Það er alltaf ráðlagt að huga að hugsunum okkar og líðan og ekki síst nú á föstunni.  Þá hugum við meira en aðra daga að lífi Jesú á dögum hans á leið til Jerúsalem, krossfestingarinnar og upprisunnar.  Hann mætti því sem var óhjákvæmilegt, gekk í gegnum það að sigraði það.
Við erum hvattar til að hugsa um það sem hefur verið okkur erfitt á okkar eigin lífsgöngu og sjá að eins og Jesús sigraði býður hann okkur að sigra.  Hann býður okkur huggun og styrk og hugrekki og gleði til að halda áfram.
Jesús sagði við lamaða manninn að hann skyldi taka sæng sína og ganga.  Mér finns það geta þýtt fyrir okkur að við skulum taka að okkur vandamál okkar og gera þau viðráðanleg og halda áfram.   Við höldum áfram að vita af mótlætinu en það ræður ekki ferðinni heldur ráðum við sjálfar.
Jesús sagði líka að við skyldum hrista rykið af fótum okkar. Við skulum skilja mótlætið eftir og hugsa ekki meira um það.
Jesús býður okkur ýmsar lausnir.  Af því að lífið er ýmiskonar og við mætum því á ýmsan hátt.  Hann býður okkur alltafað vera hjá okkur og gefa okkur allt sem við þurfum.
Það er mesta lífshamingja okkar og undirstaða allrar hamingju að vita það.
Blíðar kveðjur,  Auður