Nú byrjum við

Gleðilegt haust.  Það er rétt að koma segir fólk.  En enn er sumar.
Dag eftir dag er góða veðrið sem við vöknum til og sofnum frá.
Við þökkum Guði hvern dag.  Og njótum daganna.  Við byrjum
messurnar okkar og höldum svo áfram.  Eins og við höldum
áfram með gleðina frá góða sumrinu sem var eins og öll sumur
voru þegar við vorum litlar og lékum okkur alla daga.  Leikum
okkur líka núna eins og við getum, mitt í ábyrgð okkar og alls
sem við þurfum að gera.  Ef við leikum okkur líka verður öll
vinnan svo miklu betri.  Gleðjum yfir trú okkar á Guð vinkonu
okkar.    Hún brallar svo.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |22 ágúst 2019 21:02|Dagleg trú|

Kveðjur eftir páska

Það er innileg ósk okkar að við höfum allar átt gleðilega páska og fundið nálægð Guðs í hjarta okkar.  Við skulum biðja hver fyrir annarri og vita að það er beðið fyrir okkur.

Við höfum fylgst með páskadögunum öllum, öllu sem Jesús og vinkonur hans og vinir gengu í gegnum á leiðinni til Jerúsalem þegar Jesús sagði þeim að hann myndi deyja.  Við lásum um
hugarró hans á dögunum í Jerúsalem þegar hann hélt áfram predikun sinni þótt hann vissi hvað var í vændum.  Við lásum um samveruna við síðustu kvöldmáltíðina, handtökuna, dómsmeðferðina hjá Gyðingum og Rómverjum og krossfestinguna. Og upprisuna á páskamorgun þegar Jesús hitti konurnar  við gröfina og sagði þeim fagnaðarerindið sem breytti öllu í huga og lífi hópsins hans og svo allra þeirra sem áttu eftir að heyra og lifa upprisuna í eigin lífi.

Við höfum allar fundið gleði kristinnar trúar og finnum hana í hverjum degi okkar, þeim sem eru glaðlegir og þeim sem eru erfiðir og geta verið óskiljanlegir.  Guð blessar okkur eins og alltaf og talar við okkur í Orðinu og lífinu.  Guð blessar þig og allt sem þú felur henni.  Hún blessar okkur allar saman og styður okkur í predikun okkar.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |23 apríl 2019 8:21|Dagleg trú|

Biblíulestur Kvennaguðfræðinnar

Allt starf okkar í Kvennakirkjunni er byggt á kvennaguðfræðinni sem við höfum lesið saman öll okkar ár og fjallað um á margvíslegan hátt.
Kvennaguðfræðin var umfangsmikil og áhrifarík á tveimur síðustu öldum og alltaf hluti af allri kvennahreyfingunni.   Kvennahreyfingin barðist fyrir rétti, sjálfstæði og sjálfsmynd kvenna og gegn kúguninni sem konur þoldu um allar aldir.

Kúgunin var rakin til Biblíunnar og kvennaguðfræðin rannsakaði málið.  Það var augljóst að ásökunin var rétt og konur sögðu sig úr kirkjunni.

Það var líka augljóst að kvenfyrirlitning Biblíunnar kom aldrei nokkurn tíma frá Guði heldur frá þeim tímum þegar Biblían var skrifuð.  Kvennaguðfræðingar kirkjunnar skrifuðu mikla guðfræði um eilifa samstöðu Guðs sem konum í þjáningu þeirra og órétti sem birtist í Biblíunni á öllum öldum.  Þær sáu og skrifuðu um frelsun Guðs.  Kirkjan hefur alltaf safnað fólki sínu saman til
biblíulestra til að styrkjast og fagna.

By |20 apríl 2019 12:19|Dagleg trú|

Jesús og við

Það er alltaf ráðlagt að huga að hugsunum okkar og líðan og ekki síst nú á föstunni.  Þá hugum við meira en aðra daga að lífi Jesú á dögum hans á leið til Jerúsalem, krossfestingarinnar og upprisunnar.  Hann mætti því sem var óhjákvæmilegt, gekk í gegnum það að sigraði það.

