bibliaJóhannes 6. 1 – 15

Hádegismatur í grasinu

Það getur líka vel verið að þetta hafi verið kvöldverður. Alla vega var það ævintýri. Boð hjá Jesú, brauð og fiskur, allt komið úr nestinu sem mamman sendi strákinn sinn með til vonar og vara. Alveg eins og hjá okkur á góðum fundum um málefni Guðs, þeir verða svo miklu betri með góðum veitingum. Nú notar Jesús máttinn sem hann vissi að hann átti og hugsaði um á fjörutíu dögunum í eyðimörkinni en vildi ekki nota þá. En notaði í brúðkaupinu í Kana. Og átti eftir að nota oftar. Af því þess þurfti. Það var nauðsynlegt og gaf svo mikla gleði. Hann vissi að fólk myndi vilja færa sér þetta í nyt, þjóðnýta hann og festa sér yfirráð yfir honum. En hann var ekki kominn til þess. Hann var kominn til að breyta hugarfari og hegðun. Svo að fólk veraldarinnar fengi kærleikann til að sjá að það gat sjálft gefið öllum heiminum brauð. Og það er líka markmiðið núna að við breytum um hugarfar og tökum að okkur verkin sem Guð þarf að láta vinna. Og það verður alltaf. Þangað til Jesús kemur aftur og gerir allt nýtt.

Skýringar Kvennakirkjunnar við Jóhannesaguðspjall munu smátt og smátt birtast hér (smellið á línuna)