Upplýsingar

Til hamingju með daginn – þetta er dásamlegur dagur og þakklæti okkar til þeirra sem börðust fyrir kosningarétti okkar fyrir 100 árum er mikið og fallegt og sjálfsagt.

Síðan hefur svo margt gerst að allt er orðið nýtt.   Þess vegna geta fleiri nýir hlutir gerst, þeir sem verða að gerast.  Konur eru allsstaðar í stjórn og áhrifum og framkvæmdum.  Þær hafa þekkingu og menntun til að leysa flóknustu mál og stýra mikilfenglegum verkefnum.  Við sem erum í hógværari verkum þurfum að styðja þær – þær þurfa að eiga okkur sem bakland, þær þurfa að finna að við treystum þeim og dáumst að þeim.  Af því að það er erfitt að stjórna og ábyrgðarmikið að taka ákvarðanir fyrir annað fólk.  Við megum allar þakka fyrir konurnar sem eru komnar í forystu.

Og þær mega þakka fyrir okkur, hugsanir okkar og hugrekki.   Það veitir ekki af.  Því nú þurfum við að gera eitthvað allar saman.  Og eins gott að taka þennan merka dag til að taka nýjar ákvarðanir um nýjar framkvæmdir.

Konurnar fyrir 100 árum sáu hvað þurfti að gera og gerðu það bara.  Þær fengu konur og menn til að drífa í því.  Það tók langan tíma.   En það varð.  Af því að  það var auðséð hvað þurfti að gera.   Við urðum að fá kosningarétt.

Það er eitthvað mikilvægt sem við þurfum núna.   Það er bara verst að við vitum ekki almennilega hvað það er.  Samt heyrast raddir um það og þær eru orðnar sífelldar, að ég ekki segi síbylja.  Við þurfum betra þjóðfélag, betri  atvinnuvegi, betra Alþingi,  betra skólakerfi, betra heilbrigðiskerfi og betra velferðarkerfi.  Ég les um það í blöðunum á hverjum einasta morgni – og þú lest það líklega þar eða annars staðar og heyrir það út um allt .  Og kannski ertu orðin jafn leið á því og ég.

En það þarf samt að segja það.  Og við verðum að hlusta á þessar raddir sem gefast ekki upp þótt sumum okkar finnist þær leiðinlegar.  Nú skulum við taka þær að okkur og gera eitthvað róttækt eins og þær gerðu hinar merku konur fyrir 100 árum.

Ég dríf mig bara í að koma með tillögu.

Hún er svona:  Við þurfum raunsæi.  Við þurfum bjartsýni.  Við þurfum vináttu.

Þetta er fólgið í einni setningu:  Við þurfum að endurlífga kristna trú okkar.

Það er obbólítið talað um trú núna, en ekki nærri eins mikið og um allt sem okkur vantar í þjóðfélagið.  Það er samt miklu frekar talað um andleg mál en trú.  Það er frekar sagt að við þurfum að líta upp úr endemis kapítalísmanum og rækja andann.

Ný trúarbrögð koma inn til okkar og lífsskoðanir fá byr undir vængi.  Ég fór til útlanda og sá að hillur í bókabúðum sem voru einu sinni fullar af kvennaguðfræði og svo af bókum um stjórnun og ýmsu eru núna fullar af bókum um trúarbrögð og lífsstefnur.    Það er bæði samstaða og samkeppni fyrir kristna trú. Það hefur alltaf verið.   Hugsaðu þér bara hvað kristin trú þurfti að berjast við þegar hún kom fram – eða siðbótin þegar hún varð.

Og nú ætla ég að segja  það.  Af því ég held að það þurfi að segja það –  þótt það sé kannski ókurteist.

Það verður að segja það.  Það er þetta:  Við kristnar konur sem eigum fyrirmynd kristinna kvenna sem börðust fyrir kosningarétti og jafnrétti um öll Vesturlönd fyrir 100 árum , því það voru kristnar konr í meiri hluta, erum orðnar grautlinar í baráttunni fyrir okkar eigin kristnu trú.   Ætti ég kannski að velja annað kurteislegra orð en grautlinar ?   Ég er ekki vön að nota svona  orð – en ég geri það samt – af því ég held það sé gagnlegt fyrir okkur kristnar konur á Klambratúni í kvöld ef okkar auðnast að móðga hver aðra.

