Dagleg trú

Guð gefur okkur trúna og talar um hana við okkur í Biblíunni og daglegu lífi okkar.  Trúin er vinátta Guðs og okkar.  Í trúnni gefur Guð okkar náðina.  Og náðin umlykur okkur og fyllir hjarta okkar án þess að við gerum nokkurn skapaðan hlutt.  Við tökum bara á móti henni.  Eins og sumarfötunum sem við drögum fram úr skápum eða búðum og gera okkur svo fallegar.  Og eins og kaffinu eða gulrótarsafanum sem við drekkum og streymir um okkur og lætur okkur líða svo vel, þótt við vitum ekki hvernig það gerist.

Einu sinni sendi Margrét Jónsdóttir kvennakirkjukona og leirlistakona á Akureyri þetta til Kvennakirkjunnar:

Ung kona var í heimsókn hjá móður sinni og drakk íste til þess að  kæla sig í mesta sumarhitanum.Um leið og þær töluðu um lífið, hjónabandið, ábyrgðina og skuldbindingar fullorðinsáranna hristi móðirin  klakamolana í glasi sínu svo að telaufið þyrlaðist upp og leit hreinskilnislega  á dóttur sína: „Gleymdu ekki systrum þínum, þær verða því  mikilvægari sem þú eldist. Einu gildir hversu mikið þú elskar manninn þinn eða börnin sem þú kannt að eignast, þú munt alltaf þarfnast systra.

 

Stundum þegar mér finnst ýmislegt of órólegt í einhverjum hópum sem ég er með í segi ég:  Ég geng í klaustur. Og meina að það er best að leita að smá næði.  Það bregst varla að margar í hópnum vilja líka ganga í klaustur og sumar vilja vera lengi.    Við hugsum alvarlega um að verða okkur út um næði við og við.  Það er hins vegar ekki auðhlaupið frá öllu og inn í klaustur, betra að setja upp smá klaustur heima hjá okkur. Við getum fengið okkur næðisdaga þótt við höldum öllu áfram sem við erum að gera, heimilishaldinu og vinnunni og öllu öðru.  Það er allt í lagi þótt hitt fólkið í klaustrinu gangi í sínum takti og hafi ekki hugmynd um að það er í klaustri.  Gáum hvort þetta er ekki afbragðs hugmynd og auðveld í notkun.  Blíðar kveðjur,  Auður Eir

Við ætlum að halda námskeið í haust um leiðtogamenntun á grundvelli Fjallræðunnar. Það stendur til dæmis þar að við skulum æfa okkur í að vera með öðru fólki. Lesum orð um þetta frá Margaret Wheatley sem var hér í júní á vegum Þjónandi forystu. Hún segir að flest fólk sem hún þekkir vilji vera í betra sambandi við annað fólk. Það er sagt að við verðum að sýna sjálfsöryggi og vinna hratt. En það er miklu betra fyrir okkur að gefa okkur tíma til að tala saman og hlusta á ólíkar skoðanir hvert annars. Við víkkum okkar eigin skoðanir og komumst í samband við fólk sem við héldum að við skildum ekkert í, segir Margaret Wheatley. Blíðar kveðjur, Auður Eir