SusanaAð vera búin að kaupa allar jólagjafir og baka og hafa hreina glugga áður en ég skreyti þá. Sem sagt að hafa allt á hreinu og hafa aðventuna fyrir mig og fara á tónleika og gera það sem mér var huglægast. Jú, jú, svolítil sjálfselska, það má líka.

En við tökum á móti dögunum sem koma, þeir koma bara, og við fáum engu breytt um hvað þeir boða, þeir eru bara misgóðir og misbjartir og sumir boða sorg, við sköpum ekki þá reynslu sem dagarnir koma með, við göngum í gegn um hana, þeir spyrja ekki hvað við viljum.
En manni finnst að þessi tími eigi að vera án áfalla. Við stöndum frammi fyrir því hvað við erum lítil, þegar sorglegir atburðir koma, og þegar veikindi verða hjá okkar nánustu og þeim sem manni þykir vænt um þá verðum viðdöpur og áhyggjufull. En þetta má ekki, ég veit að Guð hefur bannað það að hafa áhyggjur og depurð, hún er búin að segja „ég skal taka þínar áhyggjur og verð alltaf með þér, sama hvað sem er að gerast hjá þér“. Svo ég hef sett þetta allt í hennar hendur, þess vegna ætla ég að einblína á ljósið sem er framundan, með tilhlökkun til aðventunnar, og þegar ljósið kemur til okkar.

Þökk fyrir jólin elsku Guð og kærleikann sem umvefur okkur í þínu ljósi með fjölskyldum okkar og vinum, megi nýja árið vera á þínum vegum svo við megum þjóna þér og samferðafólki okkar í kærleika þínum.

Súsanna Kristinsdóttir