Við styrkjum hver aðra í trú okkar svo að við finnum alltaf að trúin er raunveruleiki daganna.  Það er yndislegt eins og við allar vitum og gerir dagana einn eftir annan að góðum dögum.

Erfiðir dagar verða líka góðir í hjálpinni sem Guð gefur okkur. Það er mikil gjöf að komast í gegnum erfiðleika, það sem er óvænt og það sem við vildum að gerðist ekki.  Við vitum af reynslunni að það gerist alltaf eitthvað í þá áttina við og við. Þeim mun gleðilegra er að eiga friðsama daga og skemmtilega daga og daga sem færa okkur óvænta gleði.

Við hittumst í Þingholtsstræti á hverjum mánudegi og tölum um trú okkar.  Eitt skiptið bað ég þær í hópnum að segja hvernig þær lýstu trú sinni.  Þær sögðu:

Traust.  Hvíld.  Vissan um að Guð er með okkur og vinnur með okkur.  Hún heyrir bænir okkar og við sjáum það strax eða seinna.   Það er að taka eftir bænheyrslum án þess að heimta að þær verði eins og við viljum.  Það er að vera opnar fyrir anda Guðs og laða að okkur það sem er gott.  Það er að hugsa ekki neikvæðar hugsanir heldur jákvæðar.  Það er að láta trúna koma fram í því sem við gerum.

Það er að sjá að Guð er með okkur í öllum samskiptum okkar við annað fólk, góðum og flóknum.  Það er að sjá hvað það er yndislegt að það er nóg í trú okkar að eiga Guð.  Það er að sjá aðGuð er alltaf að skapa.  Hún brallar svo, eins og Steinunn okkar Pálsdóttir segir.

Blíðar kveðjur,  Auður