Við erum hvattar til að hugsa um það sem hefur verið okkur erfitt á okkar eigin lífsgöngu og sjá að eins og Jesús sigraði býður hann okkur að sigra.  Hann býður okkur huggun og styrk og hugrekki og gleði til að halda áfram.

Jesús sagði við lamaða manninn að hann skyldi taka sæng sína og ganga.  Mér finns það geta þýtt fyrir okkur að við skulum taka að okkur vandamál okkar og gera þau viðráðanleg og halda áfram.   Við höldum áfram að vita af mótlætinu en það ræður ekki ferðinni heldur ráðum við sjálfar.

Jesús sagði líka að við skyldum hrista rykið af fótum okkar. Við skulum skilja mótlætið eftir og hugsa ekki meira um það.

Jesús býður okkur ýmsar lausnir.  Af því að lífið er ýmiskonar og við mætum því á ýmsan hátt.  Hann býður okkur alltafað vera hjá okkur og gefa okkur allt sem við þurfum.

Það er mesta lífshamingja okkar og undirstaða allrar hamingju að vita það.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |12 mars 2019 19:41|Dagleg trú|

Við lesum Biblíuna

Við ætlum nú að hafa biblíulestra á dagskrá okkar til vors en kannski stinga einu og öðru inn á milli eins og við gerum oft.  Allt eftir því sem við viljum.

Biblían er undirstaða kristinnar trúar og þess vegna allrar kirkjunnar fyrr og síðar um víða veröld.  Biblían er alltaf prentuð og alltaf rifin út. Sjálfar höfum við sagt frá því að við höfum ævinlega fundið uppörvun okkar í Biblíunni, í stríði og friði.  Við vitum að við erum í milljónahópi þegar við segjum það.  Biblían er alltaf metsölubók.

Kirkjan hefur alltaf endurlífgast með því að safna sér saman til biblíulesturs.  Hin mikla trúarvakning Lúters varð vegna rannsóknar Lúters á Biblíunni.  Þar fann hann grundvöll lífs síns sem var sá að við finnum frið okkar í trúnni á Guð en ekki í okkar eigin hugmyndum og verkum.  Við réttlætumst af náð, voru lausnarorðin.  Af náð en ekki af verkum.  Þess vegna, vegna náðarinnar skulum við leggja okkur í  framkróka til að gera verk okkar vel.  Sagði Lúter.

Þegar hin mikla vakning siðbótarinnar hafði endurlífgað sviðið í 100 ár kom afturkippur í starfið.  Það er auðveldara að hefja verk en halda því við.  Siðbóðtin var fallin í form og gleðin þornuð.  Það þurfti að  gera eitthvað.  Hvað átti að gera?  Það sem þurfti að gera og var gert var þetta:   Siðbótarfólkið safnaðist saman til að lesa Biblíuna.

Hann hét Jakon Spener sem tók af skarið.   Hann bjó í Strassborg.  Og þegar siðbótarfólkið hélt áfram biblíulestri sínum og samkomum varð ný og öflug vakning sem barst með mikilli gleði um Evrópu og Ameríku.

By |15 febrúar 2019 18:56|Dagleg trú|

Gleðilegt 2019

Gleðilegt 2019

Já, Guð gefi þér gott ár með gleði,  heilsu og hamingju. Með hugarró, kjarki og auðmýkt,  Með öllu sem þú þarft til að lifa lífinu dag  eftir dag í trú þinni og trausti til Guðs. Já, það byrjar allt með trú okkar og trausti til Guðs.  Þá kemur hugarróin og jafnvægið, gleðin og allt annað gott.

Þetta ár færir okkur samstarf við Guð eins og öll hin árin. Við skulum hugsa um það.  Við skulum hugsa um tækifærið sem Guð gefur okkur til að taka þátt í hennar eigin áformum
fyrir líf okkar.  Hún hefur áform um okkur.

Ég legg fyrir þig lífið og dauðann, segir Guð  í 5.Mós. 30.19.  Og svo segir hún:  Veldu þá lífið.

Við eigum kostinn.  Við megum velja.  Við megum velja það dag eftir dag að bera áform okkar upp við Guð og hlusta á hana svara.  Við megum treysta því að hún styður okkur alltaf til að taka góðar og réttar ákvarðanir um hugsanir okkar og framkvæmdir svo að við treystum sjálfum okkur til að gera líf okkar gott og bjart.
Hún og við.  Dag eftir dag.  Allt þetta nýja ár.

