Upplýsingar

Við ætlum að tala um vináttu Guðs í kvöld. Við ætlum að tala um Guð sem er vinkona okkar. Við tölum um þetta í hverri messu á einn og annan máta, um okkur og hana og okkur og hinar og annað fólk. Ég ætla að segja okkur sögur, eins og stundum, og þið skuluð láta fara vel um ykkur eins og alltaf þegar við hlustum á sögur.
Mér finnst það tilheyra á þessum tímum að segja sögur af ýmiskonar kreppum og kreppulausnum sem vinkona okkar Guð hefur tekið þátt í með fólki sínu fyrr og síðar. Hún tekur þátt í öllu með okkur og Biblían frá upphafi til enda er frásagan um það. Þess vegna fóru guðfræðingar á nítjándu og tuttugustu öldinni að tala um frelsunarsöguna í Biblíunni. Hún er sagan af hinum miklu og mörgu máttarverkum Guðs um alla sögu Gamla testamentisins sem heldur áfram í sögu Jesú og sögu kirkjunnar. Við lesum um kreppuna þegar Ísraelsfólkið var orðið að þrælum í Egyptalandi svona tæplega tvöþúsund árum fyrir Krist. Þau hrópuðu til Guðs og hún heyrði hróp þeirra og leysti þau úr kreppunni. Hún leiddi þau út úr þrældómnum inn í frelsið í landinu sem hún gaf þeim. Og sagan hélt áfram og þjóðin heimtaði konung eins og hinar þjóðirnar áttu. Og Guð gaf þeim konunga, Sál og svo Davíð og Salómon. Það var um þúsund árum fyrir Krist. Davíð sameinaði allar ættkvíslir Ísraels í eitt afar stórt konungdæmi og Salómon sonur hans sem var heimsfrægur fyrir gáfur sínar hóf konungdóm sinn með því að biðja Guð um leiðsögn. En hann endaði í gífurlegri kreppu og tómleika og svartsýni og eftir hann klofnaði ríkið í tvennt. Og sagan hélt áfram og um sjö hundruð árum fyrir Krist var Norðurríkið hertekið af´Assýringum sem fluttu fjölda fólks úr Ísrael heim til sín til Assýríu. Það settist þar að og hvarf í þjóðahafið. Tvö hundruð árum seinna réðist Nebúkaneser Bablýloníukonungur inn í Suðurríkið og fjölmargt fólk var flutt þaðan til Babýlon. Það grét og saknaði heimalandsins og í einum sálmanna, 137 Davíðssálmi, er ort um söknuðinn í þessari þungbæru kreppu: Við Babýlonsfljót sátum við og grétum þegar við minntumst Síonar. Á pílviðina þar hengdum við gígjur okkar. Hvernig ættum við að syngja Guði ljóð í öðru landi? Við skulum heyra hina frábæru hljómsveit Bony M syngja þennan sálm. En Guð heyrði bænir fólksins í útlegðinni í Babýlon, svo óralangt frá Ísrael. Eftir um fimmtíu ár vann Kýros Persakonungur sigur yfir Nebúkanesar og hann vildi að fólkið sem var herleitt frá Ísrael færi aftur heim til sín. Það getur vel verið að gæska hans hafi verið runnin frá trúarbrögðum Zaraþústra sem var mikill trúarbragðahöfundur í Persíu. Sumt fólkið fór heim en sumt vildi vera eftir. En heima í Gyðingalandi hófst mikil endurreisn. En þessi dreifing Gyðinganna út í heiminn varð til þess að alls staðar risu upp samkomuhús Gyðinganna sem hittust þar í guðþjónustum og umræðum um daglegt líf sitt. Þau gátu ekki lengur fært fórnir í Jerúsalem og í staðinn lásu þau úr ritningunni sem varð að aðalatriði í trúarlífi þeirra í staðinn fyrir fórnirnar í musterinu heima í Jerúsalem. Þegar fólkið í hinni nýju hreyfingu Jesú fór eftir boðum hans og ferðaðist út um allan heiminn til að segja frá honum þá átti það aðgang að þessum