Upplýsingar

Í fyrsta kafla Markúsarguðspjalls er sagt frá skírn Jesú í ánni Jórdan, og rödd Guðs hljómaði:  Þetta er maðurinn sem ég hef útvalið.

Verum þar sem er talað um Orðið – verum í okkar eigin Kvennakirkju

Gleðilegt ár góðu vinkonur og Guð geymir okkur á þessu ári sem öðrum.  Ég ætla bara að byrja á að segja okkur eina sögu.  Hún er svona:

Það voru amerísk hjón á ferð í Jerúsalem og konan varð bráðkvödd.  Yfirvöldin buðu manninum grafreit í borginni.  Það kostaði bara hundrað dollara.  En þúsund að flytja hana heim.  Nei, sagði maðurinn, ég ætla samt að flytja hana heim.  En af hverju? Það er svo dýrt og hér er heilög jörð, sögðu yfirvöldin.  Og maðurinn sagði:   Ég flyt hana samt heim.  Af því að ég hef heyrt að maður sem var  jarðaður hérna fyrir tvö þúsund árum hafi lifnað við aftur.

Nú máttu rétt spyrja hvaða erindi þessi saga eigi inn í þessa fyrstu predikun ársins sem er við hæfi að hafa ögn settlega.  Og það skal ég segja þér.  Hún á það aleina erindi að eiga ekkert erindi og vera alveg ópassandi og út í bláinn.  Það var nefnilega rétt fyrir jólin að ein af okkur sagði við mig þegar ég var að segja eitthvað í samtali sem við áttum nokkrar, hún sagði sisona:  Ég skil ekki hvaða húmor þetta á inn í samtalið.  Ég sá að þetta var alveg rétt hjá henni og ákvað á staðnum að steinhætta að koma inn með svona innslög sem eru út í bláinn.  Ég ákvað líka daginn eftir að hætta að leggja frá mér ýmsa hluti  hér og hvar og eiga svo í bagsi við að finna þá aftur.

Og þetta á það erindi í predikunina að spyrja þig hvort þú hafir gert einhver áramótaheit og segja þér að ég voni innilega að þau séu eitthvað í þessum dúr en ekki svo róttæk að þau breyti þér til muna.

Ég ætla nefnilega að segja tvennt og setja sitt í hvora hendi okkar til að fara með heim.  Ég ætla að setja  í hægri hendi okkar alveg taumlausa gleði yfir að eiga kristna trú.   Og í vinstri hendina setjum við jafn undursamlega gleði yfir að vera þær sem við erum.  Þú ert yndisleg manneskja.  Vertu nú svo væn að halda áfram að vera eins og þú ert.  Þú ert vinkona Guðs, mild og máttug, hugrökk og skemmtileg.

Um það sem við höfum í hægri hendinni, gleðina yfir trú okkar, er það að segja að hún er vinátta Guðs við okkur.  Hún er gjöfin sem hún gefur okkur til að lifa lífinu.  Það er alltaf verið að bjóða okkur ýmislegt til að gleðja okkur, hrukkukrem og grænmetispressur og jóga og íhugun gegn kvíða.  Það er dásamlegt og okkur veitir ekki af að ná tökum á öllu sem við getum.  Því við höfum engin tök á sumu.  Við erum að minnast snjóflóðsins í Súðavík og við horfumst í augu við ógnir hryðjuverka sem einn dag geta gerst hér.  Við megum þá minnast þess að Guð sendir alltaf fólk til að vaka.  Það var fólk sem endurmat varnarviðbrögðin í Súðavík.  Og það er fólk sem stendur gegn hryðjuverkunum.

Veröldin er dýpri en daglegt líf okkar.  En hún er samt daglegt líf okkar.  Og það er þar sem við stöndum saman og hjálpumst að við að sjá bæði dýptina í ógnunum og gleði hversdagsins.  Við sem erum hérna í dag stöndum saman í trú okkar.  Þess vegna hittumst við – aftur og aftur – til að tala við Guð og hlusta á það sem hún segir.

Við höfum bundist sammælum um að leita til Guðs um ráð og styrk.  Og nú ætla ég að segja okkur alvörusögur.

Við höfum um jólin heyrt úr guðspjöllunum þegar Jesús fæddist og flýði undan ofsóknum með foreldrum sínum til Egyptalands og kom aftur.  Þá er sagt frá því þegar hann var 12 ára í musterinu og svo þegar hann vildi skírast hjá Jóhannesi og svo þegar hann fór út í óbyggðina og svo þegar hann gaf sig fram og sagðist vera sá sem öll Ritningin sagði að myndi koma.  Nú var hann kominn og hann byrjaði að starfa, kalla samstarfsfólk, predika og fyrirgefa syndir.  Þetta skulum við lesa um í fyrstu köflum guðspjallanna.   Lesum þetta heima.

Og tökum til okkar ráðin úr þessum köflum:

Við skulum vera í húsi Guðs.  Heima hjá okkur og hérna og annars staðar.  Við skulum vera hjá Guði.

Við skulum treysta gjöfunum sem við fengum í skírninni, það er að fá að vera vinkonur Guðs.

Við skulum sjá hvað við erum að glíma við eins og Jesús gerði í eyðimörkinni.

Við skulum sjá að Guð hefur fyrirgefið og hjálpar okkur til að ráða við okkur.  Hún hjálpar okkur til að hugsa bæði um hversdaginn og djúpar spurningar veraldarinnar.  Við megum vinna með henni og það er þar sem málin leysast.

Hittumst og biðjum og syngjum og treystum.  Hjálpum hver annarri til að hugsa og lifa.

Hvað segirðu um þetta?

Amen