Gleðilega aðventan

Ég fór að hlusta á Margréti Bóasdóttur söngmálastjóra kirkjunnar segja frá jólasálmum í ýmsum löndum.  Það kom fram að hér væru aðventusálmar mun stillilegri í gleðinni en í ýmsum öðrum löndum.

Hvað segirðu um það?  Kannski bara.  En það er alveg óþarfi og við skulum alla vega vera glaðlegar bæði í aðventumessunni og öllu öðru. Þó það nú væri enda erum við jafnan glaðlegar í fasi og huga.  Eða finnst þér það ekki líka?

Við vitum mætvel að aðventan er tími tilhlökkunarinnar.  Við hlökkum til jólanna og hvað sem hver segir um amstrið og hégómann er þetta yndislegur tími og við getum hagað amstrinu eins og við viljum og við þurfum ekki að hafa nokkurn hégóma hjá okkur.   Hlökkum bara til.

Enda eigum við það undursamlega tilhlökkunarefni að heyra fagnaðarerindið um að Guð er komin til okkar og orðin ein af okkur en enn yndislegri og trúfastari en við.  Hún kom til að gefa okkur gleði og frið, létta af okkur fáránlegum hugsunum og gera okkur bjartsýnar og glaðværar, þrautseigar og þolinmóðar og allt sem við þurfum í mismunandi dögunum.  Við treystum henni og gleðjumst í hjarta okkar og verðun okkur og öðrum til góðs.

Blíðar kveðjur, Auður

By |30 nóvember 2016 20:47|Dagleg trú|

Traustið og hvíldin í trúnni

Við styrkjum hver aðra í trú okkar svo að við finnum alltaf að trúin er raunveruleiki daganna.  Það er yndislegt eins og við allar vitum og gerir dagana einn eftir annan að góðum dögum.

Erfiðir dagar verða líka góðir í hjálpinni sem Guð gefur okkur. Það er mikil gjöf að komast í gegnum erfiðleika, það sem er óvænt og það sem við vildum að gerðist ekki.  Við vitum af reynslunni að það gerist alltaf eitthvað í þá áttina við og við. Þeim mun gleðilegra er að eiga friðsama daga og skemmtilega daga og daga sem færa okkur óvænta gleði.

Við hittumst í Þingholtsstræti á hverjum mánudegi og tölum um trú okkar.  Eitt skiptið bað ég þær í hópnum að segja hvernig þær lýstu trú sinni.  Þær sögðu:

Traust.  Hvíld.  Vissan um að Guð er með okkur og vinnur með okkur.  Hún heyrir bænir okkar og við sjáum það strax eða seinna.   Það er að taka eftir bænheyrslum án þess að heimta að þær verði eins og við viljum.  Það er að vera opnar fyrir anda Guðs og laða að okkur það sem er gott.  Það er að hugsa ekki neikvæðar hugsanir heldur jákvæðar.  Það er að láta trúna koma fram í því sem við gerum.

Það er að sjá að Guð er með okkur í öllum samskiptum okkar við annað fólk, góðum og flóknum.  Það er að sjá hvað það er yndislegt að það er nóg í trú okkar að eiga Guð.  Það er að sjá aðGuð er alltaf að skapa.  Hún brallar svo, eins og Steinunn okkar Pálsdóttir segir.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |9 nóvember 2016 15:57|Dagleg trú|

Það sem við hugsuðum við Þvottalaugarnir í Laugardalnum

Þegar við hittumst við Þvottalaugarnar í Laugardalnum vorum við í grónum og friðsælum garði. Garðurinn er líka svið merkilegrar sögu og kraftar náttúraflanna ólga undir. Hér er svið atvinnusögu kvenna, um dugnað og þrautseigju. Þær komu hingað með þungar byrðar og vinnan var erfið og hættuleg. Aðstæður voru einstakar og við sjáum fyrir okkur að stundirnar hafi líka verið góðar og samstaða og vinátta á milli kvennanna.

Leyndarmál lífsgæðanna eru í samskiptum okkar hver við aðra, í skilningi og samstöðu. Sýnt hefur verið að hamingja fólks vex með góðum samskiptum. Hamingjan mælist mest þegar fólk fæst við eitthvað sem skiptir það verulega miklu máli, eitthvað sem hefur merkingu og tilgang.

Með bestu kveðjum,  Sigrún Gunnarsdóttir

By |14 október 2016 20:19|Dagleg trú|

Enn meira af ráðningarsamningnum í Guðsríkinu

Njóttu þess sem þú gerir og gerðu það vel

Guðsríkið er í daglegu lífi þínu.

Láttu þér þykja vænt um fólk

Guð elskar þetta fólk og vill að fyrirtækið sýni það.

Úr bók Kvennakirkjunnar: Vertu leiðtogi í þínu eigin lífi.  Með blíðum kveðjum,  Auður Eir

By |10 október 2016 20:18|Dagleg trú|

Við vitum hvert við ætlum

Við vitum hvert við ætlum og hvað við ætlum að gera. Ákveðum hvað fær að vaxa í okkar eigin garði. Gerum það upp við okkur hvað við leggjum rækt við, hvað við reynum að þroska og efla innra með okkur til að eiga frjósaman og fallegan garð, garð okkar eigin huga. Sjáum tækifærin í aðstæðum okkar og lifum lífinu núna, því það er best.

