Við skulum blaða í nýju bókinni okkar Göngum í hús Guðs.  Hún er til nota fyrir sjálfar okkur og þau sem vilja nota hana á einhvern hátt eftir sínum óskum.  Þar er margt af því sem við höfum flutt í guðþjónustum okkar og höldum áfram að flytja.  Við höfum inngangsorð um messuna og skrifum um messuformin sem við notum og svo koma kaflar einn eftir annan um það sem við flytjum í messunum.  
Þetta er einn af upphafssálmunum og er eftir Sigríði Magnúsdóttur en lagið er  eftir Gunnar Persson í útlöndum:
Í gleði Guðs geng ég nú glaðsinna inn,
ó, hve gott er að fagna með þér. 
Hérna finn ég þann frið sem oft fjarlægur er
og ég finn að þú samgleðst með mér.
Og gott er að ganga hér inn því gleði og vináttu finn.
Hérna finn ég þann frið sem oft fjarlægur er
Og ég finn að þú samgleðst með mér.
Næst í bókinni eru orð í upphafi guðþjónustunnar.  Þessi eru úr bókinni No Longer Strangers sem kom út hjá Lúterska heimssambandinu og fleirum árið 1983 og við höfum metið mikils:
Verum innilega velkomnar til að njóta vináttu Guðs og vináttu hver annarrar og hlusta á fagnaðarerindið sem gerir líf okkar yndislegt.  Hvers vegna komum við?
Til að minnast þess hvað ritningin segir okkur um hjálp Guðs.
Til að finna og gleðjast yfir nærveru Guðs í hversdegi okkar.
Til að leggja dýpsta ótta okkar,  gleði og vonir fyrir Guð.
Til að hafa kjark til að sjá að við eigum heilaga nærveru Guðs
í venjulegum atburðum lífsins.
Til að þakka Guði ástina í náðinni sem hún sýnir okkur í Jesú Kristi.
Blíðar kveðjur,  Auður Eir