Gleðilegt ár,  Auður

By |8 janúar 2019 20:03|Dagleg trú|

Jólahugleiðing frá Huldu Hrönn M. Helgadóttur

Jólahugleiðing 2018

Töfrar jólanna birtast okkur í kærleikanum – kærleika Guðs til okkar mannanna sem sýnir sig í gjöfinni í jötunnni.  Barnið okkar er fætt, frelsari heimsins.  Þegar við krjúpum við jötuna og horfum á barnið, á kærleiksgjöfina þá víkja neikvæðar tilfinningar fyrir nálægð Guðs.  Kærleikur Guðs hefur áhrif á okkur og umfaðmar okkur og hefur heilsusamleg áhrif, því ástin er læknandi afl, opnandi og lækkar varnarmúrana og blóðþrýstinginn ku víst líka og eykur dopamine.  Óttinn er hins vegar lokandi afl, aðskilur okkur frá öðrum.  Með því að komast framhjá óttanum getum við tekið á móti gleðinni – jólafögnuðinum.  Það gerist með kærleikanum.  Við þiggjum kærleika Guðs, hvílum í honum og leyfum honum að næra og uppbyggja hjörtu okkur.  Já vera lausnina og hið frelsandi afl í lífi okkar.   Síðan gefum við kærleikann til baka með því að umfaðma aðra í kærleika.

Verið óhrædd, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum:  Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn.  (Lúkas 2.10-11) 

Blessun

Megi gæfan þig geyma,

megi Guð þér færa sigurlag.

Megi sól lýsa þína leið,

megi ljós þitt skína sérhvern dag.

Og bænar bið ég þér,

að ávallt geymi

þig Guð í hendi sér.

(Írsk blessun, Bjarni Stefán Konráðsson þýddi)

 

Sálmur 75

Ó, Jesús, barn, þú kemur nú í nótt,

og nálægð þína ég í hjarta finn.

Þú kemur enn, þú kemur undra hljótt,

í  kotin jafnt og hallir fer þú inn.

 

Þú kemur enn til þjáðra´ í heimi hér

með huggun kærleiks þíns og æðsta von.

Í gluggaaleysið geisla inn þú ber,

því guðdómsljóminn skín um mannsins son.

 

Sem ljós og hlýja´ í hreysi dimmt og kalt

þitt himneskt orð burt máir skugga´og synd.

Þín heilög návist helgar mannlegt allt, –

í hverju barni sé ég þína mynd.

                          (J. J. Smári)

By |16 desember 2018 18:16|Dagleg trú|

Verum okkur verulega vænar

Verum okkur verulega vænar

Nú er haldið upp á hundrað ára afmæli loka fyrra stríðsins.  Líka hundrað ára afmæli okkar eigin fullveldis.  Og ársins 1918 er minnst fyrir hörmungar spænsku veikinnar, gossins og kuldans. Nálgast það kannski þröngsýni og eigingirni að fara  að tala um okkar eigin mál þegar svo mörg stórmál eru rædd?

Við erum alltaf hluti af heildinni.  Líka núna.  Við njótum góðæris og við gjöldum vonleysis kvíðans og úrræðaleysisins gagnvart honum.

Hvað gerum við?  Hvers megnum við?  Við megnum nú sem alltaf að taka það í hendur sem við getum.  Við megnum að taka okkar eigin daga í okkar eigin hendur eftir því sem okkur er frekast unnt.  Það er ekki eigingirni heldur hjálp við það sem stendur okkur næst að taka sjálfar okkur að okkur og sjá allt það góða sem heildin hefur gefið okkur.  Að gleðjast og þakka. Þá getum við líka gefið.

Hvað segir þú um þetta?  Er ekki best fyrir okkur að vera okkur eins vænar og við getum og treysta því að einmitt þá verði heldur gott að vera samferða okkur um dagana?

Við skulum biðja fyrir þeim sem hafa tekið það að sér að takast á við velferð okkar allra.  Bænin er kröftug.  Eins  og við vitum allar.

