Gleðilega sumardaga

Gleðilega sumardaga

Við sendum hver annarri allar saman einlægar óskir um gleðilega og góða sumardaga í birtu daga og nátta.  Njótum nú lífsins eins og við mögulega getum og þökkum Guði vinkonu okkar fyrir hverja stund gleðinnar og felum henni eins og alltaf þær stundanna þegar skyggir í lofti í huga okkar og umhverfi.  Það birtir alltaf aftur.
Treystum Guði.

By |8 maí 2018 17:18|Dagleg trú|

Vegurinn heiman er vegurinn heim

Vegurinn heiman er vegurinn heim

Við ætlum í messunni næst að tala um Emmausfarana, þau sem fóru síðdegis á páskadag niðurbrotin heim til sín frá  Jerúsalem og gátu ekki ennþá gert sér það ljóst að Jesús  var upprisinn.  Þá kom ókunnur maður og lét sem hann vissi ekki hvað þau töluðu um.  Þau sögðu honum að allar vonir þeirra um Jesúm væru brostnar því hann var dáinn.  Þau buðu honum að borða og gista því það var orðið framorðið.  Og þegar hann braut brauðið við kvöldverðarborðið og rétti þeim sáu þau að það var hann.  Og þótt það væri framorðið hlupu þau til baka til Jerúsalem til að segja hinum.

Við ætlum svo að tala um kirkjuna okkar þar sem svo margt fólk segist ekki kæra sig um að vera lengur og kirkjan geti bara sjálf kennt sér um að þau fari.  Þau verða bara að fara, held ég.   En þau ættu ekki að gera það.  Þau ættu að hugsa málið og sjá að kristin trú er undirstaða þeirra góðu gilda sem eru í heiðri.  Hún er grundvöllur þeirra sem vilja.

En við sem látum okkur ekki detta í hug að það væri kirkjunni að kenna ef við færum, það væri bara sjálfum okkar að kenna, hugsum saman:  Við sláum vörð um kirkjuna eins og hún hefur  slegið vörð um okkur.  Hún sagði okkur frá Jesú.

Kvennakirkjan er sjálfstæður hópur innan þjóðkirkjunnar og stendur þar með hópunum mörgu, öllum söfnuðunum og öllum hinum sjálfstæðu hópunum innan og utan þjóðkirkjunnar.  Þar er alls staðar annast um allt það fólk sem er þar og gildin sem við eigum öll saman.

Blíðar kveðjur.  Auður

By |12 apríl 2018 18:48|Dagleg trú|

Gleðilega aðventu !

Ég fékk bók eftir konu sem er doktor í guðfræði í Svíþjóð. Bókin ersamtal hennar og Guðs og mér fannst hún frábær. Hún hugsar sér að Guð segist alls ekki vera almáttug og við þurfum ekki að kenna sér um ófarir heimsins og okkar sjálfra því hún hafi gefið okkur frelsið til að stjórna eigin lífi. Ófarirnar stafa af því að við völdum ekki hana heldur okkur sjálf og það olli henni miklum vonbrigðum og sársauka. Kannski var það bjartsýni sem ég átti aldrei að hafa að gera þetta svona. En ef þið eruð ekki frjáls eruð þið ekki manneskjurnar sem ég skapaði. Sagði Guð. Og segir skýrt og greinilega að hún elski okkur og hafi alltaf gert og munialltaf gera og við skulum aldrei efast um það.

Þetta þótti mér gaman að lesa. Af því að ég gæti ekki hugsað mér að leggja Guði þetta í munn. Ég er handviss um að hún er algjörlega almáttug og tekur þátt í öllu okkar lífi frá einum  morgni til annars. Og þjáist með okkur þegar við ráðum hvorki við eitt né annað. Og gleðst þegar við gerum það nú samt. Sem ersvo oft.

Hvað segir þú? Njótum aðventunnar í trú okkar á Guð, okkur og hin og finnum frið og gleði í trausti okkar til Guðs vinkonu okkar sem kom til okkar og var Jesús frelsari okkar. Það er nefnilega svoleiðis. Alveg áreiðanlega. Og Guði sé lof fyrir það.

Gleðilega aðventu, Auður

By |6 desember 2017 19:04|Dagleg trú|

Trúboð

Það er talað um tregðu fólks til að sækja kirkju. Og beina andstöðu við kristna trú. Og skeytingarleysi. Kirkjufólkið spyr hvert annað hvað við eigum til bragðs að taka. Ég veit að í útlendum kirkjum eru haldnar ráðstefnur til að tala saman um það hvað sé hægt að gera til að fá fólktil að koma.

