Upplýsingar

Gleðin í hversdeginum

Við ætlum að tala um gleðina í hversdeginum.  Alveg eins og við gerum alltaf í hverri messu, bara frá ýmsum sjónarmiðum.  Einfaldlega af því að mest af lífi okkar er hversdagslegt og venjulegt.  Stundum verða stórviðburðir sem eru svo skemmtilegir.  Stundum verða atburðir sem eru svo erfiðir að okkur finnst allt snúast við og við vitum ekki hvernig við eigum að mæta þeim.  En líka það er hluti af venjulegu lífi okkar.  Það verður alltaf eitthvað óvænt sem gerist bæði gott og erfitt.  Ég held að einmitt þess vegna sé svo gott að eiga venjulegu dagana.  Það sem við gerum þá hjálpar okkur til að mæta því sem er erfitt og það sem er gott og óvenjulegt ljómar um hversdagana.  Eða hvað finnst þér?

Ég skrifaði í Fréttabréfið okkar um gömlu frönsku hjónin sem sátu úti á gangstéttinni fyrir framan húsið sitt í litlu þorpi í Elsass.  Þau höfðu tekið stólana sína út og lítið borð og sátu í síðdegissólinni og dreyptu á rauðvíni og horfðu á umferðina.  Það var skrifað um þau í kirkjublaðinu.  Komdu og sestu hérna hjá mér, sagði maðurinn við konuna sína, þú átt það alveg skilið.  Ljómandi boðskapur.  Við eigum líka alveg skilið að tylla okkur og horfa á lífið í kringum okkur til uppörvunar og skemmtunar.  Við eigum það skilið á hverjum einasta degi.  Og við skulum taka tilboðinu.

Það þarf oft svo lítið til að gleðja okkur.  Bara smáatriði, kaffibollann, símtal, tiltekt, eitthvað sem við komum í verk, í vinnunni eða heima.  Eitthvað sem við finnum að við getum glatt okkur yfir, frá fyrri tíma eða vikunni sem leið eða deginum í gær eða dag.  Það er svo margt að gleðjast yfir.  Gáum að því og njótum þess.

Textinn sem við heyrðum áðan var um liljur vallarins og fugla himinsins.  Hann er úr Fjallræðunni,  versum 25 til 30 í 6. kafla Matteusar.  Þau gerðu ekki nokkurn skapaðan hluti, hvorki fuglarnir né liljurnar.  En Guð sá um allt sem þau þurftu.

Ekki held ég nú að þetta þýði að við skyldum ekki hafa okkur allar við til að sjá fyrir okkur og okkar fólki í öllu sem að okkur snýr.   Það þýðir ekki að við skulum ekki gera það sem þarf að gera í dagsins venjulegu og sérstöku viðburðum.   Við bökum eða kaupum kökur fyrir afmælin og setjum sæmilega viðeigandi föt í töskur fyrir ferðir okkar.  Og við leggum okkur fram við að standa okkur í mótlætinu alveg þangað til að birtir aftur til.

Ég held að þetta þýði að við skulum láta alla venjulega daga hafa sínar óviðjafnanlegu gleðistundir.  Og alla sérstaka gleðidaga vera mikla daga.  Og alla erfiða daga hafa samt stundir til að hvílast og efla vonina.

Af því að allir dagar okkar eru dagar með Guði.  Henni sem er vinkona okkar og sleppir aldrei af okkur hendinni og tekur aldrei af okkur augun.  Það er hún sem hvetur okkur til að nota lífið til blessunar.  Hún hefur beðið okkur að vinna með sér og við höfum lofað henni því og þakkað henni fyrir að vera með okkur í því.  Það er hún sem gefur okkur dagana.  Og alla möguleikana til að gera þá ekki bara góða heldur bráðgóða – þá sem við getum – og hún heitir okkur því að koma okkur í gegnum hina sem við ráðum ekki við nema með henni.  Við getum nefnilega allt með henni.

Guð blessar okkur.  Amen.