Kraftaverkin – stjörnur í augum

Jesúbarnið í jötunni kallar fram vellíðunartilfinningu hjá mörgum.  Það er birta í kringum það, því himneskt ljós lýsir á það og frá því, og skin frá stjörnunni.  Við fáum stundum stjörnur í augun því við minnumst gleðistunda í æsku, tilhlökkunar og ánægju.  Og við sjáum þessar tilfinningar hjá yngri kynslóðinni og jafnvel tekst okkur sjálfum að skapa með hjálp Guðs þessar góðu tilfinningar.  Við opnum hjörtu okkar fyrir kraftaverkum og meðtökum þau.  Guði er enginn hlutur um megn.  Það sjáum við og heyrum í jólaguðspjallinu.  Og það á einnig við í dag.  En partur af því hvers vegna við fáum stjörnur í augun er að Jesús breytir lífum fólks til hins betra, það lesum við m.a. um í guðspjöllunum.  Allt þetta góða sem Jesús gerði fyrir fólk.  Það er dásamlegt.  Og Guð færir einnig birtu og kraftaverk inn í líf okkar.  Sérð þú skinið frá stjörnunni sem lýsir þína leið?