Upplýsingar

Gleðileg jól. Það er yndislegt að við skulum vera hér allar og öll saman í kvöld. Til að hittast og vera saman og óska hver annarri og hvert öðru gleðilegra jóla og syngja saman og biðja saman og heyra jólaguðspjallið og hlusta á Hallfríðí og Öllu.

Við hittumst til að finna friðinn sem jólaguðspjallið segir frá. Sem englarnir sungu um á Betlehemsvöllum í kyrrð jólanæturinnar: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu. Hann sem gaf friðinn tók á móti hirðunum í fjárhúsinu, Jesús Kristur, frelsari heimsins. Hann var þar með Maríu og Jósef. Ofurlítið nýfætt barn. Hann átti eftir að verða undrunarefni og deiluefni og fólk átti eftir að andmæla honum og afneita honum. En líka að elska hann og slást í för með honum.

En þau sem hittu hann með þeim Maríu og Jósef allra fyrst af öllum, hirðarnir og vitringarnir, trúðu umsvifalaust á hann. Það var ekkert hik, enginn efi, engar spurningar. Þau trúðu því að hann væri sá sem englarnir sögðu. Hann var Guð sem var komin til þeirra og alls fólks veraldarinnar.

Við trúum því líka. Það er gæfa okkar og gleði allra daga. Margar okkar hafa sagt frá því í messunum, sagt frá trú sinni sem styrkir og gleður alla daga þeirra. Við hinar þökkum þeim fyrir að eiga þessa sterku og blíðu trú og segja okkur frá henni. Við segjum hver við aðra hvað konur Kvennakirkjunnar eiga mikla trú í hjarta sínu og hvað það gerir okkur öllum gott. Hvað það er gott að fá að vinna saman og vera saman.

Eins og alltaf ætlum við að tala um það í kvöld hvað trúin gerir okkur glaðar og öruggar. En í kvöld tölum við sérstaklega um það að það er allt vegna þess að það er einmitt á jólunum sem allt byrjaði. Lúterskar kirkjur halda jólin sem aðalhátíð sína. Af því að þá kom Guð og það var upphaf alls sem kom á eftir. Orþódoxa kirkjan hefur páskana sem aðalhátíð sína. Af því að þá var upprisan og allt byrjaði upp á nýtt.

En öll kirkjan talar um það mikla undur að þau sem fyrst sáu Jesúm trúðu því umyrðalaust að hann væri Guð sem var komin. Við í Kvennakirkjunni hikum ekki við að segja að hann sé hún sem kom. Að hún sé vinkona okkar sem elskar okkur. Og nú skulum við styrkja hver aðra og hvert annað með því heyra hvað jólafriðurinn blessar okkur mikið.

Hugsum um það að það voru bara tveir hópar sem komu og hittu Jesúm í fjárhúsinu. Það voru hirðarnir og vitringarnir. Hversdagsfólk og sérfræðingar. Og af því að þessi messa eins og allar er til þess að styrkja þig þá bið ég þig að hugleiða andartak hvorum hópnum þér finnst þú tilheyra. Svo hika ég ekkert við að svara fyrir þig. Þú tilheyrir báðum hópunum. Þú vinnur almenn hversdagsstörf og þú ert sérfræðingur í þeim. Hirðarnir voru algjörir sérfræðingar í að gæta hjarðanna. Og vitringarnir unnu hversdagsstörf mitt í sérfræðinni.

Ég legg til að við gefum hvert öðru þá stórgóðu jólagjöf að gera það að glaðlegu umhugsunarefni okkar og umræðuefni að öll störf alls fólks veraldarinnar eru bæði hversdagsstörf og sérfræðistörf. Að þau eru samtvinnuð. Að það kemur öllum vel sem hin gera. Þess vegna skulum við hætta að meta sum störf svo miklu meiri en önnur og önnur svo miklu minna. Því engin verða unnin nema önnur séu líka unnin.

Það þýðir að það sem þú gerir, heima og heiman, er fádæma merkilegt. Þú mátt treysta því. Og njóta þess.

Það þarf stundum meira en lítið til að sjá það og treysta því og njóta þess. Sumu er hampað svo mikið að annað verður lítils virði í umræðu þjóðfélagsins. Og stundum eru það okkar störf sem er lítið hrósað. Þá þurfum við að taka í taumana og hrósa hver annarri og hvert öðru. Af því að Guð sem kom og varð ein af okkur, frelsari okkar og ævarandi vinkona, metur þig svo mikils og þarf á þér að halda. Hún þarf á því að halda að þú sért örugg og glöð.

Guð þarfnast þess að þú standir með henni. Hún kom til að segja þér að hún elskar þig og þarfnast þín. Það gerir líf þitt gott og traust dag eftir dag. Hún þarf líka að heyra það frá þér að þú elskir hana og þarfnist hennar. Þess vegna hittumst við og biðjum saman og syngjum um hana og heyrum orðið hennar. Svo að við segjum henni að við elskum hana. Að hún sé besta vinkona okkar. Að við viljum vinna með henni.

Það á bæði við um það sem við vinnum heima og heiman og það sem við vinnum í okkar eigin hjarta. Að við segjum henni frá því sem fipar okkur og ætti alls ekki að vera í huga okkar. Þú veist hvernig það er. Hvernig eitt og annað rekur inn í huga okkar þótt við viljum það ekki. Og hvernig það getur sest þar að og hvað það getur verið ómögulegt að losna við það.

Þess vegna kom hún. Til að hjálpa okkur að losna við það sem á alls ekki að búa með okkur. Losna við kvíðann og sektarkenndina, óttann og reiðina sem gerir okkur ekki gott. En nota reiðina sem er góð og gagnleg. Þú veist líka hvernig það er. Það er kraftaverk í hvert einasta skipti sem við finnum frelsi frá því sem þjakar okkur. Og finnum friðinn koma í staðinn. Friðinn og öryggið og gleðina.

Guð blessar þig. Hún sem er komin til þín til að vera hjá þér. Af því að hún elskar þig og þarfnast þín. Nú mátt þú heyra englasönginn eins og hann hljómaði á Betlehemsvöllum. Frelsari þinn er kominn til þín. Friður himnanna er kominn til þín. Og hann er líka hjá þér í dögunum sem bera meiri ófrið en frið inn í líf þitt. Það gerist. Þú veist það. En heldur ekki þeir dagar munu sigra þig og þeir vara ekki lengi. Þú mátt horfa í augu Jesú og sjá að þú þarft aldrei að efast. Aldrei nokkurn tíma. Hann er Guð. Hann er hún sem kom. Og hún er vinkona þín. Alltaf. Það byrjaði á jólunum og heldur áfram alla daga.

Guð geymir okkur. Gleðileg jól. Amen.