Ég hef mína skoðun á málinu og hef haft hana lengi. Ég veit ekki hvortþú ert sammála og það er ekkert víst. En hún er svona:

Fólk ræður hvað það hugsar og segir og hvert það fer til að sækja sér gleði og uppörvun eða huggun og ráð eða hvað sem það leitar að. Ég þarf að undirbúa það sem ég ætla að segja með frásögu úr kirkjunni.

Þegar Lúter fór að predika varð vakning. En bara hundrað árum seinna var kirkjan sigin í deyfð og sinnuleysi. Þá var prestur í Strassborg sem hét Filip Jakob Spener, Hann velti því fyrir sér hvernig væri hægt að  fá fólk til að koma. Honum datt í hug að safna þeim saman sem höfðu  áhuga svo að þau gætu beðið saman og lesið Biblíuna og talað um trú sína. Hann gerði það og brátt hófst ný vakning með nýjum áhuga og gleði.

Ég held við ættum að hafa þetta ráð og það muni takast eins og þá. Þess vegna held ég að við skulum halda áfram að halda saman í trú okkar,  hittast eins og við getum, en biðja líka hver fyrir sig og lesa Orðið og lifa í glaðlegri trú okkar. Það eru margir hópar í kirkjunni eins og hópur okkar í Kvennakirkjunni. Þeir eru allir uppspretta kristinnar trúar sem umfaðmar og styrkir og gleður. Ég held að þessir góðu og yndislegu hópar séu besta leiðin […]

By |13 október 2017 18:09|Dagleg trú|

Guð eldar mat

GUÐ ELDAR MAT

Það er oft sagt frá því í Biblíunni að Guð eldaði handa fólki sínu.Hún eldaði kjúklinga og bakaði vöfflur handa þeim sem voru á langri göngunni frá Egyptalandi til Ísrael. 16. kafli í Annarri Mósebók

Hún bakaði brauð handa Elía þegar hann var skjálfandi af ótta inni í hellinum á fjallinu. 19. kafli í Fyrri Konungabók

Jesús bakaði brauð og steikti fisk hans vinkonum sínum og vinum og gaf þeim morgunkaffi við Galíleuvatnið eftir að hann var upprisinn. 21. afli í Jóhannesarguðspjalli

 

By |20 september 2017 21:28|Dagleg trú|

Gleðilegt haust

Nú förum við aftur að sjást og heyrast jafnt og þétt og mikið er það gaman.  Ég er nú nokkrum dögum fyrir fyrstu messuna okkar í fjöllunum í Sviss.  Mér finnst við hátt uppi en Yrsa sem er prestur hérna segir að þetta séu bara kallaðar hæðir því fjöllin séu svo  miklu miklu hærri.  Hér liggja bækur á borðum,  samlede værker Dorothee Solle sem við höfum lesið svo mikið eftir og líka ensk bók með frásögum um Guð sem tekur sér ýmislegt fyrir hendur eins og við gerum sjálfar.  Eitt kvöldið sýður hún sér skál af núðlum enveit ekki alveg hvað þær þurfa að sjóða heppnast.  Hún vildi borða með einhverjum og hefuraldrei haft gaman af að borða ein.  En það er ekkert þak á húsinu svo hún horfir upp til stjarnanna og það er verulega flott.

Það er eins og við segjum líka sjálfar:  Við drekkum morgunkaffi með Guði.  Og borðum endilega með henni.  Henni finnst miklu skemmtlegra þegar hún hefur okkur hinu megin við borðið.  Og bráðum verða stjörnur á himninum í kvöldmatnum og haustið faðmar okkur að sér.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |13 september 2017 21:23|Dagleg trú|

Gleðilega páska !

Hugsýki beygir fólk en vingjarnlegt orð gleður það.   Þetta stendur í Orðskviðunum 12.25.   Ég held það sé svo prýðilegt fyrir okkur að hugsa um það á þessum gleðidögum sem kirkjan kallar dagana eftir páska.  Auðvitað á það við alla daga ársins og það er einmitt vegna hugsýki sumra daga sem getur mætt hverri manneskju sem það er undursamlegt að heyra um gleðina.

Gleðjumst og gleðjumst vegna þess að páskarnir færa okkur gleði á hverjum einasta degi, líka þeim sem eru allt annað en gleðilegir heldur dagar sorgar eða annars sem beygir okkur.  Á þeim dögum reisir það okkur við að heyra vingjarnleg orð sem Guð segir sjálf við okkur og gefur öðrum til að gefa okkur

Páskarnir færa okkur örugga vissu um ást Guðs og styrk hennar og hjálp og nærveru allra daga.  Hún sem skapaði allt og heldur alltaf áfram að skapa kom og varð manneskja eins og við.  Hún var Jesús.  Hann sem lifði daga sína við sömu kjör og við, í gleði og mótlæti eins og við,  og gekk alla leið inn í dauðann  eins og við gerum.