Blíðar kveðjur, Auður

By |18 nóvember 2018 9:10|Dagleg trú|

Guð er alltaf

Yndislegt er það að hafa aftur samband eftir sumarið og heyra hvað við höfum gert síðan við töluðumst við síðast.  Guð er alltaf.  Hún er alltaf hjá okkur, alltaf til taks, alltaf viss um vináttu okkar.  Yndislegt er að eiga vináttuna hver við aðra í trausti okkar til hennar.   Það er ekki hægt að meta það til fulls að eiga hópinn okkar í Kvennakirkjunni og við sendum hver annarri innilegar þakkir fyrir vináttuna.  Við megum hugsa til hópsins sem stendur með okkur í trú okkar.

Ýmislegt hefur gerst hjá sumum okkar í sumar,  eitthvað gott og uppörvaindi hjá okkur öllum en sumar okkar hafa líka horfst í augu við missi og sorg.  Við treystum því að samt hafi líka margt gott gerst og að það styrki okkur. Nú bíða dagarnir sem fara kólnandi og verða dimmari hver af öðrum. Ef okkur finnst það ekki gleðiefni megum við hugsa með réttu að það líður ekki á löngu þangað til þeir verða aftur bjartari og bjartari. Það gerist í desember núna eins og öll ár.

Gleðjumst og fögnum dag eftir dag.  Treystum Guði sem er alltaf hjá okkur, alltaf tilbúin til að standa með okkur.  Það er stórkostlegt.  Af öllum góðum framboðum um betra líf ber framboð Guðs langt af öllum öðrum:  Treystu mér, vertu hjá mér og þá finnurðu að ég er hjá þér.  Ég gef þér alltaf hugsanir sem gera þérgott.  Ég blessa þig alltaf, segir Guð við þig og okkur allar.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |16 október 2018 8:44|Dagleg trú|

Meyjarnar tíu

Elizabeth Cady Stanton var frumkvöðull kvennabaráttunar og stofnaði fyrstu kvenfrelsissamtök Bandaríkjanna árið 1848 með vinkonu sinni Lucretiu Mott sem vr prestur kvekara.   Þegar Elizabeth um var um áttrætt gaf hún út Kvennabiblíuna með konum sem höfðu menntast stórlega í nýjum möguleikum kvenna.  Þær endurþýddu og endurskýrðu kafla um konur í Biblíunni til að gá hvað væri raunverulega sagt þar um konur.

Í Kvennabiblíunni er meðal annars skýring  á  dæmisögunni um meyjarnar tíu í 25. kafla Matteusarguðspjalls.  Elizabeth lýsir hinum óhyggnu meyjum sem miklum kjarkkonum.  Einar um miðnættið standa þær útilokaðar í myrkrinu og verða af veislunni miklu sem þær ætluðu til.  Þær höfðu ekki útbúið sig eins og þær áttu að gera en þær tóku ábyrgðina á því.  Vitru stúlkurnar höfðu útbúið sig og nutu framtaksseminnar.

Sagan um meyjarnar tíu er um tíu ungar konur  sem voru allar boðnar í brúðkaup.  Veislan átti að byrja einhvern tíma um kvöldið og allar stúlkurnar svo dauðþreyttar steinsofnuðu meðan þær biðu.  Þær vöknuðu við útkallið og þá var komið miðnætti.  Myrkrið var skollið á og fimm þeirra sáu sér til skelfingar að það var slokknað á lömpunum þeirra og þær höfðu ekki tekið með sér neina olíu.  Þær stóðu bjargarlausar í myrkrinu og eina ráðið var að biðja hinar fimm um hjálp, en þær höfðu tekið olíu með.  Þá verðum við allar olíulausar, sögðu þær.   Þið verðið bara að drífa ykkur í búðina.  Og stúlkurnar fimm fóru til að kaupa.  En  þegar þær komu að veislusalnum var búið að loka.  Þær misstu af sameiginlegri göngunni í veisluna og svo af veislunni sjálfri.  Það var trúlega af því að þær höfðu verið að snúast í að setja olíu á lampana hjá mönnunum i fjölskyldum sínum, feðrum, bræðrum og frændum […]

By |23 júní 2018 16:08|Dagleg trú|