Gleðilegt haust

Nú förum við aftur að sjást og heyrast jafnt og þétt og mikið er það gaman.  Ég er nú nokkrum dögum fyrir fyrstu messuna okkar í fjöllunum í Sviss.  Mér finnst við hátt uppi en Yrsa sem er prestur hérna segir að þetta séu bara kallaðar hæðir því fjöllin séu svo  miklu miklu hærri.  Hér liggja bækur á borðum,  samlede værker Dorothee Solle sem við höfum lesið svo mikið eftir og líka ensk bók með frásögum um Guð sem tekur sér ýmislegt fyrir hendur eins og við gerum sjálfar.  Eitt kvöldið sýður hún sér skál af núðlum enveit ekki alveg hvað þær þurfa að sjóða heppnast.  Hún vildi borða með einhverjum og hefuraldrei haft gaman af að borða ein.  En það er ekkert þak á húsinu svo hún horfir upp til stjarnanna og það er verulega flott.

Það er eins og við segjum líka sjálfar:  Við drekkum morgunkaffi með Guði.  Og borðum endilega með henni.  Henni finnst miklu skemmtlegra þegar hún hefur okkur hinu megin við borðið.  Og bráðum verða stjörnur á himninum í kvöldmatnum og haustið faðmar okkur að sér.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |13 september 2017 21:23|Dagleg trú|

Gleðilega páska !

Hugsýki beygir fólk en vingjarnlegt orð gleður það.   Þetta stendur í Orðskviðunum 12.25.   Ég held það sé svo prýðilegt fyrir okkur að hugsa um það á þessum gleðidögum sem kirkjan kallar dagana eftir páska.  Auðvitað á það við alla daga ársins og það er einmitt vegna hugsýki sumra daga sem getur mætt hverri manneskju sem það er undursamlegt að heyra um gleðina.

Gleðjumst og gleðjumst vegna þess að páskarnir færa okkur gleði á hverjum einasta degi, líka þeim sem eru allt annað en gleðilegir heldur dagar sorgar eða annars sem beygir okkur.  Á þeim dögum reisir það okkur við að heyra vingjarnleg orð sem Guð segir sjálf við okkur og gefur öðrum til að gefa okkur

Páskarnir færa okkur örugga vissu um ást Guðs og styrk hennar og hjálp og nærveru allra daga.  Hún sem skapaði allt og heldur alltaf áfram að skapa kom og varð manneskja eins og við.  Hún var Jesús.  Hann sem lifði daga sína við sömu kjör og við, í gleði og mótlæti eins og við,  og gekk alla leið inn í dauðann  eins og við gerum.

Nema hann gekk lengra.  Hann gekk þangað sem við hefðum ekki komist ef hann hefði ekki farið þangað.  Hann sigraði dauðann. Hann reis upp til nýs lífs.  Og hann gefur okkur það nýja líf sem hann vann til að færa okkur öllum.

Syngjum um það á hverjum einasta degi.  Syngjum sálm á dag. Jesús er upprisinn.  Hann lifir. Hann er hjá okkur.  Svo að gleðin er alltaf nærri, líka þegar við erum beygðar.  Og við megum treysta því að við rísum alltaf alltaf upp til nýrrar gleði.

Blíðar kveðjur og gleðilega daga.  Auður

By |18 apríl 2017 21:09|Dagleg trú|

Loforð Guðs

Í Kvennakirkjunni tölum við  um kvíðann og þann undursamlega sannleika að Guð læknar kvíða okkar.  Við skulum heyra loforð Guðs:

Guð sagði aftur og aftur við fólkið sitt að það skyldi alltaf rifja það upp fyrir sér hvernig hún hjálpaði því.  Fyrst og fremst skyldu þau minnast þess hvernig hún frelsaði þau þegar þau voru þrælar í Egyptalandi.  Þá leiddi ég ykkur yfir hafið og gegnum eyðimörkina.  Ég fór á undan ykkur á kvöldin eins og ljós til  að finna ykkur næturstað og ég gekk á eftir ykkur á daginn eins og ský svo að óvinirnir sem eltu ykkur sæju ykkur ekki.

Eins og Guð frelsaði fólkið sitt úr þrældómi í Gamla testamentinu með því að standa á milli þeirra og óvinanna segir í Nýja testamentið hvernig hún kom í Jesú til að frelsa okkur frá okkar eigin hugsunum sem elta okkur.  Hugsunum eins og kvíðanum.

