VERUM INNILEGA VELKOMNAR TIL AÐ LESA MARKÚSARGUÐSPJALL
Mér finnst ekki sem verst að skrifa stuttan kafla fyrir hverja mánudagssamveru bæði fyrir okkur sem komum og ykkur sem lesið heima.  Lesum og lesum og sjáum hvað við sjáum.  Ef þið sem komið ekki viljið tala um eitthvað úr köflunum gætuð þið skrifað til mín á netfangið audureir@ismennt.is eða kvennakirkjan@kvennakirkjan.is.   Þá hugsa ég og hugsa og hugsa um það sem þið skrifið og skrifa til baka.
Við erum að færa ykkur, elskulegu Kvennakirkjukonur bókina núna um helgina. Þið aðrar sem viljið vera með getið keypt bókina  í Þingholtsstræti 17,   hún kostar 5000 krónur og við afhendum hana eftir samkomulagi,  skrifið okkur bara á netfangið audureir@ismennt.is og við hittumst.  
Ég reikna með að við sem komum á mánudögum séum búnar að lesa og tilbúnar  til að tala saman.  Lesum nú Fyrsta kaflann.  
Guðspjöllin bæta frásögum hvert við annað og ég vitna í það sem Matteus segir um ólíkar aðferðir í starfinu,  leið Jóhannesar skírara og leið Jesú sjálfs.  Boðskapurinn er alltaf eins. 
En það er hægt að boða hann á ýmsan hátt.  Það eru ekki reglur um það.  Hvað segirðu?
Haldið þið að fjandinn hafi sjálfur hitt Jesúm eða var hann að berjast við sjálfan sig?  
Eða skiptir það eitt máli að við skulum ekki láta plata okkur heldur treysta Guði til að hjálpa okkur til að gefast ekki upp heldur ná tökum á hugsunum okkar?  Eða ?  Hvað finnst þér?  Er það ekki alla vega stórkostlegt að eiga hjálp Jesú við að velja lífið eins og Biblían segir víða?
Hvað finnst þér um fullyrðinguna um að Jesús hafi líka haft konur í hópnum og það bara strax? 
Það gerast enn kraftaverk.  Er það ekki?
Hvað finnst þér annars?
Blíðar kveðjur,  Auður Eir