audurilitminnstJá, nú erum við að skrifa bókina sem við einu sinni ákváðum að skrifa:  Kaffihús vinkvenna Guðs.  Við erum að skrifa um fyrirgefninguna sem er  aðalboðskapur bókarinnar.

Þess vegna er það þegar ég kem á ýmsa staði innan um fólk að mér dettur í hug hvort þetta fólk sé eitthvað að hugsa um það sem við erum að tala um og skrifa.  Ætli þau séu stundum að hugsa um syndina sem er fyrirgefin?  Ég bara veit það ekki.

Ætli við séum kannski bara að tala út í bláinn og ættum frekar að tala öðru vísi, segja annað og segja það á annan hátt?

Það getur bara verið.  Við gerum það líka.  Við tölum um gleðina yfir að vera til og möguleikana til að gera dagana frábæra og gefum gullin ráð úr orðum Biblíunnar:  Hættu nú að dæma annað fólk og sjálfa þig.  En gerðu þér grein fyrir því sem er um að ske. Vertu ekki að fylla hjarta þitt af furðulegum hugmyndum en hafðu nóg rúm þar fyrir það sem er gott og gleðilegt.  Sjáðu hvað þú átt margt í dögunum núna og í minningunum.  Njóttu þess og notaðu.

Þetta segjum við og svo margt fleira í öllum guðþjónustunum og á námskeiðunum og í bókunum okkar.  Þetta er guðfræðin okkar og miklu dýpri en heillaráð til sjálfshjálpar sem eru samt frábær og við notum sjálfar í guðfræði okkar.  Hún er alltaf, hvað sem hún fjallar um, fagnaðarerindið um fyrirgefninguna.  Fyrirgefning Guðs er stórkostlegasta gjöf daganna og í henni megum við fyrirgefa sjálfum okkur.

Blíðar kveðjur,  Auðir