svona einfalt er nú þetta. Og það sem meira er, það virkar.