samkomustöðum í fyrstu sem varð þeim gagnlegt. Kirkjan mótaðist. Rómverska ríkið varð henni til góðs með lögum sínum, vegasamgöngum og tungumálum, grísku og latínu, en til ills með ofsóknum sínum. En hin mikla kreppa ofsóknanna leystist þegar rómverska ríkið gaf öllum trúarbrögðum sama frelsið til að starfa og enn frekar þegar kristin trú varð ríkistrú í Rómaríki. Svo gerðist það sem engri lifandi manneskju hafði dottið í hug að nokkurn tíma gerðist. Annar hluti hins mikla Rómaríki féll. Allar stofnanir þess hrundu. Þá kom kirkjan til hjálpar og tók að sér bæði stjórnunarstörf og félagsstörf og líknarstörf sem rómverskir embættismenn höfðu sinnt áður. Og enn leið sagan með fögnuði og kreppum. Þegar víkingarnir komu úr norðri á löngum skipum sínum og rændu og ruppluðu og skildu eftir sig sviðna jörð komu kristnir munkar sem höfðu falið sig eftir föngum með dýrmæt handrit kirkjunnar, þeir komu fram og voru í fararbroddi bændanna við að yrkja jörðina á ný. Og þegar kirkjan komst í þá ógurlegu kreppu að fara að selja fyrirgefningu Guðs kom Lúter og vildi leiða hana til nýrrar guðfræði og þau sem fylgdu honum í nýja kirkju sáu nýja tíma. Konur fengu nýja sjálfsmynd og eftir um tvö hundruð ár, árið 1848, sameinuðust konur fyrstu kvennasamtökum veraldarinnar. Það voru konur sem voru aldar upp í mótmælendakirkjunum sem stofnuðu samtökin. Það voru líka konur úr mótmælendakirkjunum sem byrjuðu starf meðal sjúkra, fanga og vændiskvenna og seinna urðu þessi störf að atvinnugreinum. Úr þessum nýju mótmælendahópum kom líka Hjálpræðisherinn á 19. öldinni og vann mikilvægasta félagsstarf þeirrar aldar í fátækrahverfum Lundúna. Og á 20. öldinni urðu kvennasamtökin sem áttu upphaf sitt í mótmælendakirkjunni ein allra merkustu samtök aldarinnar. Þetta er allt framhald frelsunarsögu Gamla testamentisins og Nýja testamentisins. Við getum haldið áfram og rakið sögu síðustu aldar sem var framhald af byltingum nýliðinna alda og af báðum heimsstyrjöldunum. Engan hafði grunað að fyrri heimsstyrjöldin skylli á og það var alveg út í bláinn að það skyldi gerast. Og á eftir koma kreppan mikla árið 1929 sem er mesta kreppa frá því að kreppan núna skalla á. Það var sagt að þvílík kreppa yrði aldrei aftur, af því að ríki heimsins myndu fara varlegar en var gert þá. En samt gerðist það líka að á síðustu öld að mestu frelsistímar í sögu mannkynsins runnu upp með frelsi stórra þjóða eins og Kína, Indlands og Indónesíu og margra Afríkulanda og annarra landa. Nú er búin sagan sem ég æltaði að segja okkur og ég var að segja hana til að minna okkur á að kreppur hafa alltaf verið hluti af sögunni og kreppan sem skellur á okkur núna er það líka. Kreppur hafa alltaf leysts og þær hafa alltaf opnað augu fólks fyrir nýjum möguleikum. Og kreppan núna gerir það líka. Við skulum bara sjá. Við skulum biðja og sjá og treysta Guðí og treysta sjálfum okkur í trúnni á Guð. Saga Biblíunnar og kirkjunnar er frelsissaga Guðs. En saga heimsins er það líka. Ég held ekki að nein okkar treysti sér til að rekja frelsissögu Guðs núna eins og við getum rakið frelsissögu Guðs í atburðum Biblíunnar. Við getum samt staðhæft að Guð er alltaf með