Við blððrum um hvað það sé fínt að stunda íhugun og vaxa í andanum.  Við kvökum vesældarlega um önnur trúarbrögð og lífsstefnur án þess að vita hvað við erum að tala um.   Er þetta ekki gagnleg ókurteist og móðgandi ?  Við hjölum svona í staðinn fyrir að segja af heilum hug að við metum og virðum og þökkum allt gott sem er sagt í trúarbrögðum og heimspeki og getum opnað huga okkar fyrir því vegna þess að hjarta okkar á örugga og bjargfasta kristna trú.   Við þekkjum kristna trú og vitum um mátt hennar.  Við getum metið allt og virt af því að við vitum að kristin trú er trúin sem við erum kallaðar til að eiga og lifa og njóta og boða.  Hún á ráðin sem við þurfum og öll veröldin þarfnast.

Kristin trú er trú á Krist – annars er hún ekki kristin trú.  Daphne Hampson sem kom hingað frá Bretlandi og flutti frábæran fyrirlestur segir í einni bók sinni að hún sé hætt að vera kristin.  Ég trúi því ekki að Guð hafi bara kallað eina þjóð, Ísrael, heldur allar þjóðir.    Ég trúi því ekki að Guð hafi bara kallað einn mann,  Jesúm, heldur alla menn.  Þess vegna er ég ekki kristin.  Sægur af konum trúir eins og ég  – en  þær vita ekki að þær eru ekki kristnar.  Ég veit þetta bara af því að ég er guðfræðingur, skrifar Dapne Hampson.

Hún veit og játar að kristin trú er trú á Jesúm Krist frelsara okkar sem er Guð sem kom til okkar.  Jesús dó eins og allt fólk – en reis upp frá dauðum sem engin önnur manneskja hafði gert og engin gerir án Krists.    Í Kvennakirkjunni tölum við sem viljum um Guð sem vinkonu okkar.   Þegar við deyjum tekur hún okkur til sín.  Og einhvern tíma kemur hún og gerir allt nýtt.

Þetta er kristin trú.  Hún er grundvölluð á Biblíunni – meitluð í kenningu fyrstu aldanna og boðuð í starfi kirkjunnar í 2000 ár.  Hún er Biblían, kenningin og kirkjan – en ef hún væri ekkert annað væri hún ekkert.  Hún ER af því að hún er trúin á Jesúm Krist frelsara okkar – sem er Guð sem kom.   Hún þarfnast okkar til að leysa mál veraldarinnar og endurnýja þau.  Þess vegn hafa konur farið til hennar fyrr og síðar og fengið nýjar hugmyndir til að gera allt nýtt.  Þess vegna fengum við kosningarétt fyrir 100 árum.

Þess vegna skulum við setja strik í umhugsun okkar og samtal í kvöld.  Við sem erum hérna á Klambratúni.  Við skulum sameinast um að setja traust okkar til kristinnar trúar okkar.   Við skulum taka ráð siðbótarinnar, snúa okkur til Biblíunnar, hittast í litlum hópum til að lesa og biðja og syngja sálma og uppörvast í kristinni trú okkar.   Ef þú kærir þig ekkert um það geturðu tekið á móti því sem þessir hópar setja á síðurnar sínar á vefnum.  Kvennakirkjan sendir frá sér biblíulestra á sinni siðu.  Við erum allar velkomnar í Kvennakirkjuna og þar ráðum við allar saman og hjálpum hver annarri að gera sjálfar okkur nýjar.  Í framhaldi af því getum við gert ýmislegt nýtt sem þarf að gera nýtt.  Komdu og vertu með okkur eða finndu aðra hópa þar sem þú getur styrkst og glaðst í kristinni trú þinni.  Það er nóg af þeim alls staðar í kirkjunni.  Eða fylgstu með skilaboðum, eða lestu Biblíuna eins og þú vilt.

Þegar ég heyrði kanadíska þjóðsönginn , sem margt íslenskt fólk á sem þjóðsöng sinn, varð ég gagntekin af síðustu orðunum:  O, Canada, o Canada, we stand on guard for thee.

Ó, Kanada. ó Kanada, við stöndum vörð um þig.

Guð varðveitir land okkar dýrlegt og frjálst

Ó, Kanada, ó Kanada. við stöndum vörð um þig.

Þetta megum við syngja um kristna trú okkar:

Guð varðveitir hana dýrlega og frjálsa

og við stöndum vörð um hana.

Guð blessar okkur, amen