Nema hann gekk lengra.  Hann gekk þangað sem við hefðum ekki komist ef hann hefði ekki farið þangað.  Hann sigraði dauðann. Hann reis upp til nýs lífs.  Og hann gefur okkur það nýja líf sem hann vann til að færa okkur öllum.

Syngjum um það á hverjum einasta degi.  Syngjum sálm á dag. Jesús er upprisinn.  Hann lifir. Hann er hjá okkur.  Svo að gleðin er alltaf nærri, líka þegar við erum beygðar.  Og við megum treysta því að við rísum alltaf alltaf upp til nýrrar gleði.

Blíðar kveðjur og gleðilega daga.  Auður

By |18 apríl 2017 21:09|Dagleg trú|

Loforð Guðs

Í Kvennakirkjunni tölum við  um kvíðann og þann undursamlega sannleika að Guð læknar kvíða okkar.  Við skulum heyra loforð Guðs:

Guð sagði aftur og aftur við fólkið sitt að það skyldi alltaf rifja það upp fyrir sér hvernig hún hjálpaði því.  Fyrst og fremst skyldu þau minnast þess hvernig hún frelsaði þau þegar þau voru þrælar í Egyptalandi.  Þá leiddi ég ykkur yfir hafið og gegnum eyðimörkina.  Ég fór á undan ykkur á kvöldin eins og ljós til  að finna ykkur næturstað og ég gekk á eftir ykkur á daginn eins og ský svo að óvinirnir sem eltu ykkur sæju ykkur ekki.

Eins og Guð frelsaði fólkið sitt úr þrældómi í Gamla testamentinu með því að standa á milli þeirra og óvinanna segir í Nýja testamentið hvernig hún kom í Jesú til að frelsa okkur frá okkar eigin hugsunum sem elta okkur.  Hugsunum eins og kvíðanum.

Jesús kom og sagði við okkur:  Komið til mín með þungar hugsanir ykkar og ég gef ykkur frið í hjarta ykkar.  Ég gef ykkur minn frið en ekki það sem heimurinn kallar frið og er engnn friður.  Ég frelsa þig.  Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af  því hvernig þú getur gert þetta.  Þú þarft ekkert að gera.  Þú skalt bara vera í mér eins og greinin er á tréinu.  Vertu í mér og þá finnurðu frið.

Guð blessar okkur orðið sitt.  Amen.

By |11 mars 2017 14:06|Dagleg trú|

Hvaða siðbót ættum við að gera ?

Nú er siðbótarárið mikla, 500 ár síðan Lúter kom fram með stórkostlega siðbót sína.  Hann sagði að við skyldum ekki treysta siðum og hefðum heldur trúnni.  Það breytti kirkjunni og gaf hverri einustu manneskju sem það vildi þiggja sannfæringu um að hún ætti frið og uppörvun Guðs.  Guð myndi styðja hana til að nota trú sína í öllu daglegu lífi sínu.

Síðan eru 500 ár.  Hvað segjum við núna?  Við skulum  tala saman um það.  Ég hef sagt að ég held að það séekki sem verst fyrir okkur að halda áfram eins og við  höfum gert.  Standa staðfastar í trú okkar og gleðjast yfir henni og nota hana í öllum dögum okkar.  Við skulumhalda áfram að tala saman og efla trú okkar, dýpka hana og víkka og gera okkur betur og betur grein fyrir þvi hvað hún er.  Við skulum dýpka guðfræði okkar og við skulum vinna þau verk sem við getum í trúnni.

Eða hvað finnst þér?

Ég held að þetta sé svo gagnlegt.  Af því að ég er handviss um að það hefur mikil áhrif.  Við berum allar með okkur trausta og glaðlega trú okkar út í daglegt lífið og höfum áhrif í kringum okkur.  Og það gera aðrir hópar líka.  Svo í sameiningu breytum við heiminum.  Og það held ég nú að  sé áframhaldandi siðbót.

Blíðar kveðjur, Auður Eir.

 

 

By |8 febrúar 2017 10:36|Dagleg trú|

Hver er yfirskriftin yfir trú okkar?

Þetta sögðu konurnar sem hittast á mánudögum í Þingholtsstræti

Traust.  Hvíld.  Vissan um að Guð er með okkur og vinnur með okkur.                                                       Hún heyrir bænir okkar og við sjáum það strax eða seinna.                                                                     Það er að taka eftir bænheyrslum án þess s að heimta að þær verði eins og við viljum.                           Það er að vera opnar fyrir anda Guðs og laða að okkur það sem er gott.                                                Það er að hugsa ekki neikvæðar hugsanir heldur jákvæðar.                                                                     Það er að láta trúna koma fram í því sem við gerum.                                                                                   Það er sjá að Guð er með okkur í öllum samskiptum okkar við annað fólk, góðum og flóknum.           Það er að sjá […]

By |6 desember 2016 20:51|Dagleg trú|