Með bestu kveðjum,  Sigrún Gunnarsdóttir

By |6 október 2016 20:17|Dagleg trú|

Samsonarsagan er aldeilis saga handa okkur

Svona saga eins og sagan um Samson er til að hjálpa. Hún segir. Svona fór fyrir honum. Hann gleymdi sér. Hann hélt að hann ætti mátt sinn og réði honum. Hann gleymdi Guði.

Láttu það ekki henda þig. Það eigum við að læra. Þú hefur tíma til að breyta á annan hátt.

Nú skalt þú skoða þinn gang, ekki leggja það á þig að bera allt sjálfur eða sjálf. Guð er hvort sem er sá sem ræður og ræður við allt. Leggðu þig í hans hönd.

Þessar sögur, sem eru fleiri í Biblíunni, eru af breysku, venjulegu fólki , eins og okkur, fólki sem Guð ann.

Þær eru sagðar til að gefa kjark og minna á að það er aldrei of seint að snúa við á brautinni, fyrirgefa í stað þess að hata, grafa sárindi en byggja upp í staðinn.

Það er tími til að vera sú manneskja sem Guð ætlaði.

 

Með bestu kveðjum,  Dalla Þórðardóttir

By |2 október 2016 20:16|Dagleg trú|

Meira um ráðningarsaminginn í Guðsríkinu

Fyrirgefðu þér allt, smátt og stórt.

Guð hefur fyrirgefið þér svo þetta er öruggt.

Leiðréttu það sem þú getur

Guð gefur þér kjarkinn og kærleikann til þess.

Úr bók Kvennakirkjunnar: Vertu leiðtogi í þínu eigin lífi.  Með blíðum kveðjum,  Auður Eir

 

By |28 september 2016 20:15|Dagleg trú|

Njótum samveru og styrkjum þau sem við erum með

Gerum okkur grein fyrir hverjum við tilheyrum. Tökum ákvörðun um hverjum við viljum tilheyra. Njótum þess sem samvera okkar við aðra gefur og njótum að gefa af sjálfum okkur í samtali við aðra. Styrkjum aðra með framkomu okkar, leitum til annarra og tökum á móti styrk þeirra.

Með bestu kveðjum,  Sigrún Gunnarsdóttir

 

By |24 september 2016 20:14|Dagleg trú|

Hápunkturinn í Samsonarsögunni !

Eftir mörg ár í dýflissunni er náð í Samson. Filistar héldu mikla sigurhátíð og létu færa sér hann til að hæða hann,  blindan en með hármakka. Og þá ákallar hann Guð,  segir  ” minnstu mín í þetta eina skipti”.    Hann fálmar í burðarsúlurnar, neytir allra krafta   –   og þær gefa eftir !!!    Þakið, sem er þéttsetið fólki fellur og á alla veislugesti, mörg þúsund manns, sem þar lifa sinn síðasta dag.

Bestu kveðjur,  Dalla Þórðardóttir

By |21 september 2016 20:14|Dagleg trú|

Það sem við erum alltaf að segja

Já, nú erum við að skrifa bókina sem við einu sinni ákváðum að skrifa:  Kaffihús vinkvenna Guðs.  Við erum að skrifa um fyrirgefninguna sem er  aðalboðskapur bókarinnar.

Þess vegna er það þegar ég kem á ýmsa staði innan um fólk að mér dettur í hug hvort þetta fólk sé eitthvað að hugsa um það sem við erum að tala um og skrifa.  Ætli þau séu stundum að hugsa um syndina sem er fyrirgefin?  Ég bara veit það ekki.

Ætli við séum kannski bara að tala út í bláinn og ættum frekar að tala öðru vísi, segja annað og segja það á annan hátt?

Það getur bara verið.  Við gerum það líka.  Við tölum um gleðina yfir að vera til og möguleikana til að gera dagana frábæra og gefum gullin ráð úr orðum Biblíunnar:  Hættu nú að dæma annað fólk og sjálfa þig.  En gerðu þér grein fyrir því sem er um að ske. Vertu ekki að fylla hjarta þitt af furðulegum hugmyndum en hafðu nóg rúm þar fyrir það sem er gott og gleðilegt.  Sjáðu hvað þú átt margt í dögunum núna og í minningunum.  Njóttu þess og notaðu.

Þetta segjum við og svo margt fleira í öllum guðþjónustunum og á námskeiðunum og í bókunum okkar.  Þetta er guðfræðin okkar og miklu dýpri en heillaráð til sjálfshjálpar sem eru samt frábær og við notum sjálfar í guðfræði okkar.  Hún er alltaf, hvað sem hún fjallar um, fagnaðarerindið um fyrirgefninguna.  Fyrirgefning Guðs er stórkostlegasta gjöf daganna og í henni megum við fyrirgefa sjálfum okkur.

Blíðar kveðjur,  Auðir

By |25 apríl 2016 21:33|Dagleg trú|