Jesús kom og sagði við okkur:  Komið til mín með þungar hugsanir ykkar og ég gef ykkur frið í hjarta ykkar.  Ég gef ykkur minn frið en ekki það sem heimurinn kallar frið og er engnn friður.  Ég frelsa þig.  Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af  því hvernig þú getur gert þetta.  Þú þarft ekkert að gera.  Þú skalt bara vera í mér eins og greinin er á tréinu.  Vertu í mér og þá finnurðu frið.

Guð blessar okkur orðið sitt.  Amen.

By |11 mars 2017 14:06|Dagleg trú|

Hvaða siðbót ættum við að gera ?

Nú er siðbótarárið mikla, 500 ár síðan Lúter kom fram með stórkostlega siðbót sína.  Hann sagði að við skyldum ekki treysta siðum og hefðum heldur trúnni.  Það breytti kirkjunni og gaf hverri einustu manneskju sem það vildi þiggja sannfæringu um að hún ætti frið og uppörvun Guðs.  Guð myndi styðja hana til að nota trú sína í öllu daglegu lífi sínu.

Síðan eru 500 ár.  Hvað segjum við núna?  Við skulum  tala saman um það.  Ég hef sagt að ég held að það séekki sem verst fyrir okkur að halda áfram eins og við  höfum gert.  Standa staðfastar í trú okkar og gleðjast yfir henni og nota hana í öllum dögum okkar.  Við skulumhalda áfram að tala saman og efla trú okkar, dýpka hana og víkka og gera okkur betur og betur grein fyrir þvi hvað hún er.  Við skulum dýpka guðfræði okkar og við skulum vinna þau verk sem við getum í trúnni.

Eða hvað finnst þér?

Ég held að þetta sé svo gagnlegt.  Af því að ég er handviss um að það hefur mikil áhrif.  Við berum allar með okkur trausta og glaðlega trú okkar út í daglegt lífið og höfum áhrif í kringum okkur.  Og það gera aðrir hópar líka.  Svo í sameiningu breytum við heiminum.  Og það held ég nú að  sé áframhaldandi siðbót.

Blíðar kveðjur, Auður Eir.

 

 

By |8 febrúar 2017 10:36|Dagleg trú|

Hver er yfirskriftin yfir trú okkar?

Þetta sögðu konurnar sem hittast á mánudögum í Þingholtsstræti

Traust.  Hvíld.  Vissan um að Guð er með okkur og vinnur með okkur.                                                       Hún heyrir bænir okkar og við sjáum það strax eða seinna.                                                                     Það er að taka eftir bænheyrslum án þess s að heimta að þær verði eins og við viljum.                           Það er að vera opnar fyrir anda Guðs og laða að okkur það sem er gott.                                                Það er að hugsa ekki neikvæðar hugsanir heldur jákvæðar.                                                                     Það er að láta trúna koma fram í því sem við gerum.                                                                                   Það er sjá að Guð er með okkur í öllum samskiptum okkar við annað fólk, góðum og flóknum.           Það er að sjá […]

By |6 desember 2016 20:51|Dagleg trú|

Gleðilega aðventan

Ég fór að hlusta á Margréti Bóasdóttur söngmálastjóra kirkjunnar segja frá jólasálmum í ýmsum löndum.  Það kom fram að hér væru aðventusálmar mun stillilegri í gleðinni en í ýmsum öðrum löndum.

Hvað segirðu um það?  Kannski bara.  En það er alveg óþarfi og við skulum alla vega vera glaðlegar bæði í aðventumessunni og öllu öðru. Þó það nú væri enda erum við jafnan glaðlegar í fasi og huga.  Eða finnst þér það ekki líka?

Við vitum mætvel að aðventan er tími tilhlökkunarinnar.  Við hlökkum til jólanna og hvað sem hver segir um amstrið og hégómann er þetta yndislegur tími og við getum hagað amstrinu eins og við viljum og við þurfum ekki að hafa nokkurn hégóma hjá okkur.   Hlökkum bara til.

