Upplýsingar

Réttum úr okkur  – Prédikun í guðþjónustu í Fríkirkjunni í Hafnarfriði 13. október 2013 , Auður Eir Vilhjálmsdóttir[/title]

,,Ég hef augu mín til fjallanna.  Hvaðan kemur mér hjálp?  Hjálp mín kemur frá Guði sem skapaði heiminn og gefur okkur öruggt göngulag um daga okkar.“ Davíðssálmur 1.16.

Það er yndislegt fyrir okkur kvennakirkjukonur að vera hérna í kvöld með ykkur í fríkirkjunni.  Ég ætla að segja framhaldið af því sem ég sagði í síðustu predikun.  Þá sagði ég frá því þegar ég var átta ára og pabbi sendi mig í bankann með skjal sem átti að stimpla.  Stúlkan í afgreiðslunni sagðist alls ekki geta leyst málið en þá kom fröken Aðils sem sat bak við gler og tók málið að sér og ég fór heim með afgreitt erindi.  Ég sagði pabba þetta  þegar hann kom heim og við kvöldverðarborðið sagði hann öllu fólkinu að það væri nú fínt að afhenda mér flókin mál.  Ég hefði snúið mér beint til fröken Aðils og hún hefði tekið málið að sér.  Ég vissi að pabbi vissi að það var ekki svona og ég vissi að hann var bæði að senda mig í bankann og segja þetta til að uppörva mig.  Allt fólkið horfði líka á mig uppörvandi og fannst mikið til um mig.  Þetta er ein af mörgu góðu minningunum sem ég á frá því að vera átta ára.

Ég segi þér þetta til að stinga upp á því að þú takir þér tímakorn til að muna eftir góðum atburðum sem þú áttir.  Það er svo mikið talað um allt sem skaðar börn svo þau bera þess merki seinna.  En hugsum um allt sem gladdi okkur og varð okkur til ævilangrar gæfu.  Hugsaðu um það.  Þú átt áreiðanlega tonn af góðum minningum um fólk sem hafði djúp og góð áhrif á þig.

Við komum í kirkju til að finna þessi áhrif og gefa þau þeim sem koma líka.  Ef okkur hinum finnst þú yndisleg manneskja og finnum að messan verður svo miklu betri af því að þú komst þá hefur það góð áhrif á þig.  Og nú segjum við það við þig:  Takk fyrir að koma, þú ert yndisleg manneskja.  Þú mátt trúa því.  Okkur finnst það.  Af því að það er satt.

Við komum í kirkju  aftur og aftur og aftur, til að hitta Guð saman.  Henni finnst við yndislegt fólk.  Við komum til að segja henni allt sem býr í hjarta okkur og heyra hana svara.  Við komum til að biðja hana að hjálpa okkur til að njóta lífsins sem hún gefur okkur og nota það til blessunar.  Við biðjum hana að taka frá okkur hugsanir sem við viljum ekki hafa og gefa okkur sínar hugsanir í staðinn.

Við höldum núna námskeið í Kvennakirkjunni um að vera leiðtogar í okkar eigin lífi.  Við tölum um hugsanirnar sem loða við okkur þótt við viljum það ekki og ein okkar sagði:  Maðurinn minn sagði að ég jórtri á hugsununum.  Fyrst tala ég um hugsanir sem ég vil ekki hafa.  Og svo tek ég þær upp aftur og held áfram að hugsa þær.  Ég jórtra á þeim, segir hann.

Hvað heldur þú?  Jórtarðu?

Ætli við vitum ekki öll að það er erfitt að hætta að hugsa um ýmislegt?  Við vitum það líka, af því að við heyrum það í boðun kristinnar trúar okkar, að Guð getur losað okkur við hugsanir.  Bara hún getur það.  En hún getur það.  Og hún vill það.  Og hún gerir það.

Við þurfum bara að taka á móti gjöfinni.  Og nota hana.  Ég fór um daginn til sjúkraþjálfara og hún sagði að ég ætti að rétta úr mér.  Sjáðu bara, sagði hún, sjáðu hvað þú verður reisnarleg.  Og þegar ég fór út svona líka reisnarleg fann ég að ég varð líka miklu flottari í göngulagi.  Prófaðu, ef þú vilt,  þegar þú kemur heim,  og á morgun.  Réttu úr þér.  Líka í trú þinni.  Einu sinni enn.  Við megum rétta úr okkur aftur og aftur.  Og ganga traustum skrefum gegnum daga okkar einn eftir annan.  Guð hjálpar okkur til þess.  Og hún þarfnast þess að við séum reisnarleg og glaðleg þegar við mögulega getum.  Við getum það ekki alltaf og hún veit það.  En hún hjálpar okkur til að rétta úr okkur aftur.

Þess vegna valdi ég okkur 121. Davíðssálm til að heyra í kvöld:

Ég hef augu mín til fjallanna.  Hvaðan kemur mér hjálp?  Hjálp mín kemur frá Guði sem skapaði heiminn og gefur okkur öruggt göngulag um daga okkar.

Amen