Upplýsingar

Týnd drakma Lk.15:8-10

Predikun í Kvennakirkjunni Neskirkju 16.02.20

Afmæli Kvennakirkjunnar 27 ára

Bæn:  Elsku Guð þakka þér fyrir gleði þína og ást.  Gefðu okkur hugrekki og trú á þig og hjálp þína.  Endurnýjaðu okkur.  Amen.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði.

Hvað vitum við og hvað ekki?  Hvað hefur okkur verið sagt og hvað ekki?

Þegar við skoðum Biblíuna þá lesum við sögur í G.t. af hetjum, kvenhetjum eins og Rut, Ester, Debóru og Júdit.  En á tímum N.t. þegar Jesús gengur um stræti og torg er þeim ekki til að dreif.  Við lesturinn, sjáum við sveiflur eftir tímabilum í afstöðunni til kvenna og réttinda þeirra eins og t.d. í Dómarabókinni.

Ef við skoðum Lúkasarguðspjall sérstaklega sem er 24 kaflar,  þá eru hvorki meira né minna en 27 sögur þar sem Jesús segir sögur sem tala annars vegar til karla og hins vegar til kvenna.  Einn af þessum textum var lesinn hér áðan um týndu drökmuna.  Á undan henni fór lík saga um karlinn sem fann týnda sauðinn.  Þeirri sögu hefur verið haldið meira á lofti en sögunni um drökmuna.  Já Jesús talaði bæði til kvenna og karla með því að taka dæmi úr reynsluheimi beggja kynja og líkja Guði við bæði kynin.

Og ef við bregðum fyrir okkur nútíma viðskiptafræðilegu málfari þá markaðsetti Jesú fagnaðarerindið bæði fyrir konur sem karla.  Er ekki dásamlegt að heyra þetta?  Og er ekki stórundarlegt í þessu ljósi að einhverjum hafi dottið í hug að draga í efa jafnréttið í guðspjöllunum og spyrja sig þeirra fáránlegu spurningar hvort konur hafi verið í lærisveinahópi Jesú?  Er það nú líklegt að Jesús hafi verið að taka dæmi úr reynsluheimi kvenna fyrir karlana?  Nei ég held að það segi sig sjálf að hann hafi verið að tala við  konur og þar sem hann tekur tvær líkingar annars vegar af karli og hins vegar af konu að þá hafi hann verið að tala við bæði kynin, ef ekki öll kyn.   Því má á Biblíudegi velta fyrir sér hvort þýðingar á sumum öðrum textum þar sem Jesús talar í karlkyni sé réttar?  Því var nú þannig farið að Jesús talaði arameisku.  En N.t. er einungis til á grísku.  Og orð hans voru því þýdd á grísku í N.t.  Síðan er okkar N.t. þýtt úr grísku en íslenska ku víst vera frekar karllægt tungumál að því er sagt er eða er ástæðan önnur t.d. að við höfum ekki verið nógu duglegar að auðga tungumálið af kvenkynsorðum og tala í kvenkyni?  Svari hver fyrir sig.

Jesús velur meðvitað að gera konur að hetjum í sögunum.  Hann kom fagnaðarerindinu jafn krafmiklu til skila fyrir bæði konur og karla.

Þrátt fyrir þessa afsstöðu Jesú eru konur oft í bakgrunninum en í upprisufrásögunni eru þær í miðju sögunnar.  Þær stíga út úr skugganum inn á mitt sviðið og allt umhverfist um spurninguna:  munu konurnar yfirstíga ótta sinn?  Við vitum svarið við þeirri spurningu.  Já það gerðu þær, þær yfirstigu óttann og þær báru vitni um upprisuna bæði fyrir konum sem körlum.  Þær komu út úr skugga krossfestingarinnar inn í ljóma upprisunnar.   Í því hámarki birtist okkur vel hið róttæka jafnrétti og samfélag kvenna og karla sem Jesús myndaði.  Jesús umgengst konur af virðingu og umhyggju sem og karla.

Mikið hefði ég vilja óskað þess að ég hefði alist upp við þá vitneskju að Jesús talaði viljandi til beggja kynja.  Já hvað var okkur sagt og hvað ekki hér áður fyrr?