Enda eigum við það undursamlega tilhlökkunarefni að heyra fagnaðarerindið um að Guð er komin til okkar og orðin ein af okkur en enn yndislegri og trúfastari en við.  Hún kom til að gefa okkur gleði og frið, létta af okkur fáránlegum hugsunum og gera okkur bjartsýnar og glaðværar, þrautseigar og þolinmóðar og allt sem við þurfum í mismunandi dögunum.  Við treystum henni og gleðjumst í hjarta okkar og verðun okkur og öðrum til góðs.

Blíðar kveðjur, Auður

By |30 nóvember 2016 20:47|Dagleg trú|

Traustið og hvíldin í trúnni

Við styrkjum hver aðra í trú okkar svo að við finnum alltaf að trúin er raunveruleiki daganna.  Það er yndislegt eins og við allar vitum og gerir dagana einn eftir annan að góðum dögum.

Erfiðir dagar verða líka góðir í hjálpinni sem Guð gefur okkur. Það er mikil gjöf að komast í gegnum erfiðleika, það sem er óvænt og það sem við vildum að gerðist ekki.  Við vitum af reynslunni að það gerist alltaf eitthvað í þá áttina við og við. Þeim mun gleðilegra er að eiga friðsama daga og skemmtilega daga og daga sem færa okkur óvænta gleði.

Við hittumst í Þingholtsstræti á hverjum mánudegi og tölum um trú okkar.  Eitt skiptið bað ég þær í hópnum að segja hvernig þær lýstu trú sinni.  Þær sögðu:

Traust.  Hvíld.  Vissan um að Guð er með okkur og vinnur með okkur.  Hún heyrir bænir okkar og við sjáum það strax eða seinna.   Það er að taka eftir bænheyrslum án þess að heimta að þær verði eins og við viljum.  Það er að vera opnar fyrir anda Guðs og laða að okkur það sem er gott.  Það er að hugsa ekki neikvæðar hugsanir heldur jákvæðar.  Það er að láta trúna koma fram í því sem við gerum.

Það er að sjá að Guð er með okkur í öllum samskiptum okkar við annað fólk, góðum og flóknum.  Það er að sjá hvað það er yndislegt að það er nóg í trú okkar að eiga Guð.  Það er að sjá aðGuð er alltaf að skapa.  Hún brallar svo, eins og Steinunn okkar Pálsdóttir segir.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |9 nóvember 2016 15:57|Dagleg trú|

Það sem við hugsuðum við Þvottalaugarnir í Laugardalnum

Þegar við hittumst við Þvottalaugarnar í Laugardalnum vorum við í grónum og friðsælum garði. Garðurinn er líka svið merkilegrar sögu og kraftar náttúraflanna ólga undir. Hér er svið atvinnusögu kvenna, um dugnað og þrautseigju. Þær komu hingað með þungar byrðar og vinnan var erfið og hættuleg. Aðstæður voru einstakar og við sjáum fyrir okkur að stundirnar hafi líka verið góðar og samstaða og vinátta á milli kvennanna.

Leyndarmál lífsgæðanna eru í samskiptum okkar hver við aðra, í skilningi og samstöðu. Sýnt hefur verið að hamingja fólks vex með góðum samskiptum. Hamingjan mælist mest þegar fólk fæst við eitthvað sem skiptir það verulega miklu máli, eitthvað sem hefur merkingu og tilgang.

Með bestu kveðjum,  Sigrún Gunnarsdóttir

By |14 október 2016 20:19|Dagleg trú|

Enn meira af ráðningarsamningnum í Guðsríkinu

Njóttu þess sem þú gerir og gerðu það vel

Guðsríkið er í daglegu lífi þínu.

Láttu þér þykja vænt um fólk

Guð elskar þetta fólk og vill að fyrirtækið sýni það.

Úr bók Kvennakirkjunnar: Vertu leiðtogi í þínu eigin lífi.  Með blíðum kveðjum,  Auður Eir

By |10 október 2016 20:18|Dagleg trú|

Við vitum hvert við ætlum

Við vitum hvert við ætlum og hvað við ætlum að gera. Ákveðum hvað fær að vaxa í okkar eigin garði. Gerum það upp við okkur hvað við leggjum rækt við, hvað við reynum að þroska og efla innra með okkur til að eiga frjósaman og fallegan garð, garð okkar eigin huga. Sjáum tækifærin í aðstæðum okkar og lifum lífinu núna, því það er best.

Með bestu kveðjum,  Sigrún Gunnarsdóttir

By |6 október 2016 20:17|Dagleg trú|