fólki sínu, í sögu heimsins alveg eins og sögu kirkjunnar og sögu Biblíunnar. Hvað segjum við núna á þessum erfiðu tímum? Hvað finnst þér? Hvað segir þú? Ég held að við segjum alveg það sama og við sögðum fyrir mánuði og fyrir ári og tíu árum. Við sögðum þá að við vildum vera vinkonur Guðs. Við vildum treysta henni og finna trausið á sjálfar okkur í trúnni á hana. Við segjum það líka núna. Það er sagt í kvennaguðfræðinni að Guð sem elskar okkur eigi engan hlut í þeim vondu viðburðum sem hrjá okkur, annan en þann að hafa skapað heiminn sem þetta gerist í og þau sem búa þar. Þess vegna getum við treyst henni til að hugga okkur og hjálpa okkur til að mæta erfiðleikunum. Hún átti engan þátt í þeim. Guð kýs ekki að beita valdi sínu nema í samvinnu við vinafólk sitt. Guð kýs að gera allt með okkur. Við eigum styrkinn í því að hún er vinkona okkar og hún á líka styrkinn í því að við erum vinkonur hennar. Við erum möguleikar hennar. Nýir og góðir hlutir gerast af því að við og hún vinnum saman. Í gær höfðum við málþing í stofunum okkar á Laugavegi með vinkonu okkar Karinu Danielsson sem skrifaði mastersritgerð um kvenmynd Guðs og áhrifin sem kvenmyndin hefur haft á konur í Kvennakirkjunni. Við hugleiddum það einu sinni enn hvað það hefur haft góð og nærandi og uppörvandi áhrif á okkur að hugsa og tala um Guð og við hana sem vinkonu okkar. Það hefur mótað sjálfsmynd okkar, gefið okkur snarpar hugmyndir, friðsælar hugsanir, reisnarlegt göngulag og hlýju í handtakið og augun og orðin. Við höldum áfram að vera vinkonur hennar. Hún heldur áfram að vera vinkona okkar. Alltaf. Við skulum ljúka þessari prédikun með því að hugsa til annarra kvenna sem eiga líka Guð sem vinkonu sína, og eru þá líka vinkonur okkar í sameiginlegri kristinni trú okkar. Nú les ég fyrir okkur kafla úr bók Kvennakirkjunnar, Vináttu Guðs, sem ég tók úr bók um vitnisburði suðuramerískra kvenna um kristna trú sína. Margar fátækar konur í stórborgum Suður-Ameríku hafa misst allt sem þær áttu. Þær misstu landið sem þær ræktuðu, skólana, tungumálið, sérstakan klæðaburð, börn og eiginmenn. Þjóðfélagsstöðu og skilninginn á sjálfum sér. En þær misstu hvorki kjarkinn né umhyggjuna. Kristnar konur biðja fyrir fjölskyldum sínum og líka fyrir öðrum fjölskyldum, þeim sem þjást af munaðarleysi og allsleysi. Þær eru ekki trúaðar vegna allsleysisins, þær hafa ekki flúið í faðm trúarinnar til að gefast upp. Þær trúa og lifa í trausti og hugrekki og bera umhyggju fyrir öllum sem þær megna að bera umhyggju fyrir. Sársaukinn opnar hjarta þeirra fyrir sársauka annarra. Þessi lífsreynsla gefur þeim nýja þekkingu á Guði, vegna þess að hún gefur þeim tilfinningu fyrir því að þær séu einhvers virði. Þær eru ekki lengur innilokaðar og einangraðar, þær vita og finna að þær tilheyra hver annarri. Þess vegna vekur fátæktin ogkvenfyrirlitningin ekki sjálfsmeðaumkun þeirra eða örvilnan heldur trúarstyrk. Þær tala um trúarglóðina, spirituality, sen umlykur hvert andartak hvers dags. Trúarglóðin er lífsmáti, vinátta við Jesúm. Hún er það að þora að finna til og þora að gefa. Og allra síðustu orðin okkar eru þessi: Það er lífsmáti að vera vinkona Guðs. Amen.