En vendum okkar kvæði í kross.  Hvað er Jesús að segja í þessari sögu um konuna sem fann týndu drögmuna.  Guðspjallið segir frá gleði Guðs og ást.  Já konan var hoppandi af kæti.  Við verðum allar léttstígari þegar við erum glaðar.  Og konan er Guð sem gleðst yfir því að finna dýrmætið sem er týnt.  Drakman stendur fyrir manneskju sem hefur týnst og fundið aftur Guð.  Iðrun gleður Guð og endurnýjar samband milli Guðs og konu, milli Guðs og fólks.  Líkingarnar sem Jesú tekur í þessum 15 kafla svara kvörtunum farísea sem oft vildu meina að Jesús umgengist ekki rétta fólkið.  Hver mundi ekki gleðjast yfir því að bjarga týndum sauð, eða peningi eða syni?  Spyr Jesú.  Getur þú ekki skynjað/skilið og deilt gleði Guðs yfir björgun einstaklings?  Guð elskar heiminn – sem er blendinn, siðaður -siðlaus, góður – slæmur.  Jesús tjáir þessa ást Guðs á fólki.  Gleði hans er að syndari bregst við boðskap hans og færðist aftur í samfélagið við Guð.  Syndarinn orðar og játar synd sína og tekur á móti réttlætinu.  Játningin er til að losna undan syndinni til að geta tekið á móti fyrirgefningunni og hreinsunin geti átt sér stað.  Það sjáum við vel í sögunni sem kemur á eftir um týnda soninn.

Húsin hér áður fyrr voru dimm og lítið um glugga, og gólfin voru eins og þau voru í gamla daga.  Svo það hefur verið ærin vinna að finna peninginn.  Dragma var dagslaun og gleðin var mikil yfir fundinum.  Konan, vinkonur hennar,  grannkonur og englarnir gleðjast yfir hamingjuríkri útkomu.  Þessi saga var ný nálgun á tímum Jesú, að Guð leitaði kvenna og karla.  Guð er ekki týndur en við mannfólkið erum stundum týnt í tilverunni.  Guð kallar á okkur að koma til sín og finna hvild og frið.  Við trúum á ást Guðs, sem birtist okkur í Jesú Kristi sem kom til að finna og bjarga þeim sem voru og eru týnd og umbreyta lífi þeirra.  Fylla það af miskunn, von, kærleika og gleði.

Guð er glöð yfir okkur, að við tilheyrum henni.  Hún elskar okkur og er umhugað um okkur.  Og Guð er einnig glöð yfir Kvennakirkjunni.  Í dag fögnum við 27 ára afmæli Kvennakirkjunnar.  Og við þökkum sr. Auði Eir og þeim konum sem komu að stofnun hennar.  Hún hefur breytt ásýnd kirkjunnar og einnig vakið athygli á kvennaguðfræðinni og sjónarhorni kristinna kvenna.  Mikið hefði nú verið gaman ef Kvennakirkjan hefði verið til þegar maður var ungur að árum.

Eitt af hlutverkum Kvennakirkjunnar er að vera umbreytandi afl.  Og áfram höldum við ef við höfum þor og getum yfirunnið óttann.  Tekið næstu skref.  Því það er staðreynd að jafnréttinu fer aftur og við þurfum að halda ótrauðar áfram, halda áfram að vekja athygli á réttindum kvenna og jafnréttisboðskap Jesú, já að hreinsa til, lesa textana og afmá karllægt tungutak þar sem það á ekki við, breyta helgisiðum í átt til jafnréttis og ná að skilja Guð, sem segir:  Ég er það sem ég er.  Já að hætta að vera meðvirkar með karlaveldinu sem vilja halda okkur niðri og fara fram á það við látum undan til að geta viðhaldið sinni sýn á guðfræðina.  Það er auðvitað ekkert annað en ofbeldi sem við höfum þurft að ganga í gegnum á liðnum árum.  Og það er erfitt að horfast í augu við það, hægara sagt en gert. En sameinaðar getum við risið upp og sagt við nennum ekki lengur að vera meðvirkar, við nennum ekki lengur að vera styðjandi kvenleiki sem styður við og staðfestir yfirráð karla.  Auðvitað mun það skapa vesen. En án þess breytist ekkert.  Við höfum Guð með í för.  Hún gefur styrkinn og reisir okkur upp.  Já hún elskar okkur og leitar okkar og gleðst yfir okkur.

Hvað vitum við og hvað ekki?  Hvað hefur okkur verið sagt og hvað ekki?

Guði sé lof og dýrð fyrir ykkur og Kvennakirkjuna.  Guð elskar okkur og við erum hennar dýrmætu drökmur.

Amen.

Týnd drakma

8 Eða kona sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega uns hún finnur hana? 9 Og er hún hefur fundið hana kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: Samgleðjist mér því að ég hef fundið drökmuna sem ég týndi. 10 Þannig segi ég yður að englar Guðs munu gleðjast yfir einum syndara sem bætir ráð sitt.“   Amen.